20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

94. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Málfrelsi er eitt af þeim mannréttindum sem hvað helgust eru, og það hljóta að verða mjög gild rök að koma til ef talið er nauðsyn að svipta þm. málfrelsi svo að nokkru nemur. Það er ekki ótrúlegt, að stjórnvöld á hverjum tíma vilji gjarnan hafa sem þægilegasta möguleika að koma málum í gegnum þingið, m. a. með því að takmarka sem mest frelsi stjórnarandstöðunnar til að koma sínum málum á framfæri. Ég tel þess vegna að það þurfi ávallt að fara með mikilli gát ef á að þrengja að þessum helga rétti, og ég er andvígur þeirri hugmynd að auka rétt framkvæmdavaldsins í gegnum ráðh. til að stjórna störfum þingsins.

Ég vil aftur á móti fagna því, að flm. þeirrar till., sem hér er lögð fram, flytur hana meðan hann er stjórnarandstæðingur og þar með á marga vegu hlutlausari aðili til að dæma um hvað sé skynsamlegt í þinginu á hverjum tíma. Mér virðist að samkv. þingsköpum hafi forseti mikið vald til að draga úr ræðutíma manna. En einn er þó sá leikur þm. sem ávallt hefur verið notaður þann tíma sem ég hef verið á þingi, ef forseti ætlar að beita þessu valdi sínu, og án þess að á því sé tekið virðist vera tilgangslaust að þrengja aðrar reglur. Ef forseti hefur ætlað að sýna mikla stjórnsemi, taka mál af dagskrá eða stytta mál meir en góðu hófi gegnir, þá hafa einstakir þingmenn ávallt svarað með því að koma hér upp í pontuna til að tala um þingsköp. Og ef við förum yfir þær ræður, sem fluttar hafa verið undir þeirri yfirskrift að verið sé að ræða um þingsköp, þá kemur augljóslega í ljós að menn hafa tekið sér rétt í þeim umræðutíma til að tala um það sem þeir vildu að væri á dagskrá. Þess vegna sýnist mér að það hafi takmarkaðan tilgang að þrengja hinar almennu reglur ef þetta frelsi verður eftir sem áður til. En í grundvallaratriðum er ég þannig sinnaður, að ég met málfrelsið það mikils að jafnvel þó það kosti að forsetar verði að hafa næturfundi, þá efa ég að það sé réttlætanlegt að svipta þm. svo mjög rétti til þess að tjá sig hér í ræðustól.