26.10.1981
Neðri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

43. mál, brunavarnir og brunamál

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, um brunavarnir og brunamál, er undirbúið af nefnd sem var skipuð 26. mars 1980. Verkefni nefndarinnar voru í fyrsta lagi að endurskoða gildandi reglugerð um brunavarnir og brunamál, nr. 269 frá 8. júní 1978, í öðru lagi að gera úttekt á stöðu og starfsemi Brunamálastofnunar ríkisins, eins og háttar til í dag og í þriðja lagi að gera till. um æskilegar breytingar á starfssviði og starfsemi stofnunarinnar í framtíðinni, m. a. með hliðsjón af væntanlegri gildistöku frv. til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. sérstaklega 4. mgr. 73. gr. frv., en frv. þetta var þá til meðferðar á Alþingi.

Í nefndina voru skipaðir Edgar Guðmundsson verkfræðingur, Gísli Kr. Lórenzson varaslökkviliðsstjóri á Akureyri, Héðinn Emilsson deildarstjóri, Magnús Skúlason arkitekt og Guðmundur Magnússon verkfræðingur, sem var skipaður formaður nefndarinnar. Nefndinni var samkv. skipunarbréfi ráðh. gert að skila tillögum sínum innan sex mánaða frá dagsetningu skipunarbréfs.

Í nefndinni komu fljótlega fram raddir um að nauðsyn bæri til að endurskoða vissa þætti gildandi laga um brunavarnir og brunamál og í öðru lagi að sá starfstími, sem nefndinni væri skammtaður í skipunarbréfi, væri of skammur til að ljúka þeim umfangsmiklu verkefnum sem þar voru talin.

Eftir að félmrh. hafði verið skýrt frá þessum sjónarmiðum í nefndinni skrifaði ég henni bréf 24. júní 1980 þar sem sagði:

„Í framhaldi skipunarbréfs, dags. 26. mars 1980, og viðtals vill félmrh. koma eftirfarandi atriðum á framfæri við nefndina:

1) Æskilegt er að athugun á þriðja þættinum í verkefni nefndarinnar verði lokið fyrir 20. sept.

2) Eðlilegt er að nefndin geri — jafnframt þeim verkefnum sem nefnd eru í bréfi 26. mars — athugun á lögum um brunamál og tillögur um breytingar á þeim ef nauðsynlegt kann að reynast.“

Í framhaldi af þessu setti nefndin síðan saman mjög ítarlegt álit um brunavarnir og brunamál, m. a. um þátt brunamála í þjóðarbúskap Íslendinga og fjölmargt fleira. Þar komu fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar um stöðu þessara mála. Ég ætla að lesa upp úr nál. stuttan kafla þar sem segir frá kostnaði við brunavarnir og brunamál í okkar þjóðfélagi. Þar segir:

„Fyrir árið 1979 lágu fyrir eftirtaldar tölur í gömlum krónum: Brunavarnir sveitarfélaga reyndust samkv. upplýsingum Hagstofu Íslands og Sambands ísl. sveitarfélaga hafa kostað 1000–1100 millj. kr. og voru greinilega víða nokkuð óskýrar línur um hvað með var talið. T. d. var sjaldnast meðtalinn nokkur kostnaður við vatnsveitur (brunahana o. fl.) og sums staðar skorti upplýsingar. Var því talið rétt að bæta við þessa tölu og áætla hana varlega um 1250 millj. kr., þar með talin Brunamálastofnun ríkisins um 40 millj. kr. Brunatryggingaiðgjöld og önnur iðgjöld skattskyld til Brunamálastofnunar voru samtals 3550 millj. kr. Út frá þessum tölum voru aðrir liðir áætlaðir á fyrrgreindan hátt.

Niðurstaða nefndarinnar varð að á árinu 1979 hefði kostnaður Íslendinga vegna brunamála verið um 7000 millj. kr. á meðalverðlagi ársins 1979. Er þetta um 0.8% af vergum þjóðartekjum sama árs. Kostnaður við Brunamálastofnun ríkisins var um 0.6% af þessari heildarupphæð.

Reiknað út frá upplýsingum Tryggingaeftirlitsins um tryggð brunatjón áætlast bein tjón af eldsvoðum hér á landi í prósentum af vergum þjóðartekjum á árunum 1976–1979 sem hér segir: Árið 1976 0.25%, árið 1977 0.2% , árið 1978 0.13%, árið 1979 0.25%. Til samanburðar skal getið af tiltækum tölum frá öðrum löndum að á árunum 1970–1975 var sama hlutfall að meðaltali frá 12 löndum í Vestur-Evrópu 0.28%.“

Í nál. var farið yfir alla helstu þætti brunamála, m. a. almennt skipulag brunavarna í landinu. Ætla ég ekki að fara nánar út í nál., en tel þó ástæðu til að geta þess, að þessi þáttur, svo mikilvægur sem hann er í okkar þjóðlífi, er að verulegum hluta til unninn af sjálfboðaliðum. Hygg ég að það sé nánast einsdæmi um jafnþýðingarmikið atriði í okkar félagslega öryggiskerfi. Það eru núna um 1000 menn eða meira skráðir til þessara sjálfboðastarfa á landinu öllu, yfir 1000 menn. Auk þess eru fast að 200 manns á launum í fullu starfi eða hlutastarfi sem brunaverðir og eldvarnaeftirlitsmenn hjá slökkviliðum í stærri bæjum landsins, meiri hlutinn í Reykjavík og á Reykjavíkurflugvelli. Með tilliti til þessa er aðvitað ljóst að eitt það þýðingarmest í löggjöf um brunavarnir og brunamál er að tryggja að menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna séu eins vel skilgreindar í lögum og frekast er kostur og m. a. verði sett skýr ákvæði í reglugerð um þessi mál.

Það frv. um brunavarnir og brunamál, sem hér er lagt fyrir á þskj. 43, felur í sér eftirfarandi meginbreytingar:

1. Nánar verði kveðið á um hlutverk Brunamálastofnunar varðandi kynningu og fræðslu svo og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna.

2. Öll sveitarfélög verði skylduð til að halda uppi brunavörnum nema ráðh. veiti sérstaka undanþágu.

3. Brunamálanefndir sveitarfélaga verði afnumdar sem ákvörðunaraðili um meðferð brota á lögum og reglugerð um brunavarnir og brunamál en vald og skyldur slökkviliðsstjóra aukin í þessum efnum með bakhjarli í betur skilgreindri lagaskyldu Brunamálastofnunar ríkisins.

4. Tekjustofnar Brunamálastofnunar verði styrktir með hækkun brunavarnagjalds og breyttum reglum um álagningu þess.

Í grg. er rækilega gerð grein fyrir þeim þáttum í frv. þessu sem fela í sér helstar breytingar. Þar er um að ræða í fyrsta lagi þá breytingu á 2. gr. gildandi laga að brunatryggingafélögin í landinu tilnefni tvo menn í stjórn Brunamálastofnunarinnar í stað Sambands ísl. tryggingafélaga. Í grg. segir:

„Réttara þótti að aðild að stjórn stofnunarinnar væri bundin við þau félög ein, sem annast brunatryggingar, fremur en Samband ísl. tryggingafélaga, sem hefur innan sinna vébanda tryggingafélög sem ekki annast slíkar tryggingar. Þá er sú viðbót gerð í 2. gr. frv. varðandi kröfur um menntun brunamálastjóra, að arkitektar verði hlutgengir til starfans jafnhliða verkfræðingum og tæknifræðingum.“

Í frv. eru í rauninni ekki gerðar aðrar tillögur um breytingu á stjórn stofnunarinnar en ég hef þegar rakið. Ég vil láta það sjónarmið mitt koma hér fram, að ég tel eðlilegt að sú þingnefnd, sem um málið mun fjalla, ræði möguleika á því að fækka nokkuð í stjórn stofnunarinnar til þess að gera hana virkari en hún er núna. Stjórn stofnunarinnar er fjölmenn miðað við stærð hennar. Þetta er sex manna stjórn sem skipuð er til fjögurra ára í senn. Ég tel að þarna þyrfti að reyna að koma hlutum öðruvísi fyrir og jafnvel að athuga það, og ég beini því til nefndarinnar, að hún fækki jafnvel nokkuð í stjórn þessarar stofnunar.

Önnur breyting, sem ég ætla að gera hér aðeins grein fyrir, snertir 4. gr. frv. Þar koma fram tvær meginbreytingartillögur nefndarinnar: í fyrsta lagi, að öll sveitarfélög verði skyldug til að halda uppi brunavörnum nema ráðh. veiti sérstaka undanþágu, og í öðru lagi, að ákvæði um brunamálanefndir sveitarfélaga verði felld úr lögunum.

Í grg. með frv. er komist svo að orði um þennan þátt: „Brunavarnir eru m. a. í því fólgnar, að hlutaðeigandi sveitarfélag hafi slökkvilið sem fullnægi þeim kröfum um öryggi sem unnt er að krefjast miðað við aðstæður.“ Þetta er tilvitnun í 5. gr. gildandi laga. „Samkv. þessari lagaskyldu er nú 51 slökkvilið starfandi á vegum sveitarfélaganna, þar af á fáeinum stöðum sameiginlegt fyrir samliggjandi staði. Auk þess hefur slökkviliðum verið komið á fót í flestum sveitarfélögum þar sem eru minni þéttbýlisstaðir og einnig á nokkrum stöðum þar sem eru heimavistarskólar á framhaldsstigi, svo og í allmörgum hreinum dreifbýlishreppum. Á nokkrum svæðum landsins, þar sem svo hentar með tilliti til samgangna og fjarlægða, hafa sveitarfélög sameinast í brunavarnafélög um brunavarnir og slökkviliðsstarf. Er venjulega um að ræða nokkra dreifbýlishreppa ásamt miðstöð í stórum þéttbýlisstað með kjarna sameiginlegs slökkviliðs og stundum einnig minni háttar útibú með slökkvibúnaði í hinum einstöku byggðum.

Auk þessa hefur verið komið á fót sérstökum slökkviliðum hjá stórum fyrirtækjum, t. d. Ísal og Áburðarverksmiðju ríkisins. Sýnir öll þessi þróun að nauðsyn hefur þótt vera á skipulögðum brunavörnum langt út fyrir ramma gildandi laga. Einnig ber að hafa í huga að sums staðar hefur myndast þéttbýli án fastrar búsetu, t. d. orlofs- og sumarhúsahverfi, þar sem veruleg þörf er á skipulögðum brunavörnum.

Af þessum sökum er lagt til að sú breyting verði gerð á lögum um brunavarnir og brunamál, að öllum sveitarfélögum verði skylt að halda uppi brunavörnum. Sérstakar aðstæður, t. d. í dreifbýlishreppum, gætu þó gefið tilefni til undanþágu sem veitt yrði af ráðh.“

Ég vil þá víkja að 26. gr. frv., en hún fjallar um aðgerðir yfirvalda í héraði gagnvart brotum á lögum um brunavarnir og tilheyrandi reglugerð. Í gildandi lögum fjallar 29. gr. um sama efni. Þar er kveðið á um að slökkviliðsstjóri skuli leggja slík mál fyrir brunamálanefnd sveitarfélags sem ákveður hvort senda skuli málið til dómara. Einnig er það kveðið á um vald brunamálanefnda til að ákveða dagsektir og/eða stöðvun rekstrar fyrirtækja.

Reynsla af þætti sveitarstjórna — eða brunamálanefnda kosinna af þeim — sem ákvörðunaraðila í þeim efnum sem hér um ræðir er því miður ekki alltaf jákvæð. Þess eru allmörg og í stökum tilvikum mjög afdrifarík dæmi, að mál, er varða brot á lögum og reglugerð um brunavarnir og brunamál, hafa stöðvast hjá þessum aðilum þar eð þeir hafi hikað við aðgerðir, t. d. gagnvart mikilvægum atvinnufyrirtækjum í litlum byggðarlögum. Í frv. er þess vegna lagt til að lögskipað vald brunamálanefnda í þessu efni sé afnumið, en staða slökkviliðsstjóra með Brunamálastofnun ríkisins að bakhjarli sé styrkt og jafnframt skýrar kveðið á um skyldur þessara aðila til að kæra brot sem hér um ræðir. Með þessu er reynt að hindra að áhrifavald einstakra atvinnufyrirtækja í heimabyggð eða opinberra aðila, þar sem sjálf sveitarstjórnin getur jafnvel átt í hlut, geti orðið til að stefna öryggi gagnvart eldhættu og brunatjóni í tvísýnu.

Herra forseti. Ég hef nú rakið helstu efnisatriði þessa frv. og tel ekki ástæðu til að fara mörgum frekari orðum um það. Ég vil þó að sjálfsögðu geta þess nokkru nánar, að í frv. er gert ráð fyrir því að styrkja nokkuð tekjustofna Brunamálastofrunar ríkisins. Stafar það af því, að tekjustofnar hennar hafa í rauninni rýrnað á undanförnum árum vegna lækkana á iðgjöldum brunatrygginga fasteigna og líka vegna verðbólguáhrifa. Er þess vegna lagt til í frv. þessu að tryggingafélög og aðrir, er tryggingar annast, greiði stofnuninni 1.5% af brúttó-iðgjaldatekjum vegna brunatrygginga (frumtrygginga) á fasteignum og lausafé.

Í nefndinni og af hálfu brunamálastjóra hafa komið fram tillögur um að hækka þetta gjald enn frekar. Ég hef ekki treyst mér til þess að gera till. um það og hef því flutt tillögu nefndarinnar hingað óbreytta. En ég óska eftir að hv. nefnd, sem um málið fjallar, taki tekjustofnana til sérstakrar athugunar.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.