19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

1. mál, fjárlög 1982

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Meginástæða þess, að ég kveð mér hljóðs í þessum umr. um þingsköp, eru að ég vil taka það skýrt fram varðandi okkur, sem störfum í fjvn. og erum í stjórnarandstöðu, að þótt það tíðkist að við flytjum till. með meiri hl. eins og um 6. gr.-ákvæðin, þá höfum við almenna fulla fyrirvara um afstöðu okkar og frjálsar hendur um atkvgr. Þess vegna vísa ég á bug ummælum eins og þeim sem komu fram hjá hæstv. iðnrh. áðan.

Í öðru lagi vil ég taka það fram vegna ummæla hæstv. fjmrh., að það er alrangt, sem kom fram hjá honum, að stjórnarandstaðan hefði komið í veg fyrir að það næðist að afgreiða lánsfjáráætlun fyrir jól. Það er ósatt og er aðeins í stíl við það sem þessi hæstv. fjmrh. hefur sagt hingað til á hinu háa Alþingi. Ég vil taka skýrt fram, að það var okkar skoðun, að við ættum að rannsaka þessi mál mjög vel, sem ekki veitti af, eins og fram kemur í þessum umr. þegar ýmsum lántökum er skákað á milli lánsfjárlaga- og fjárlagagerðarinnar. Við höfum tekið það skýrt fram, að við viljum sitja hér eftir helgina til að vinna að þessum málum. Við höfum tekið það skýrt fram, að við viljum sitja hérna án þess að þingi verði frestað. Það er ríkisstj. sjálf sem kýs að senda stjórnarandstöðuna heim og sína eigin menn, vegna þess að hún óttast að sumir úr röðum stjórnarsinnanna hér á þingi séu svo veikir þegar til efnahagsaðgerða þarf að koma í jólafríi, að hún þorir ekki að hafa þingið sitjandi á meðan. Þetta er meginástæðan. Ég lýsi furðu minni yfir því, að hæstv. ráðh. skuli koma hér í umr. um þingsköp og halda annarri eins firru fram og hann hefur gert. (Fjmrh.: Það er greinilegt hver óttast sannleikann.)