19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

1. mál, fjárlög 1982

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt að taka hér til máls þar sem hæstv. fjmrh. lét að því liggja, að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen mundi vera sá eini sem túlkaði lög á þann veg sem hann gerði. Ég hygg að hv. þm. hafi rétt fyrir sér og í þessu tilfelli ætti hann a. m. k. að hafa það vegna þess að það var ákveðið að þessar heimildir yrðu ekki veittar með almennum lögum, það var ákveðið í fjh.- og viðskn. Ed: Þegar ákveðið er að ekki skuli veita heimild með almennum lögum, þá hlýtur þó sú ákvörðun að gera það að verkum, að allsendis sé óheimilt að gera það síðar í fjárlögum, einkum og sér í lagi þegar upphæðir eru ótilgreindar. Ég hygg að þess hafi ætíð verið gætt í þingsögunni, að heimildir til erlendrar lántöku væru mjög skýrt afmarkaðar. Jafnvel þó að við höfum stundum gengið of langt í lántökum e. t. v., þá hefur þess ætíð verið gætt, að það væri skýrt afmarkað. Og það kom einmitt fram í ræðu hæstv. fjmrh. sjálfs í gær í Ed. við fsp. minni. Ég hygg því að þetta mál sé með þeim hætti, sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen gat um, og treysti því, að ráðh. gangi ekki til þess leiks að taka erlend lán án þess að Alþingi fái betur um það að fjalla.