21.01.1982
Sameinað þing: 41. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

51. mál, landnýtingaráætlun

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Mig langar til að lýsa ánægju minni með þessa þáltill. um landnýtingaráætlun, sem hér er flutt, og færa flm., og þá ekki síst 1. flm., þakkir fyrir það framtak og framsýni sem þeir hafa sýnt með flutningi þessa máls. Ég tel að till. sé mjög athyglisverð og það væri jákvætt að hún fengi athugun og stefnt yrði að því að hægt yrði að afgreiða hana á þessu þingi.

Það er alveg rétt, sem hv. 1. flm till. sagði í framsöguræðu sinni áðan, að við verðum að fara að varast það mjög, Íslendingar, hversu óhóflega við göngum á ýmsar náttúruauðlindir sem okkur er trúað fyrir. Allir vita hver hinn óhóflegi ágangur hefur verið á hina ýmsu fiskstofna við landið, og hefur um nokkurt skeið verið rætt mjög um nauðsyn þess að draga úr þeim ágangi. En sama máli gegnir um náttúruauðlindir á landi og í sjó. Þar er ágangur óhóflegur og hefur verið mun lengur en varðandi náttúruauðlindir þær sem í sjónum eru.

Öll vitum við um þá miklu gróðureyðingu sem átt hefur sér stað á Íslandi síðan land byggðist, og ýmislegt í nútímalífsháttum gerir það að verkum, að ástæða er til að óttast að sá ágangur kunni að verða meiri og varhugaverðari á næstunni en hann hefur verið til þessa. Það er t. d. sérstök ástæða til að benda á að umgangur ferðafólks um viðkvæm hálendissvæði er orðinn mikið áhyggjuefni, — ekki bara útlendra ferðamanna, sem oftast er þó talað um í blöðum, heldur ekki síður landsmanna sjálfra. Ýmsir mjög fallegir staðir á hálendissvæðum Íslands eru nú sannarlega í hættu vegna óhóflegs ágangs. Hálendisgróðurinn okkar þolir ekki mikinn ágang ferðamanna, og allt of margir Íslendingar, svo að ekki sé rætt um marga útlenda ferðamenn sem hér ganga um okkar gróðurlendi, virðast ekki gera sér neina hugmynd um hvað lítið þarf til að eyðileggja margra alda gróðurfar í þessu landi. Það er oft ljótt að sjá, þegar ferðast er um hálendið, sem ég geri nokkuð oft á sumrum, og eins um ýmsa fegurstu staði þjóðarinnar, hvernig umgangurinn er um þá staði. Því miður er það hryggileg staðreynd, að þeir, sem því valda, eru oftar en ekki landsmenn sjálfir. Því miður virðist svo komið, að ýmsir áhugamenn um náttúruvernd og ferðalög á Íslandi af erlendu bergi brotnir bera meiri virðingu fyrir íslensku náttúrufari og ganga betur um ýmsa helgistaði þjóðarinnar en landsmenn gera sjálfir. Er oft ófögur sjón að sjá jafnvel fullþroska menn vera að leika sér upp um holt og hæðir á fjórhjóladrifsbílum án þess að hugsa nokkuð um þær skemmdir sem af hljótast.

Þó svo rætt sé um nauðsyn þess, að almenningur fái greiðari aðgang að landi sínu en hann hefur — það er alkunnugt hver afstaða okkar Alþfl.-manna er þar verða þeim réttindum einnig að fylgja skyldur og við verðum að fara að skoða sérstaklega með hvaða hætti við eigum að reyna að venja okkur sjálf, þ. e. þjóðina í þessu landi, af þeim umgengnisháttum sem við höfum tamið okkur um landið. Sjálfsagt þýðir ósköp litið að beita þar fjársektum eða öðrum slíkum viðurlögum. Nær væri að skylda það fólk, sem skilur eftir sig slóðir eins og þær sem blasa við augum þeirra sem um hálendið fara, ef til slíkra manna næst, til þess að reyna að vinna við það sjálft að bæta það sem miður hefur farið, en sleppa mönnum við að greiða nokkrar krónur í sektir, ef það er þá gert. Ég vildi aðeins taka þetta fram til að undirstrika að afstaða okkar Alþfl.-manna til aukinnar landnýtingar fyrir almenning er síður en svo í eina átt einvörðungu. Við tölum ekki bara um að tryggja þurfi almenningi ríkari rétt til umgangs um landið. Við höfum einnig áhuga á að réttinum fylgi skyldur um umgang um þetta land. Ég fagna því sérstaklega að það er einmitt eitt atriðið í þessari tillögu.

Eins og ég sagði áðan er það meira en umgangur mannfólksins um þessa náttúruauðlind sem þarf að huga að. Það er t. d. ekkert launungarmál, að á mjög mörgum hálendissvæðum og afréttarlöndum er um mikla ofbeit að ræða. Að vísu er ofbeit ekki jafnmikil í öllum landshlutum. Í sumum landshlutum þola afréttarlöndin jafnvel meiri ágang sauðfjár og annarra grasbíta en þar á sér stað, en um allflest stærstu afréttarsvæði landsins gegnir því máli að þar er gróðureyðing yfirvofandi vegna of mikils ágangs búfjár vegna hreinnar ofbeitar. Auðvitað er það rányrkja á náttúruauðlind með sama hætti og of mikil sókn í fiskstofna er rányrkja á þeirri náttúruauðlind.

Vísir menn segja að nú séu um það bil 900 þús. fjár rekin á afréttir og beitilönd í þessu landi, og miðað við þær gróðurfarsrannsóknir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, telja þessir sömu sérfróðu menn um gróðurfar landsins að þar sé um að ræða um það bil 400 þús. fjár meira en þessi lönd þola. Eins og ég sagði áðan hef ég sjálfur gert mikið að því á sumrin að ferðast um hálendi þessa lands og er enginn sérfræðingur um gróðurfar og annað slíkt, en það stingur orðið í augu hversu rótnagaður allur gróður er á þeim hálendissvæðum, sem a. m. k. ég hef helst farið um, er frá vori til hausts. Ekki er vafi á því, að sú niðurstaða gróðursérfræðinga er rétt, að þarna sé um mjög háskalega og varhugaverða rányrkju að ræða.

En það er meira sem ástæða er til að skoða í því sambandi. Á Grænlandi er búið með sauðfé af sama stofni og íslenska sauðféð. Þar getur meðalfallþungi dilks verið 22–23 kg. Hér á Íslandi er meðalfallþungi dilks af sama stofni 13–14 kg. Á Grænlandi er meðalviðkoma hverrar kindar 1.6 lömb. Hér á Íslandi er meðalviðkoma hverrar kindar 1.3 lömb. Gróðursérfræðingar fullyrða að þessi miklu minni afköst íslensks sauðfjár en grænlensks, sem er þó af nákvæmlega sama stofni, stafi einfaldlega af því, að íslenskt sauðfé fái ekki nægilegt að bíta og brenna vegna ofbeitar á afréttarlöndum hér á Íslandi. Til stuðnings þeirri skoðun sinni vísa þeir jafnframt til þess, að á þeim svæðum á landinu, þar sem ekki eru um ofbeit að ræða að þeirra áliti á afréttarlöndum, t. d. í Strandasýslu og víðar, er fallþungi dilka miklu hærri en annars staðar á landinu. Ég hef ekki heyrt þá segja neitt frá viðkomu hverrar kindar þar, en alla vega virðast tölur um fallþunga benda til þess, að ætla megi að mismunurinn á afurðamagni hverrar kindar á Íslandi annars vegar og Grænlandi hins vegar stafi fyrst og fremst af því, að sauðféð íslenska skorti sumarnæringu miðað við þá sumarnæringu sem sauðfé stendur til boða á Grænlandi, — a. m. k. er það niðurstaða þeirra gróðursérfræðinga sem um þessi mál hafa rætt við mig. Og svo einkennilega vill til, að ef afurðamagn sauðfjár á Íslandi væri svipað og afurðamagn sauðfjár á Grænlandi er mundu íslenskir bændur geta fengið nákvæmlega jafnmiklar afurðir af 500 þús. kindum og þeir fá af 900 þús. kindum í ár. M. ö. o.: ef fækkað væri sauðfénu á afréttarlöndum landsins um þau 400 þús. fjár, sem gróðursérfræðingar telja að ofbeitt sé á gróðurland okkar, gæti það orðið til þess að næðist álíka mikið afurðamagn hjá íslensku sauðfé og grænlensku sauðfé og þá mundi þessi niðurskurður á stofninum ekki rýra þær sauðfjárafurðir sem framleiddar eru í landinu í heild.

Nú get ég að sjálfsögðu ekkert fullyrt um hvort þetta dæmi gengur upp eða ekki. Ingvi Þorsteinsson, sérfræðingur um gróðurrannsóknir, vakti athygli mína á þessum staðreyndum. Hann getur að sjálfsögðu ekki frekar en aðrir fullyrt neitt um hvort þetta dæmi gengur upp. En það er þó mjög athyglisvert að huga að því í fyrsta lagi, að svona mikill afurðamunur skuli geta verið á sauðfé af sama stofni milli Íslands og Grænlands, í öðru lagi, hve miklu meira afurðamagn fæst af íslensku sauðfé í þeim hlutum landsins, þar sem afréttir og upprekstrarlönd eru ekki ofbeitt, en í þeim hlutum landsins þar sem talið er af gróðursérfræðingum að svo sé, og í þriðja lagi, að ef hagkvæmari nýting náttúruauðlinda en nú á sér stað gæti leitt til þess að ekki drægi mjög verulega úr afurðamagni hjá bændum þó að eitthvað hagkvæmari búskapur ætti sér stað, en hins vegar mundi það að sjálfsögðu draga mjög úr öllum tilkostnaði, mundu íslenskir bændur þegar upp væri staðið auka mjög tekjur sínar á þeim breytingum. M. ö. o.: ef íslenskir bændur gætu náð álíka afurðamagni af hverri kind og grænlenskir bændur ná og ef á íslenskum afrétti gengju ekki fleiri sauðkindur en þær sem gróðursérfræðingar telja að gróðurfarið þoli mundu íslenskir bændur hafa stórkostlegan fjárhagslegan hag af. Tilkostnaður hjá þeim við öflun afurðanna mundi stórkostlega dragast saman, þörf á vélanotkun yrði miklu minni, þörf á peningshúsum yrði miklu minni, þannig að minna drægist frá í kostnaði, en meira kæmi til bóndans sjálfs.

Auðvitað þarf að skoða þetta allt saman og þá ekki síður ef líka liggur fyrir, og nú get ég ekki fullyrt frekar en aðrir leikmenn um hvort það sé rétt, að meginskýringin á því mikla kali, sem verður nú í túnum hjá íslenskum bændum og er dýrasta gróðureyðing á Íslandi, því að það er gróðureyðing á ræktuðu landi, sé sú, að bændur hafa tekið upp það búskaparlag, m. a. til þess að bæta upp rýrnandi afréttarbúskap, að beita sauðfé á tún að hausti til þess m. a. að drýgja afurðirnar. Því er haldið fram að haustbeit á túnum sé ein meginskýring á miklu kali sem verður á ræktuðu landi. Að sjálfsögðu þarf að rannsaka þessar fullyrðingar miklu betur en gert hefur verið, en þetta rennir enn stoðum undir það, sem er kjarninn í þessari till. um landnýtingaráætlun, að bráðnauðsynlegt er að skoða þessi mál miklum mun betur en gert hefur verið.

Ég get ekki látið hjá líða, fyrst ég er farinn að ræða um þessi mál, að minnast örfáum orðum á viðburði sem hafa orðið frá því að sambærilegt mál var til umr. hér á Alþingi. Fyrir jólin fluttum við þm. Alþfl. í hv. Nd. Alþingis frv. til l. um að mörkuð yrðu skil á milli einkaeignarréttar á landi og eignarréttar almannavaldsins og það landssvæði á afréttum og hálendi Íslands, sem engar eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila væru finnanlegar fyrir, yrði úrskurðað eign almannavaldsins. Miklar umr. urðu um þetta frv. Þm. Alþb. tóku undir sjónarmið okkar og lýstu fylgi sínu við meginatriði frv., en ýmsir aðrir þm. voru meira á báðum áttum og sumir á móti.

Rök ýmissa þeirra, sem voru á móti frv., voru á þá lund, að frv. væri þarflaust þar sem ljóst væri að ef ekki fyndust eignarheimildir lögaðila fyrir landssvæði hlyti það sjálfkrafa að falla undir almannaeign eða ríkiseign. Nú hefur Hæstiréttur alveg nýverið og eftir að þessar umr. fóru fram fellt úrskurð um deilumál af þessu tagi. Hæstiréttur kemst að gagnstæðri niðurstöðu og staðfestir þar með þau orð sem ég m. a. lét falla í umr. hér á Alþingi þegar ég svaraði hv. þm. Steinþóri Gestssyni og fleirum sem töldu frv. okkar þarflaust af þessari ástæðu. Niðurstaða Hæstaréttar í deilunni um Landmannaafrétt staðfestir réttmæti hvers einasta orðs sem ég sagði um þetta ágreiningsmál okkar þm. Í forsendum Hæstaréttar fyrir niðurstöðunni segir Hæstiréttur beinlínis að Alþingi verði með löggjöf að ákveða að málin fari þessa leið, sem ýmsir hv. þm. töldu að þarflaust væri að Alþingi hefði afskipti af.

Í byrjun sjötta áratugarins, ef við rekjum þetta mál í örfáum orðum, höfðaði Landmannahreppur mál út af veiðirétti í vötnum og vatnsföllum á Landmannaafrétti. Dómur féll í því máli í Hæstarétti 25. febr. 1955. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að hreppsfélögin hafi engar sönnur getað fært á eignarrétt sinn að afréttinum, hvorki fyrir nám, löggerninga, hefð né með nokkrum öðrum hætti, og þess vegna bæri ekki að skoða hreppsfélögin sem eiganda þessa lands. Hæstiréttur sagði m. ö. o. 25. febr. 1955: Hreppsfélögin eru ekki eigendur að Landmannaafrétti. — Samkv. því sem hv. þm. Steinþór Gestsson og fleiri sögðu fyrir jólin ætti málið þar með að vera alveg ljóst. Þar sem enginn aðili gæti fært sönnur á eignarheimild að þessu landssvæði og fasteignarréttindum hlyti að mega líta svo á að ríkisvaldið væri þá eigandi. En það er alls ekki svo. Ég fullyrti fyrir áramótin að svo væri ekki, og Hæstiréttur kemst að sömu niðurstöðu. Í dómi Hæstaréttar um sama landssvæði, sem féll í des. s. l., er staðfestur fyrri úrskurður Hæstaréttar um sama mál, að eignarréttur heimamanna fyrir afréttinum, hvorki hreppsfélaganna né eigenda og ábúenda jarða, sé ekki fyrir hendi. Hæstiréttur staðfestir það. Heimamennirnir eiga þetta ekki. En Hæstiréttur bætir við: Ríkið telst ekki eiga það heldur vegna þess að þau rök, sem ríkisvaldið byggir sína kröfu á um eignartilkall til landsins, standast ekki. Hæstiréttur segir m. ö. o.: Hreppsfélögin og ábúendur jarðanna eiga ekki þetta land vegna þess að þau geta engar sönnur fært fyrir sínum eignarrétti, en ríkið á landssvæðið ekki heldur. Síðan bætir Hæstiréttur við í forsendum fyrir þessari niðurstöðu sinni „að Alþingi hafi ekki sett lög um þessi efni“, þó svo, eins og í forsendunum segir, að það sé eðlileg leið til að fá ákvörðun handhafa ríkisvaldsins um málefnið.

Hæstiréttur óskar m. ö. o. eftir því, að Alþingi setji lög um hvernig skuli fara með þegar enginn einstaklingur eða lögaðili getur sannað eignarheimildir sínar á landi og landgæðum. Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu, að slík lönd og landgæði falli þá ekki sjálíkrafa undir eignarheimild ríkisins, en óskar eftir því, að Alþingi setji lög um hvernig með skuli fara. Frv. að slíkum lögum liggur nú fyrir Alþingi flutt af mér og fleiri þm. Alþfl. og studd af þm. Alþb.

Eftir þennan úrskurð Hæstaréttar þurfa menn sem sé ekki lengur að velkjast í neinum vafa um þetta mál. Verði það frv. ekki samþykkt, sem við höfum flutt hér um þessi efni, þm. Alþfl., og er stutt í meginatriðum af þm. Alþb., þá verða stjórnvöld að gera svo vel að flytja sjálf frv. til l. um hvernig með skuli fara. Auðvitað er það algerlega út í hött ef menn ætla að standa þannig að slíkum málum að flytja frv. á Alþingi í hvert skipti sem ágreiningur hefur orðið um eitthvert slíkt landssvæði eða náttúrugæði með þeim niðurstöðum sem orðið hafa varðandi Landmannaafrétt. Auðvitað er það fráleitt ef menn ætla að halda þannig á málum að flytja sérstakt frv. um að Landmannaafréttur einn skuli skoðast sem ríkiseign án þess að taka afstöðu til annarra sambærilegra deilumála sem upp kunna að koma. Auðvitað verða menn hér á Alþingi að setja almennar rammareglur um þau mál, eins og við höfum gert tillögur um.

Ég vildi, herra forseti, aðeins benda á þessar athyglisverðu staðreyndir í sambandi við umr. um þetta mál, því að auðvitað hljóta að dragast inn í umr. um landnýtingaráætlun atriði eins og þau. Við höfum ekkert á móti því, þeir sem ekki teljast eiga mikið af landi, nema kannske geta gert sér vonir um það land sem verður seint og um síðir, vona ég, að taka með þökkum til að koma sér fyrir upp á eilífðina, — en við, sem ekki eigum von á að eiga miklu meira af landi en þá litlu skák, höfum ekkert á móti því að greiða allveruleg gjöld til að rækta land og taka það til betri nytja. En við teljum alveg nauðsynlegt að úr því verði skorið, hvar liggja mörk eignarréttarins og hvernig eigi þá með það landssvæði að fara sem ekki verður talið að einstaklingar eða lögaðilar geti gert neitt eignarréttarlegt tilkall til. Það mál verður auðvitað að skoða í samhengi við þá merku till. og þörfu sem hér er til umræðu.