20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er margvíslegt óréttlætið og misréttið í þjóðfélaginu og er þar af æðimörgu að taka, en þó eru einstakir þættir þess sem stinga mjög í augu og eru meira áberandi en aðrir. Það frv., sem hér er nú til umr., snertir einn þáttinn af því óréttlæti og misrétti sem við búum við — misrétti sem er búið að ræða æðimikið hér á Alþingi og víðar, en tiltölulega lítil leiðrétting hefur fengist á. Sama má segja að því er varðar 5. mál sem hér var á dagskrá áður. Það er einn þátturinn í því óréttlæti, sem þjóðfélagið býður upp á, og er ein leiðin, sem bent er á, sem mætti fara til að leiðrétta þetta misrétti og óréttlæti.

Hér er vissulega mjög mikið alvörumál á ferðum, svo mikið að það hlýtur að fara að vekja ugg þeirra sem til þekkja ef fram heldur sem horfir, en það er ekki að sjá á hæstv. ráðh. að þeir hafi miklar áhyggjur af þessum málum. Ég beini því nú til hæstv. forseta, hvort honum finnst sæmandi að ræða mál sem þetta eða ræða yfirleitt mál hér á Alþingi án þess að einn einasti hæstv. ráðh. sé viðstaddur. (HBl: Þeir eru svo lengi að skilja að það skiptir kannske ekki öllu máli.) Jú, það skiptir miklu máli, því þó að skelin sé þykk, þó að þeir skilji lítið, er kannske meiri von til þess að koma þeim í skilning um hlutina ef nógu lengi og vel er talað við þá. Mér finnst það varla sæmandi að ræða mál hér í deildinni í fjarveru ráðh., ég tala nú ekki um jafnmikilvægt mál og hér er á ferðinni, sem getur orðið til þess — ef það ekki er þegar orðið til þess — að valda einhverjum mestu fólksflutningum úr dreifbýlinu hér á þéttbýlissvæðin. — Ég sé að hæstv. félmrh. er sestur í hliðarherbergi og ætlar líklega að gæta hagsmuna hæstv. ríkisstj. En þó að mér þyki vænt um það og virði það við hæstv. ráðh. hefði mér þótt enn þá vænna um ef hæstv. forsrh. væri viðstaddur þessa umr. Það er einmitt að honum — og hæstv. ríkisstj. auðvitað allri — sem þetta mál snýr.

Hv. frsm. og 1. flm. að þessu frv. gerði grein fyrir hvað hér er á ferðinni, hvernig þetta hefur þróast og hvað er lagt til. Það er ástæða til að ítreka að það hefði verið hægt, ef vilji hefði verið fyrir hendi hjá hv. stjórnarsinnum hér á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga, að stíga stórt skref til leiðréttingar í þessu máli. Hefði verið farin sú leið, sem í upphafi var ætlast til að farin yrði, þ. e. að verja öllu því fé, sem íslenskir skattþegar eru skattlagðir fyrir til að jafna orku, sem eru 190 millj. rúmar á fjárlögum ársins í ár, þá hefði verið hægt að stíga stórt skref í átt til jöfnunar með því að láta þá fjármuni renna til þess verkefnis sem þeim var ætlað að gera. En hv. stjórnarliðar komu í veg fyrir að þetta réttlætismál næði fram að ganga. Það er hryggilegt til þess að vita, að í þeim hópi eru margir þm. þeirra dreifbýliskjördæma sem eiga við þennan ójöfnuð og þetta óréttlæti að búa, það eru fulltrúar þessa fólks sem koma í veg fyrir að fjármunum sé skilað til þess verkefnis sem þeim var ætlað í upphafi. Hér er því beinlínis um stuld á fjármunum að ræða. Hér er um stuld á fjármunum að ræða, því að af þessum rúmlega 190 millj., sem ætlaðar eru á fjárlögum til orkujöfnunar og íslenskir skattþegar eru skattlagðir um, er einungis ætlað að skila rúmlega 30 í þetta verkefni. Tæplega 160 millj. er ætlað að nota í allt aðrar þarfir ríkissjóðs, en búið er að skattleggja fólk sem þessu nemur til þess að renni til jöfnunar á orkuverði. Þetta er svartur blettur á meiri hl. Alþingis, sem lengi mun standa á þeim hv. þm. sem hér áttu hlut að máli og komu í veg fyrir að þeim fjármunum væri skilað til réttra aðila, eins og lög gera ráð fyrir og ætlast er til.

Þetta er spurning um jöfnun lífskjara fyrst og fremst, spurning um hvort t. d. launþegar, verkafólk, sjómenn á Vestfjörðum, svo ég taki dæmi, eiga að þurfa að vinna rúmlega 12 vinnuvikur á árinu í ár til að ná upp þeim mismun sem er á orkuverði til upphitunar íbúðarhúsnæðis miðað við það sem er hér á Reykjavíkursvæðinu. Svo þurfum við að bæta við þessa 12 vikna vinnu því sem þarf að borga í skatt af þeim tekjum.

Ég hef sagt það áður og segir það enn, að ef eitthvað hefur áhrif á hæstv. ráðh. og stjórnarliða sé það líklega helst og hið eina að flytja þessa ágætu einstaklinga út á landsbyggðina og láta þá borga þessa reikninga sjálfs. Sumir þeirra eru að vísu búsettir á svæðum sem þetta tekur til, en augu þeirra hafa ekki opnast, a. m. k. ekki til þess að þeir treysti sér að styðja þetta mál, eins og dæmi sýna.

Þetta mál hefur verið margoft rætt hér á hv. Alþingi, en það hefur lítið þokað í átt til jafnaðar, allt of lítið. Eigi að síður held ég að það sé vaxandi skilningur hins almenna borgara í þessu landi, jafnvel hér á þessu svæði, Reykjavíkursvæðinu, á því að hér þarf að verða breyting á. En það dugar skammt meðan þeir, sem á toppnum tróna, hæstv. ráðh., hæstv. ríkisstj., loka augum og eyrum fyrir því að hér þurfi að verða breyting á. Það eru því fyrst og fremst stjórnvöld sem standa í vegi fyrir að þetta réttlætismál nái fram að ganga. Það er mikil ábyrgð og þung sem þeir góðu herrar taka á sínar herðar ef þeir ætla áfram að standa í veginum fyrir að hér verði gerð á leiðrétting, koma í veg fyrir að meiri jöfnuður verði ríkjandi í þessum þætti en nú er. Ég er viss um að það er enn vaxandi skilningur á því, að hér þarf að verða breyting á ef fólk fæst til að hugleiða þetta í fullri alvöru.

Núna í desembermánuði var t. d. kyndingarkostnaður á venjulegu íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum, hvort sem menn taka heldur rafhitun eða fjarvarmaveituhitun, á bilinu frá 1600–1900 kr., þ. e. 160–190 þús. gkr., desembermánuð vegna upphitunar á venjulegu íbúðarhúsnæði. Er auðvitað augljóst mál öllum þeim sem um það hugsa, að slíkt ástand getur ekki gengið legur. Hér verður að verða breyting á. Því verður ekki unað lengur að stjórnvöld þverskallist við þessum réttlátu óskum og kröfum frá þessum einstaklingum um leiðréttingu.

Nú er það svo, og ég tel nauðsynlegt að koma því hér inn í þessar umr., að ein meginkrafa af hálfu Alþýðusambands Vestfjarða í þeim samningum, sem enn standa yfir af hálfu þess, er á hendur ríkisvaldinu um jöfnun orkuverðs. Sérstök sendinefnd kom á fund hæstv. forsrh. til að gera grein fyrir þessari kröfu og óska eftir vilyrði af, hálfu ríkisvaldsins fyrir því að þetta yrði leiðrétt. Engin leiðrétting hefur fengist enn önnur en sú, að í lokin féllst hæstv. ríkisstj. á það eftir mikinn þrýsting að skila örfáum aurum meira af því sem hún hafði tekið af skattþegnum á árinu 1981 til að jafna kyndingarkostnað. Hún skilaði nokkrum aurum meira en hún ætlaði sér sjálf í styrk vegna olíukyndingar. En eins og hv. þm. er auðvitað ljóst — a. m. k. ætti að vera ljóst — er orðið tiltölulega lítið brot af íbúum þessa lands sem býr við olíukyndingu, en þó eru þeir of margir. En sannleikurinn er sá, að það er orðinn lítilli munur á kostnaði við kyndingu með olíu og rafmagnskyndingu eða fjarvarmakyndingu. Auðvitað á það í sumum tilfellum líka við um jarðhitakostnað, t. d. á Súgandafirði, þar sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þekkir vel til. Það er ekki ýkjamikill munur á því, hvað kostar að kynda með olíu þar eða hvað það kostar að kynda með jarðhita eða jarðvarma nú. Dæmin eru til þó að þau séu sem betur fer fá. Vegna þessa litla munar, sem orðinn er, er enn meiri þrýstingur á og áhersla á það lögð að hér verði gerð bót á. Nú er staðan sú, að allt bendir til þess — a. m. k. getur það gerst áður en langur tími liður — að þvergirðingsháttur hæstv. ríkisstj. hvað varðar leiðréttingu á þessum málum verði jafnvel til þess að heill landshluti leiðist út í verkfall innan ekki langs tíma.

Lykillinn að þeirri lausn, sem hægt er að hugsa sér í þeirri kjaradeilu, sem ASV á í við vinnuveitendur og ríkisvald, er að hæstv. ríkisstj. sjái að sér og komi til móts við þá kröfu sem launafólk á Vestfjörðum — og ekki aðeins á Vestfjörðum, þetta á við miklu fleiri launþega en þar — gerir til hæstv. ríkisstj., að hún geri hér á leiðréttingu. Mér er ljóst að hæstv. ríkisstj. mundi ekki geta lofað fullkominni leiðréttingu á þessu stigi máls. En þó ekkert gerðist annað en skilað væri til réttra aðila því fjármagni sem af þeim er tekið í skattheimtu til orkujöfnunar, þ. e. 16 gömlum milljörðum til viðbótar við það sem nú er, þá væri það stórt skref í réttlætisátt. Ég beini því til hv. stjórnarþm., þeirra þm. sem eru fulltrúar fyrir hliðstæð svæði og t. d. Vestfirðir, ég tala nú ekki um Vestfjarðaþm. sem styðja hæstv. ríkisstj., það ætti ekki að þurfa að beina því til þeirra. Hvað segir hv. þm. Matthías Bjarnason? (MB: Ætli það veiti af?) Nei, reynslan sýnir að það muni ekki af veita. Það er þykkur skrápurinn á fleiri en hæstv. ráðherrum. — Ég beini því til þessara hv. þm. að þeir taki nú til hendinni og komi hæstv. ráðh. í skilning um að hér verður að breyta til. Það verður ekki hjá því komist. Og ég beini því til hæstv. félmrh., fulltrúa öreiganna í landinu að eigin mati, að hann reyni nú að hafa þau áhrif innan hæstv. ríkisstj.ríkisstj. komi til móts við þessar kröfur launþega á Vestfjörðum. Það er mikil ábyrgð sem hæstv. ráðh. taka á sig ef þeir ætla að þverskallast enn einu sinni og áfram við þeim óskum um breytingu sem liggja fyrir, ef þeir ætla vísvitandi að stuðla að því að heill landshluti fari út í verkfall vegna þvermóðsku hæstv. ríkisstj. og að hluta til vegna þvermóðsku atvinnurekenda, en lykillinn er hjá hæstv. ríkisstj. ef hún vill nota hann. Ég legg mikla áherslu á þetta og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að það sé ekki vilji fyrir því, ef menn skoða þetta mál án pólitískra gleraugna og af fyllstu sanngirni, — að þá sé ekki fullur vilji fyrir því, meiri hluti fyrir því hér á Alþingi að stíga skref til meiri jafnaðar en nú er varðandi þennan kostnaðarþátt margra heimila í landinu. Eru menn hissa þó að launþegar séu ekki ginnkeyptir fyrir að þurfa að vinna rúmlega þrjá mánuði á ári bara til að vega upp þann mun sem er á kostnaði t. d. vegna kyndingar á íbúðarhúsnæði annars vegar borið saman við Vestfirði, hins vegar borið saman við Reykjavík? Rúmlega þrjá mánuði þurfa þeir að vinna umfram til að fá uppi borið tekjulega þennan þátt og auk þess að fá skatta ofan á þær tekjur. Ég er alveg sannfærður um að ef menn hugleiða málið út frá þessum staðreyndum, sem eru skjalfestar og hefur ekki verið á móti mælt, mundu menn skoða hug sinn betur og íhuga hvort ekki væri rétt að beina sjóninni í réttlætisátt og láta verkin tala.

Ég vildi gjarnan, herra forseti, óska þess, þar sem hæstv. forsrh. hefur ekki verið hér í deildinni, að hann væri viðstaddur umr. þessa máls. Ég lít svo alvarlegum augum á þetta mál að ég tel það nauðsynlegt. Málið snýr ekki síst að hæstv. ríkisstj. og í deiglunni geta verið harðvítug átök í og með vegna þess. Vil ég því mjög gjarnan óska eftir því, að umr. yrði ekki lokið án þess að hæstv. forsrh. gæti verið hér viðstaddur, þannig að hægt væri að ræða málið við hann sem oddvita hæstv. ríkisstj. og fá helst jákvæðar yfirlýsingar um lagfæringar- a. m. k. að fá viðhorf hæstv. ríkisstj. til málsins og stöðu þess eins og hún er, vegna þess að málið er mjög alvarlegt fyrir margra hluta sakir.