20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

159. mál, iðnfræðingar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um rétt manna til að kalla sig iðnfræðinga, en það er flutt að ósk Iðnfræðingafélags Íslands. Með frv. þessu er lagt til að starfsheitið iðnfræðingur verði lögverndað með sams konar hætti og starfsheitin verkfræðingur og tæknifræðingur. Um þær atvinnustéttir gilda lög nr. 73/1968, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, tæknifræðinga eða byggingafræðinga. Iðnfræðingar eru brautskráðir raftæknar, véltæknar og byggingartæknar, sem svo eru kallaðir, frá Tækniskóla Íslands eða hafa hlotið sambærilega menntun erlendis. Starfsgreinar þessar höfðu til skamms tíma heitið iðntæknar, en í okt. 1980 breyttu iðntæknar starfsheiti sínu í iðnfræðinga.

Færst hefur í aukana hin síðari ár að starfsheitum ýmissa atvinnustétta hafi verið veitt lögvernd. Á s. l. ári voru samþykkt tvenn slík lög, lög nr. 6/1981, um breytingu á lögum um vélstjóra, og lög nr. 27/1981, um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga. Auk Iðnfræðingafélags Íslands hafa nýlega leitað til iðnrn. bæði Félag húsgagna- og innanhúsarkitekta og landslagsarkitekta og óskað eftir að flutt verði frv. um lögverndun á starfsheitum félagsmanna þeirra. Eru mál þessara aðila nú til athugunar í samráði við Arkitektafélag Íslands.

Við meðferð á frv. þessu gæti verið ástæða til að velta fyrir sér hver þróunin verði í starfsheitamálum í framtíðinni og hvort stöðug aukning á lögverndun starfsheita í þjóðfélaginu sé heppileg með þeim kostnaði og þeirri vinnu sem hlýst af framkvæmd slíkrar löggjafar. Á móti verður hins vegar að meta bæði öryggi þeirra, sem við hlutaðeigandi starfsstéttir skipta, svo og hagsmuni starfsstéttanna sjálfra. Þess ber að gæta, að erfitt er að stöðva þá þróun að veita lögvernd á starfsheitum, þar sem sanngirnisrök mæla með því, að þær starfsstéttir, sem svipað er ástatt um, öðlist sams konar réttindi varðandi lögvernd starfsheita.

Frv. þetta vekur einnig til umhugsunar um það, hvort rétt væri að samræma hin margvíslegu lagaákvæði, er fjalla um verndun starfsheita og safna saman í heildarlöggjöf. Eins og málum er nú háttað heyra starfsheitalög undir viðkomandi fagráðuneyti. Færa mætti að því rök hins vegar, að þessi mál tengist einna sterkast menntamálunum og ráðuneyti menntamála.

Herra forseti. Þessar hugleiðingar eiga fyrst og fremst víð um framtíðina. Það, sem snýr að okkur nú, er það frv. sem hér liggur fyrir. Ég mæli með því, að því verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. iðnn. þessarar deildar.