25.01.1982
Efri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

173. mál, útflutningsgjald af sjávarafuðrum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 2 frá 1. febr. 1980, um breytingu á lögum nr. 5 frá 13. febr. 1976, um útflutningsgjald af sjávarafurðum og breyting á lögum nr. 81 21. des. 1981.

Útflutningsgjald af sjávarafurðum var 6% þar til því var breytt í upphafi árs 1979. Það var þá þáttur í fiskverðsákvörðun. Með lögum, sem þá voru sett, var útflutningsgjald lækkað í 5% og hélst svo það ár, 1979. Í tengslum við fiskverðsákvörðun um áramótin 1979–1980 varð að ráði að hækka útflutningsgjald að nýju úr 5% í 5.5% og með lögum þá ákveðið að svo skyldi standa til síðustu áramóta. Það ákvæði féll úr lögum um síðustu áramót og er útflutningsgjald því nú orðið 6% á ný.

Í tengslum við þá fiskverðsákvörðun, sem tekin var um áramótin, varð hins vegar að samkomulagi með öllum hagsmunaaðilum að óska eftir því og bóka sem fyrirvara fyrir fiskverðsákvörðun, að útflutningsgjald yrði óbreytt frá því sem það hefur verið undanfarin tvö ár, eða 5.5%. Staðfesting á þessu felst í frv. þessu, 1. gr. þess. Fellt er úr lögum það ákvæði sem segir að útflutningsgjaldið skuli vera 5.5% í tvö ár, 1980 og 1981. Lögin gilda því áfram með 5.5% útflutningsgjaldi.

Í þessu frv. er jafnframt farið fram á heimild í 2. gr. til þess að fella hin ýmsu ákvæði, sem um útflutningsgjald gilda, úr allmörgum lögum saman í einn lagabálk og gefa út að nýju. Fyrir slíkri heimild munu vera mörg fordæmi.

Þá er auk þess í ákvæði til bráðabirgða tekin upp sú breyting á útflutningsgjaldi sem ákveðin var fyrir áramótin af loðnumjöli og loðnulýsi, að hún gildi fyrir sölu á þeim afurðum einnig nú eftir áramót, enda er mikið af þeim birgðum, sem unnar voru fyrir áramótin; enn í landinu. Þarna er sem sagt aðeins um framlengingu á því ákvæði að ræða á meðan þær birgðir eru í landinu.

Ég sé út af fyrir sig, herra forseti, ekki ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum um þetta frv. Ég hygg að það skýrist allvel af því sem fram kemur í grg. og aths. með frv. Ég vil hins vegar geta þess, úr því að útflutningsgjaldið er til umr., að hinir ýmsu sjóðir, sem njóta útflutningsgjaldsins, standa yfirleitt vel. Þannig stendur t. d. hin almenna deild Aflatryggingasjóðs vel, verðjöfnunardeildin má segja að standi í járnum og áhafnadeildin stendur vel. Sömuleiðis má segja um Tryggingasjóð fiskiskipa að staða hans er góð. Aftur á móti er þörf á því að auka fjármagn til úreldingarstyrkja og þá um leið til aldurslagatryggingar.

Ég skipaði því fyrir nokkrum vikum nefnd til að gera tillögur um hvernig það mætti verða. Sú nefnd hefur fjallað allnokkuð um þessi mál og sett á blað ýmsar hugmyndir um eflingu úreldingarsjóðs og jafnvel sameiningu úreldingarsjóðs og aldurslagatryggingar, sem ekki hefur verið tekin endanleg afstaða til. Í kjölfar þess starfs kann að teljast rétt að breyta eitthvað ráðstöfun á útflutningsgjaldi. Um það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun og eins og er eru engar breytingar á útflutningsgjaldi fyrirhugaðar.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.