19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

1. mál, fjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það mun nokkuð óvenjulegt að flóknar umræður fari fram um túlkanir á lögum við afgreiðslu fjárlagafrv. og teldi ég heldur við hæfi að athuga þetta mál sér á parti en hér í miðri atkvgr. En ég vil bara ítreka það sem ég sagði hér áðan, að ég ræddi bæði við lögfróða menn og við þm., bæði fulltrúa frá stjórnarandstöðu og stuðningsmenn þessarar stjórnar, og voru allir sammála um að eðlilegt væri að gera þetta og reyna þetta.

Ég sagði líka áðan að ég teldi víst að fordæmi væru fyrir þessu. Hvað er aftur á móti lagalega rétt í strangasta skilningi, ef nánar er að gáð, vil ég ekkert fullyrða um á þessu stigi málsins. Það kemur fram í þeim orðum, sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen las upp áðan, að stundum hefur Alþingi helgað sér ákveðnar venjur sem kannske standast ekki í strangasta skilningi laga. Hvort það er til góðs eða ills skal ég ósagt láta, en ég hygg þó að vera kunni að hér ætti eitthvað svipað við.