19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

1. mál, fjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. Halldór Blöndal þurfti að fara langt aftur í söguna til að finna ábyrgan fjármálamann út hópi Sjálfstfl. — En vegna ummæla sem hér hafa orðið um erlendar lántökur og heimildir til þeirra í fjárlögum vil ég vekja athygli á því, að hv. þm. eru nýlega búnir að samþykkja till. frá mér þar sem fjmrh. var heimilað að ábyrgjast lán eða taka lán og endurlána virkjunaraðila, allt að 50 millj. kr. eða jafnvirði þeirra fjárhæðar í erlendri mynt, og í öðru lagi að taka lán vegna endurskoðaðrar lánsfjáráætlunar fyrir árið 1981 er nemi allt að 45 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. (SvH: Hverjir samþykktu þetta?)

Þessi till. á sér nokkra forsögu. Það lá fyrir í gær, að stjórnarandstaðan mundi koma í veg fyrir að lánsfjáráætlun yrði afgreidd fyrir jól. Þess vegna kom upp sú spurning, hvort ekki væri rétt að afla heimilda í fjárlögum til að ganga frá lánsfjáráætlun fyrir árið 1981. Ég ræddi um það við í fyrsta lagi ráðuneytisstjórann í fjmrn. og í öðru lagi við Jóhannes Nordal seðlabankastjóra, hvort ekki væri eðlilegt að gera þetta. Þeir sáu hvorugur neitt athugavert við að svo væri. Eftir það hafði ég samráð við stjórnarandstöðuna um þetta, í fyrsta lagi Sighvat Björgvinsson, formann þingflokks Alþfl., í öðru lagi fulltrúa Sjálfstfl. í fjvn., Lárus Jónsson, og í þriðja lagi formann þingflokks Sjálfstfl., Ólaf G. Einarsson.

Þeir voru allir sammála mér um að eðlilegt væri að fjmrh. aflaði slíkrar heimildar, hvort sem þeir væru efnislega samþykktir því eða ekki. Allir þeir aðilar, sem ég nú hef nefnt, hafa verið sammála um að það væri eðlilegt að afla heimildar til erlendrar lántöku í 6. gr. fjárl. Svo kemur allt í einu Matthías Á. Mathiesen þar á eftir og fer að gagnrýna þetta. Ég held að hann hljóti að standa nokkuð einn uppi með þessa gagnrýni. Í öllu falli ítreka ég það, að áður en þessar erlendu lántökur voru teknar inn var haft sérstakt samráð við stjórnarandstöðuna um það.