20.01.1982
Sameinað þing: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

Forseti (Jón Helgason):

Bjartmar Guðmundsson fyrrv. alþm. andaðist í Landspítalanum s. l. sunnudag, 17. jan., 81 árs að aldri.

Bjartmar Guðmundsson var fæddur 7. júní 1900 á Sandi í Aðaldal. Foreldrar hans voru Guðmundur skáld og bóndi á Sandi Friðjónsson og Guðrún kona hans Oddsdóttir. Hann stundaði nám í unglingaskóla á Breiðumýri í Reykdælahreppi fimm mánuði á árinu 1919 og var síðan óreglulegur nemandi í Eiðaskóla veturinn 1921–1922. Ævilangt átti hann heimili á Sandi í Aðaldal, vann framan af á búi föður síns, en reisti býlið Sand II árið 1938. Þar rak hann bú til 1960. Jafnframt sinnti hann ýmsum félagsmálastörfum í sveit sinni og héraði. Hann átti sæti í hreppsnefnd Aðaldælahrepps árin 1931–1962, var oddviti 1954–1962. Hann var í sýslunefnd 1936–1978 og í stjórn Kaupfélags Þingeyinga 1937–1961. Árið 1944 var hann skipaður hreppstjóri í Aðaldælahreppi og gegndi hreppstjórastörfum til 1978. Við þrennar kosningar til Alþingis var hann í kjöri í Norðurlandskjördæmi eystra og var landskjörinn alþm. 1959–1971, sat á 12 þingum alls. Hann átti sæti í úthlutunarnefnd listamannalauna 1960–1966, í mþn. til endurskoðunar vegalaga 1961–1963 og í mþn. til að endurskoða lög um lax- og silungsveiði 1967–1969.

Bjartmar Guðmundsson naut ekki langrar skólagöngu um ævidagana, en hann ólst upp á menningarheimili sem reyndist honum góður skóli. Í ætt hans var og er rík hneigð og hæfileikar til ritstarfa og skáldskapar. Sjálfur ritaði hann ýmislegt í blöð og tímarit, annaðist útgáfu fjögurra binda af ritsafni föður síns, sem kom út 1955–1956, og var ritstjóri Árbókar Þingeyinga 1958–1971. Á efri árum lét hann frá sér fara þrjár frumsamdar bækur með smásögum og minningaþáttum. Hann kom á Alþingi lífsreyndur maður og þjálfaður í félagsstörfum. Hér átti hann í fyrstu sæti í landbn. og samgn. og síðar í menntmn. Þær nefndir fjölluðu um þau þingmál sem honum var umhugað um öðrum fremur. Með rósemi og festu vann hann að framgangi ýmissa þeirra mála þann rúma áratug sem hann átti sæti á Alþingi.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Bjartmars Guðmundssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum. ]