19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

165. mál, frestun á fundum Alþingis

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þm. Alþfl. eru andvígir þeirri till., sem hér er til umfjöllunar, og munu greiða atkv. gegn henni. Þm. Alþfl. telja að hvorki sé ástæða né heldur aðstæður til að fresta þingi með þeim hvimleiða hætti sem hér er gert, gera það óvirkt.

Eins og kunnugt er á Alþingi val milli tveggja leiða um það, með hvaða hætti það fer í jólaleyfi. Það er tvennt sem kemur til álita í þeim efnum. Önnur leiðin er sú sem hér er lagt til að farin verði, að Alþingi samþykki þingfrestun. Þá afsalar þingið sér öllum völdum og ríkisstj. fær heimild til brbl.-setningar samkv. gildandi stjórnarskrá, sem teljast verður úrelt að þessu leytinu til. Eftir þessu er ríkisstj. að sækjast og losa sig þannig við þingið. En hin leiðin, sem líka eru fordæmi fyrir, er sú einfaldlega að gera þinghlé í allt að tvær vikur án sérstakrar ályktunar þingsins. Þá heldur Alþingi valdi sínu og er ávallt tiltækt. Þá er hvorki þörf né heimild fyrir brbl. setningu.

Það er allt í óvissu nú um hvað fram undan er. Það nægir að minna á fiskverðsákvörðun sem taka verður um áramótin, en þær ákvarðanir hafa fyrr þurft og kannske munu þær enn frekar nú þurfa afskipti löggjafarvaldsins. Talsmenn ríkisstj. tala nú opinskátt um að þörf sé sérstakra efnahagsaðgerða um áramótin. Þá mundi líka þurfa afskipti löggjafarvaldsins að öllum líkindum. Það verður að vísu ekki fundin nein heil brú í málflutningi talsmanna ríkisstj. um það, til hvaða aðgerða verði gripið. Sjútvrh. hefur lofað mikilli gengislækkun um áramót, forsrh. hugleiðir hins vegar leiðir til að hækka ekki fiskverð, félmrh. talar um að afnema olíugjald og stofnfjársjóðsgjald og viðskrh. talar um að lækka vexti. Flest af þessu þarfnast afskipta löggjafans. Þess vegna á löggjafinn að vera við höndina.

Þetta gefur allt tilefni til þess, að þingið sé til reiðu, að þinghlé sé gert, en fundum ekki frestað samkv. fyrirliggjandi þáltill. Þingið getur gert hlé á fundum sínum yfir hátíðarnar, en það á að vera til reiðu. Það er þess vegna ástæðulaust með öllu að samþykkja þá þáltill. sem hér liggur fyrir. En það sem meira er: Við ríkjandi aðstæður er beinlínis rangt að gera þingið óvirkt með þessum hætti.

Herra forseti. Við þm. Alþfl. erum andvígir þessari þáltill. og munum greiða atkv. gegn henni.