20.01.1982
Efri deild: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

134. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Það er eðlilega langt um liðið síðan umr. um þessi mál fór fram hér í hv. deild. Menn töluðu þar nokkuð út um þetta mál og fóru nokkuð vítt út í málefnasviðið. Ég vil allra síst verða til þess að tefja þetta mál frekar en orðið er. Tveir þeirra manna, er beðið höfðu um orðið fyrir áramót, hafa fallið frá því. En eftir þær miklu umr. sem urðu hér fyrir jólin um þessa frumvarpsgerð um flutningsráð ríkisstofnana og raunar fjölmargt annað, m. a. Framkvæmdastofnun ríkisins, gildi hennar og ýmislegt því tengt, get ég ekki annað en sagt fáein orð í lokin.

Í fyrsta lagi kom það fram hjá mörgum í þessari umr., að flutningsráð það, sem þetta frv. fjallar um, væri jafnvel nýtt bákn. Þess vegna komst blessuð Framkvæmdastofnunin inn í þessar umr. m. a. — Ég vil alveg sérstaklega undirstrika það, að þetta frv. okkar hv. 11. þm. Reykv. lýtur aðeins að nefndarskipun. Flutningsráðið er nefnd manna, ráðgefandi nefnd. Það er öfugt við það sem er á Norðurlöndunum og það sem þau hafa gert varðandi stofnanaflutning. Norðurlandaþjóðirnar hafa bæði nefnd í gangi og svo er til ákveðin stofnun í stjórnkerfi þeirra, í byggðamálaráðuneytum, þar sem er fjallað um þetta. Ég held að ráðsnafnið hafi e. t. v. villt nokkuð um fyrir mönnum. Hér er aðeins gert ráð fyrir ráðgjafarnefnd hjá forsrn. og alls ekki stofnun. Það er alls ekki okkar ætlun, þó það virðist hafa komið hér fram, og gæti því ráðið allt eins heitið flutningsnefnd ríkisstofnana af þeim ástæðum.

Spurningin, sem knýr á hjá mér í þessu efni, er hvort einhver hreyfing megi verða á þessum málum, hvort þau eigi að vera í algerri ládeyðu, eins og raun ber vitni, eða hvort átak skuli a. m. k. undirbúið eða þá í hógværasta lagi að málinu sé komið að hluta til af stað með einhverjum hætti. Ég hef marglýst því yfir hér, að hverri þeirri aðferð, sem mönnum þykir vænlegust til einhverrar hreyfingar í þessu, verður tekið fagnandi af okkur flm., óháð því sem við flytjum hér þó við séum með þetta í þessu ákveðna formi.

Í öðru lagi vil ég nefna það, og það snertir orðalagsathugasemdir varðandi ákveðnar greinar sem eru alveg réttmætar, að svo sem eðlilegt er virtist það fara fram hjá sumum að það er langt um liðið síðan þetta varð að frv. Þetta er nákvæmlega orðrétt upp úr nál. frá 1975. Það væri betra ef eitthvað hefði breyst síðan í þessum efnum. Það hefur í raun og veru ekkert gerst í þessum efnum, en eins og einmitt var komið inn á hefur í sumum tilfellum jafnvel verið farið aftur á bak í þessum efnum. Ég vil taka það fram, af því að það kom ekki fram í minni framsögu, að þessi nefnd var skipuð mönnum úr öllum flokkum úr öllum kjördæmum landsins og hún stóð einróma að því frv. sem við höfum flutt hér. Ég hef tekið þann kost að flytja frv. óbreytt eins og það kom frá nefndinni. Ég hef ekki aðra haldbærari aðferð, eins og ég nefndi, til að koma þessu máli á framfæri.

Ég minni aðeins til viðbótar á einróma stuðningsyfirlýsingar Samtaka sveitarfélaga á Vestfjörðum, á Norðurlandi og á Austfjörðum við þetta frv., að vísu með athugasemdum, en við meginefni þess eða einhverja þá skipan sem gæti komið í staðinn. Ég verð því að taka það fram, að það hefði vafalaust verið rétt aðferð hér í þessari hv. deild að fá flm. úr öllum flokkum að frv. í þessa átt sem allir hefðu getað sætt sig við, en í raun og veru verður það þá hlutverk nefndar í þess stað að finna þessu máli sem farsælastan farveg.

Í þriðja lagi vil ég, án þess að fara út í umr. um Framkvæmdastofnun ríkisins, af því að hún kom sumpart inn í vegna þess að ég nefndi að byggðadeild hennar, sem starfandi er, kæmi vissulega til álita sem aðili sem gæti fjallað um þessi mál, — þá vil ég segja að menn geta endalaust deilt um Framkvæmdastofnunina, áhrif hennar til góðs eða ills, en sú umræða á ekki heima hér, þ. e. um Framkvæmdastofnun í heild. Ég held hins vegar að allir geti verið sammála um það, að megináhrif Byggðasjóðs hafa verið hin jákvæðustu í yfirgnæfandi tilfellum hvarvetna um landsbyggðina. — En ég skal sem sagt um Framkvæmdastofnunina og deildir hennar ekki fara út í neina umr. hér. Það kom margt athyglisvert fram í umr. hér fyrir jólin og ekkert nema gott um það að segja að menn skiptist á skoðunum um þá stofnun. Við skulum ræða um hana þá við annað tækifæri og á öðrum vettvangi að sjálfsögðu. En mér er mest í mun að þetta mál megi á einhvern hátt komast þannig á hreyfingu að við sjáum þess dæmi, að stofnanir, útibú og deildir frá stofnunum komi í einhverjum mæli út á land, en ekki verði sú öfugþróun sem jafnvel á sér stað varðandi stofnun eins og hér var nefnd alveg sérstaklega, Síldarverksmiðjur ríkisins.