25.01.1982
Neðri deild: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

155. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir stjfrv. til l. um námslán og námsstyrki. Ef frv. þetta verður að lögum munu falla úr gildi núverandi lög um námslán og námsstyrki, nr. 57/1976.

Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. er gert ráð fyrir því, að á þessu kjörtímabili verði lög um námslán og námsstyrki endurskoðuð. Flutningur þessa frv. stendur að sjálfsögðu í beinu sambandi við þetta ákvæði stjórnarsáttmálans. Einhverjir munu vilja halda því fram, að aðdragandinn að flutningi þessa frv. sé orðinn langur. Ekki skal ég bera á móti því, að æskilegt hefði verið að þetta frv. hefði séð dagsins ljós fyrr hér í þinginu en raun hefur á orðið. Ég leyni því reyndar ekki, að ýmsir stuðningsmenn ríkisstj. töldu að í þessu frv. væri að finna margvísleg ákvæði svo róttæk að ástæða væri til að gera á því breytingar áður en það yrði lagt fyrir Alþingi sem stjfrv. Ég var hins vegar ætíð ófús að breyta frv. frá því sem endurskoðunarnefndin lagði til. Að lokum féllst ríkisstj. á að flytja frv. sem ríkisstj.-frv. breytt í raun og veru og þannig er það nú flutt í þeirri von að Alþingi, sem að sjálfsögðu ákveður lagasetningu í þessu máli sem öðrum, taki því vel í heild og þeirri meginstefnu sem í því felst. Flutningur frv. er þó með fyrirvara um einstök atriði, einkum að því er varðar ákvæði í 3. gr. um lífeyrissjóðsaðild námsmanna, sem er algert nýmæli í sambandi við þetta mál.

Svo ég víki nánar að undirbúningi þessa frv. þykir mér rétt að geta þess, að hinn 24. apríl 1980 skipaði ég sérstaka nefnd til að endurskoða lög og reglur um námslán og námsstyrki. Í nefndina voru skipaðir Eiríkur Tómasson, tilnefndur af þingflokki Framsfl., sem skipaður var formaður, Friðrik Sophusson, tilnefndur af þingflokki Sjálfstfl., Guðrún Helgadóttir, tilnefnd af þingflokki Alþb., Vilmundur Gylfason, tilnefndur af þingflokki Alþfl., Jón Ormur Halldórsson, tilnefndur af forsrh., Þorgeir Pálsson, tilnefndur af stúdentaráði Háskóla Íslands, og Pétur Reimarsson, tilnefndur af Sambandi ísl. námsmanna erlendis. Auk þess sátu í nefndinni án atkvæðisréttar, en tóku þátt í nefndarstörfum, Auðunn Svavar Sigurðsson, fulltrúi Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, Þorsteinn Vilhjálmsson, fulltrúi stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, og Tómas Óli Jónsson sérstakur fulltrúi menntmrh. Sigurjón. Valdimarsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs ísl. námsmanna, starfaði einnig með nefndinni.

Nefnd þessi lauk störfum í október 1980 og hafði þá samið frv. til nýrra laga um námslán og námsstyrki er leysi af hólmi núgildandi lög, nr. 57/1976. Segir svo m. a. í grg. frá nefndinni að upphaflega hafi það verið ætlun hennar að leggja fram frv. til breytinga á lögum nr. 57/1976, en síðan hafi hún tekið þann kost að semja heildstætt lagafrv. Þótt þannig hafi verið að unnið og þótt mörgu sé breytt frá því sem er í gildandi lögum eru í þessu frv. enn ýmis atriði óbreytt eins og þau eru í lögum nú. Eins og menn hljóta að veita athygli var endurskoðunarnefndin fjölmenn og þannig skipuð að flest sjónarmið í sambandi við námslánakerfið hefðu átt að geta komið fram og fengið notið sín að svo miklu leyti sem slíkt er yfirleitt gerlegt. Nefndin stóð öll að gerð frv. eins og það var afgreitt til mín í október 1980, en þó með ummælum sem fram koma í grg. hennar og þannig hljóða, — og ég les það orðrétt eins og segir í grg. til mín:

„Þeir, sem störfuðu í nefndinni, hafa víða teygt skoðanir sínar til samkomulags. Allir nefndarmenn eru þó eindregið fylgjandi því, að frv. verði lagt fram af menntmrh. til þess að flýta fyrir því, að lánamál námsmanna komist á eðlilegri grundvöll en verið hefur. Þessi afstaða bindur hins vegar ekki þá aðila sem tilnefndu einstaka nm., og jafnframt er gerður fyrirvari af hálfu nm. um afstöðu til breytinga er kunna að verða gerðar á frv. í meðförum Alþingis.“

Þessi orð eru tekin beint upp úr grg. Út af þessum orðum ætla ég ekki að fara að leggja hér, enda held ég að þau skýri sig sjálf.

Hins vegar vil ég nota tækifærið til þess að þakka nefndinni ágætt starf. Þó að frv. sé nokkru síðar á ferð en vænst hafði verið er það ekki nefndinni að kenna. Hún var sammála um að frv. skyldi flytja á Alþingi sem fyrst. Hins vegar hefur nefndin þann skynsamlega fyrirvara, að þetta mál er þegar til kastanna kemur verkefni Alþingis. Alþingi hlýtur að hafa síðasta orðið um hvernig skipa skal opinberri aðstoð við námsmenn. Það er hins vegar von mín, að Alþingi taki þessu frv. vel og geri það að lögum án mikilla breytinga. Ég flyt þetta frv. af þeirri sannfæringu að það sé til bóta á ríkjandi skipulagi.

Engum getur blandast hugur um það, að Lánasjóður ísl. námsmanna er nauðsynjastofnun í íslensku þjóðfélagi. Þetta sérstaka lánakerfi hefur verið að þróast úr litlu í mjög umfangsmikla starfsemi á síðustu áratugum. Ég tel fráleitt að hugsa sér að umfang þessarar starfsemi geti minnkað frá því sem nú er. Hins vegar verður að tryggja að námslánakerfið sé skynsamlega skipulagt og sé ekki fjárhagsbyrði á ríkissjóði umfram það sem eðlilegt getur talist. Vel mætti orða það svo, að æskilegt væri að námslánakerfið gæti staðið undir sér sjálft eins og hver annar sjálfstæður rekstur. Ég tek það fram, að þetta frv. er spor í þá átt, að námslánakerfið þróist þannig með árunum að bein fjárhagsbyrði ríkissjóðs fari minnkandi þótt varla geti hún horfið með öllu, hversu æskilegt sem það kann annars að vera.- Annars getur verið fróðlegt að átta sig á því, hverfjárhagsbyrði ríkissjóðs hefur verið síðustu 10 ár t. d. vegna Lánasjóðs ísl. námsmanna. Sá samanburður mun leiða í ljós að framlög ríkissjóðs til Lánasjóðsins sem hlutfall af heildarútgjöldum fjárlaga á hverju ári hefur lengst af legið á bilinu 1.2% til 1.5% á þessu 10 ára tímabili: Þetta sýnir augljóslega að námslánakerfið hefur unnið sér fastan sess í opinberum rekstri og á þar ekki síður heima en mörg önnur félagsleg réttindamál. Og á það legg ég áherslu, að námslánakerfið er félagslegt réttindamál sem er óhjákvæmilegt í lýðræðisþjóðfélagi. Það er hluti af þeirri stefnu að jafna lífskjörin í landinu og ekki sá ómerkasti. Námslánakerfið eyðir forréttindaaðstöðu í langskólanámi sem fullyrða má að hefði orðið lífseig ef þessi starfsemi hefði ekki verið tekin upp.

Áður en lengra er haldið ætla ég að leyfa mér að rifja upp í stórum dráttum forsögu og þróun þessara mála undanfarna áratugi.

Allt frá stofnun Háskóla Íslands var veitt í hverjum fjárlögum fé til námsstyrkja og húsaleigustyrkja handa efnilegum, reglusömum og efnalitlum nemendum við Háskólann, eins og þar stendur. Hliðstæðar styrkveitingar höfðu raunar tíðkast við embættismannaskólana sem áður störfuðu. Í fjárlögum fyrir árin 1920 og 1921, sem sett voru í nóvember 1919 því þá voru fjárlög sett fyrir tvö ár í einu, virðist í fyrsta skipti ákveðin almenn fjárveiting til íslenskra stúdenta í erlendum skólum, 8 þús. kr. hvort ár. Segir þar að styrkþegar megi sækja hvern viðurkenndan háskóla á Norðurlöndum og í helstu menningarlöndum öðrum, en senda verða þeir stjórninni hér skilríki fyrir því, að þeir stundi nokkurt það háskólanám sem þeir fái eigi kennslu í við Háskóla Íslands. Þá er og eftirfarandi ákvæði um notkun fjárveitingarinnar: Af þessu fé fær Anna Bjarnadóttir Sæmundssonar jafnan styrk sem aðrir stúdentar. Er þetta fróðlegt ákvæði og e. t. v. nokkurt tákn þeirra tíma, að vissara skyldi þykja að taka þetta skýrt fram.

Fjárveitingar til námsstyrkja handa háskólastúdentum heima og erlendis héldust síðan í fjárlögum næstu áratugina. Við stofnun menntamálaráðs með lögum 1928 var því fengið það hlutverk m. a. að úthluta námsstyrk er árlega greiðist úr ríkissjóði til stúdenta og annarra nemenda erlendis, en sérstök lög um styrkveitingu til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla höfðu verið sett nokkrum árum fyrr, lög nr. 35/1925.

Í fjárlögum fyrir árið 1952 var í fyrsta skipti kveðið á um að hluti fjárveitingarinnar til styrktar íslenskum námsmönnum erlendis, 275 þús. kr. af samtals 1 millj. 275 þús. kr., skyldi veittur námsmönnum sem lán með hagkvæmum kjörum samkvæmt reglum sem menntmrn. setti. Sama ár, 1952, voru sett lög um Lánasjóð stúdenta, er hafði það hlutverk að veita stúdentum við Háskóla Íslands námslán. Þá gat ráðh. eftir tilmælum sjóðsstjórnarinnar ákveðið að lánsheimildin næði einnig til annarra stúdenta. Námslánin skyldu vera vaxtalaus á námstímanum, en endurgreiðast með jöfnum afborgunum og 3.5% vöxtum á 10 árum. Skyldu vaxtagreiðslur og afborganir hefjast þremur árum eftir námslok. Samkvæmt lögunum skyldi ríkissjóður leggja sjóðnum til 300 þús. kr. á ári í 25 ár frá stofnun hans og jafnframt ábyrgjast á sama tímabili 2.6 millj. kr. sem lán til 10 ára. Þetta er að finna í lögum nr. 5/1952. Stjfrv. til l. um lánasjóð fyrir íslenska námsmenn erlendis var flutt um svipað leyti árið 1952, en hlaut ekki afgreiðslu að því sinni. Voru lán og styrkir til náms erlendis áfram fjármögnuð með sérstakri fjárveitingu í fjárlögum sem menntamálaráð annaðist úthlutun á.

Árið 1960 voru síðan sett lög um Lánasjóð ísl. námsmanna erlendis, er vera skyldi undir stjórn menntamálaráðs. Lánskjör voru hliðstæð því sem áður var lýst um Lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands. Ríkissjóður skyldi árlega leggja til sjóðsins a. m. k. 3 millj. 250 þús. kr., auk þess sem í hann skyldu renna afborganir og vextir af námslánum menntamálaráðs á árunum 1952 til 1959.

Einu ári síðar, 1961, voru sett lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, lög nr. 52/1961, en lögin um Lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands og um Lánasjóð íslenskra námsmanna erlendis felld úr gildi. Hinn nýi lánasjóður skyldi skiptast í tvær deildir, lánadeild stúdenta við Háskóla Íslands og lánadeild námsmanna erlendis. Sameiginleg sjóðsstjórn hafði m. a. það hlutverk að skipta því fé, sem til úthlutunar var hvert ár, milli deildanna. Menntamálaráði var falið að veita það fé sem kæmi í hlut lánadeildar ísl. námsmanna erlendis, en úthlutun úr lánadeild stúdenta við Háskóla Íslands skyldi annast fimm manna nefnd skipuð af menntmrh., en með fulltrúum frá háskólaráði og stúdentaráði. Lánskjör voru svipuð og verið höfðu í þeim lánasjóðum sem áður störfuðu, nema hvað endurgreiðslutími var lengdur í allt að 15 ár. Árlegt framlag ríkissjóðs til sjóðsins var ákveðið eigi lægra en 4 millj. 650 þús. kr., en auk þess skyldu allar eignir fyrri lánasjóðanna renna til hins nýja sjóðs. Loks var sjóðsstjórninni heimilað að taka innanlands allt að 45 millj. kr. lán handa sjóðnum á árunum 1961–1980.

Árið 1964 var efnt til endurskoðunar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna og í framhaldi af því voru sett ný lög um námslán og námsstyrki árið 1967. Helstu nýmæli þeirrar löggjafar voru: 1. Deildaskipting sjóðsins var afnumin og sjóðsstjórn falin úthlutunin. 2. Námslánakjörum var breytt á þá lund, að vextir voru hækkaðir úr 3.5% í 5%, gert var ráð fyrir jöfnum ársgreiðslum, en tíminn frá námslokum til upphafs endurgreiðslna lengdur úr þremur árum í fimm ár. 3. Heimilað var að hafa við ákvörðun námslána hliðsjón af efnahag umsækjanda og námsaðstöðu að öðru leyti. 4. Felld var niður lögbinding á árlegu lágmarksframlagi ríkissjóðs, en kveðið svo á, að stefnt skyldi að því að opinber aðstoð við námsmenn samkv. lögunum nægði hverjum námsmanni til að standa straum af árlegum námskostnaði þegar eðlilegt tillit hefði verið tekið til aðstöðu hans til fjáröflunar. 5. Mælt var fyrir um að árlega skyldi veitt fé í fjárlögum til styrkja handa þeim er legðu stund á framhaldsnám að loknu háskólaprófi.

Með breytingu á þessum lögum árið 1968 og síðar 1972 var starfssvið Lánasjóðs ísl. námsmanna aukið með þeim hætti að nemendur nokkurra innlendra námsstofnana annarra en Háskóla Íslands var bætt í hóp þeirra sem veita mátti námslán. Jafnframt var í síðara skiptið kveðið á um að lögin um námslán og námsstyrki skyldu endurskoðuð í heild. Fyrsti árangur þeirrar endurskoðunar var lagafrv. sem lagt var fyrir Alþingi 1973, en hlaut ekki framgang.

Nýju endurskoðunarstarfi lyktaði með setningu laga nr. 57/1976, um námslán og námsstyrki, þeirrar löggjafar sem nú er í gildi. Með þeim lögum var svo sem kunnugt er tekið upp gerbreytt endurgreiðslukerfi sem m. a. miðar að verðtryggingu námslána. Opnuð var leið til að fjölga stuðningsbærum námshópum með reglugerð. Heimild til að veita styrki til aðstöðujöfnunar vegna náms fjarri heimili var rýmkuð, en ekki lengur gert ráð fyrir sérstökum kandídatastyrkjum eins og áður hafði verið.

Herra forseti. Þetta stutta yfirlit sýnir í hnotskurn aðdraganda og þróun námslánakerfisins a. m. k. í 75 ár. Reyndar liggja ræturnar miklu dýpra. Skólasagan í heild, svo langt sem rakið verður, vitnar um nauðsyn þess, að til sé styrktarkerfi í þágu námsmanna. Sú staðreynd er ekki ný af nálinni. Það kemur hins vegar í ljós, að hugmyndir um lánasjóð námsmanna eru miklu yngri en viðleitni ráðamanna til þess að sjá námsmönnum fyrir beinu styrktarfé. Hugmyndin um lánasjóð í stað styrktarkerfis kemur fyrst fram á Alþingi, svo að mér sé kunnugt um, á þinginu 1950–51. Þá fluttu tveir þm., Gylfi Þ. Gíslason, 3. landsk. þm., og Helgi Jónasson, þm. Rangæinga, þáltill. um námslánasjóð. Á næsta þingi, 1951–52, eins og reyndar er áður frá sagt, tók þáv. ríkisstj. málið upp og samþykki voru lög um Lánasjóð stúdenta 11. jan. 1952. Eru því um þessar mundir nákvæmlega 30 ár síðan fyrstu lög um lánasjóð námsmanna voru samþykkt. Þessa getur verið gott að minnst nú þegar fyrir liggur nýtt frv. til l. um þetta efni.

Lánasjóðsfyrirkomulagið hefur átt góðu fylgi að fagna á Alþingi síðustu 30 ár. Ég vona að svo sé enn og veit reyndar að alþm. hafa góðan skilning á þessu máli, þ. e. skilning á að hér er um réttlætismál að ræða sem veita verður brautargengi og aðlaga viðhorfum og þörf á hverjum tíma.

Ég mun nú víkja nánar að frv. því sem hér liggur fyrir. Í umr. um Lánasjóð ísl. námsmanna á undanförnum árum hefur tvö atriði löngum borið einna hæst: annars vegar það áhugamál námsmanna, að hlutfall fjárhagsaðstoðar sjóðsins af fjárþörf hvers einstaks lánþega yrði hækkað, en hins vegar það vandamál, sem fremur hefur snúið að fjárveitingavaldinu, hvernig efla mætti þátt eigin tekná sjóðsins í ráðstöfunarfé hans án þess að greiðslubyrðar lánþega yrðu óeðlilegar. Aðalbreytingarnar, sem í þessu frv. felast, beinast að þessum atriðum. Þannig gerir frv. ráð fyrir 1) að aðstoð lánasjóðs íslenskra námsmanna skuli miðast við að fullnægja eðlilegri reiknaðri fjárþörf hvers lánþega og 2) að reglunum um endurgreiðslu námslána verði breytt í því skyni að örva heildarendurgreiðslurnar til lánasjóðsins. Að þessu hvoru tveggja laut raunar einnig stjfrv. sem lagt var fram á Alþingi vorið 1979, en ekki varð útrætt. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir þó ráð fyrir að nokkru frábrugðnum leiðum að sama marki og skal hér vikið nokkru nánar að þessum meginatriðum.

Í lögum um námslán og námsstyrki, sem sett voru 1967, var í fyrsta skipti kveðið á um að stefnt skyldi að því, að opinber aðstoð við námsmenn samkvæmt lögunum nægði hverjum námsmanni til að standa straum af árlegum námskostnaði þegar eðlilegt tillit hefði verið tekið til aðstöðu hans til fjáröflunar. Svipað stefnumark er í lögum þeim er nú gilda frá 1976. Af hálfu námsmanna hefur gætt talsverðrar óþolinmæði vegna þess, hve lengi hefur dregist að ná þessu marki. Mikið hefur þó skilað áleiðis á þeim tíma sem liðinn er frá setningu löggjafarinnar árið 1967. Um það leyti námu námslánin að meðaltali um það bil 43% af ætlaðri fjárþörf, en nú er svo komið að miðað er almennt við hlutfallið 90%. Hækkun í það mark úr 85% var heimiluð frá hausti 1980. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að lánshlutfallið verði í raun lögákveðið 100%. Því, sem áður var pólitíski stefnumark, er nú breytt í afdráttarlaus fyrirmæli. Þetta er orðað þannig í 3. gr. frv.:

„Opinber aðstoð við námsmenn samkvæmt lögum þessum skal nægja hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til fjölskyldustærðar, framfærslukostnaðar þar sem nám er stundað, tekna námsmanns og maka hans, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns.“

Þess er þó að geta, að í ákvæði til bráðabirgða er mælt fyrir um að framkvæmdin gerist í áföngum þannig að hlutfallstala lána af reiknaðri fjárþörf námsmanna hækki úr 90–95% 1. jan. 1983, úr 95% í 100% 1. jan. 1984. Í tillögum endurskoðunarnefndarinnar var gert ráð fyrir að tímamörk þessara áfangahækkana yrðu annars vegar haustið 1981, en hins vegar haustið 1982. Til þess að svipað svigrúm fengist til undirbúnings að því er varðar ákvörðun fjárframlaga og orðið hefði ef frv. hefði verið lagt fram haustið 1980, er nefndin skilaði tillögum sínum, þótti eðlilegt að hnika tímamörkunum við eins og hér er gert.

Það er ljóst að hækkun lánahlutfallsins ein sér eykur fjárþörf Lánasjóðs íslenskra námsmanna, en í gagnstæða átt stefnir hins vegar hin meginbreytingin, sem í frv. felst frá núverandi framkvæmd, þ. e. breytt skipun á endurgreiðslu námslána. Skal ég nú víkja að því atriði.

Svo sem kunnugt er voru greiðslukjör námslána lengi mjög hagstæð, bæði að formi og þó enn frekar í raun, eins og verða hlaut um langtímalán með hóflegum föstum vöxtum í stöðugri verðbólgu. Í lögunum, sem sett voru 1976 og nú gilda, varð veigamikil stefnubreyting í þessu efni þar sem kveðið var á um verðtryggingu námslána í samræmi við breytingar á framfærsluvísitölu. Árleg endurgreiðsla myndast annars vegar af tiltekinni lágmarksafborgun, hins vegar svokallaðri aukaafborgun sem ræðst af tekjum greiðanda eftir nánari ákvæðum í reglugerð. Samanlögð ársgreiðsla á samkv. lögunum ekki að nema meira en 10% vergra tekna til skatts. Endurgreiðslutími er að hámarki 20 ár nú samkv. gildandi lögum. Gildandi lög gera ráð fyrir að ráðh. ákveði með reglugerð hvaða hlutfall af vergum tekjum til skatts umfram svonefndar viðmiðunartekjur lánþegi skuli greiða sem aukaafborgun, enda sé gætt þess hámarks sem að framan er getið. Af þessum sökum og vegna takmörkunar endurgreiðslutímans er ljóst að ákvæði reglugerðar, en ekki sjálf lagaákvæðin, ræður úrslitum um hve mikið af raunvirði námslánanna skilar sér endanlega til sjóðsins.

Í reglugerð þeirri, sem sett var samkv. lögunum haustið 1976, er harla flókin formúla um hvernig reikna skuli aukaafborgun sem hundraðshluta af vergum tekjum umfram viðmiðunartekjur. Talið hefur verið að reglurnar, eins og þær eru úr garði gerðar, verki þannig að endurgreiðslur skili um 66% af raungildi lána. Að vísu er þá miðað við lánahlutfallið 85% af reiknaðri fjárþörf sem nú er reyndar 90%. Samkv. frv. því, sem hér liggur fyrir, er hins vegar gert ráð fyrir að reglur þær, sem ákvarða fjárhæð árlegrar endurgreiðslu, verði færðar inn í lögin sjálf og þeim breytt verulega, sem sagt að þessar reglur verði í lögunum sjálfum, en ekki verði á valdi ráðh. að ákveða það.

Verðtryggingarviðmiðun verður lánskjaravísitala í stað vísitölu framfærslukostnaðar. Það er tillaga endurskoðunarnefndarinnar. Áfram er gert ráð fyrir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi: annars vegar sé lágmarksgreiðsla sem breytist árlega í hlutfalli við lánskjaravísitölu, en hins vegar viðbótargreiðsla sem miðast við tiltekinn hundraðshluta af útsvarsstofni næsta árs á undan endurgreiðsluári. Þessi hundraðshluti er ákveðinn 3.75%, margfaldaður samkv. hlutfallslegri breytingu á lánskjaravísitölu milli tekjuárs og greiðsluárs til að vega á móti áhrifum verðbólgu á hlutfall endurgreiðslu af afltekjum á greiðsluári. Sem dæmi má nefna að með umreikningi samkv. hlutfallsbreytingu lánskjaravísitölu frá 1980–1981 hefði umræddur hundraðshluti af útsvarsstofni ársins á undan orði 5.64%. Þess ber að gæta, að frá þessum hundraðshluta dregst hin fasta ársgreiðsla.

Gert er ráð fyrir að heimilt sé að veita undanþágu frá endurgreiðslureglunum ef til þess liggja sérstakar ástæður sem frv. tilgreinir nánar. Þá er hámarkstími endurgreiðslna lengdur úr 20 árum í 30 ár samkv. þessu frv. Hlutfall endurgreiðslu af tekjum lánþega verður samkv. frv. mun hærra en eftir þeim reglum sem nú gilda. Fasta greiðslan er þó öllu lægri en hún getur mest orðið samkv. gildandi lögum.

Samkv. útreikningum þeim, sem endurskoðunarnefndin lét gera, má ætla að breytingarnar frá gildandi endurgreiðslureglum hafi í för með sér að endurgreiðsluhlutfall af raungildi námslána vaxi úr 66% í 88%, ef frv. nær fram að ganga. Þá bendir nefndin á að ekki sé síður mikilsvert að endurgreiðslurnar muni aukast allhratt þannig, eins og segir orðrétt í grg. nefndarinnar, „að innan 10 ára nemi endurgreiðslur lána um helmingi af fjárþörf lánasjóðsins eins og hún yrði að óbreyttum lánareglum og óbreyttum fjölda lánþega“. Þetta væri mikil breyting frá því sem nú er. Þannig má nefna að endurgreiðslur af námslánum námu aðeins um 4–5% af ráðstöfunarfé sjóðsins á s. l. ári, en að vísu ber að hafa í huga að tiltölulega litið er farið að skila sér af endurgreiðslum samkv. löggjöfinni frá 1976.

Þess var áður getið, að verðtryggingarákvæðin í lögunum 1976 fólu í sér verulega stefnubreytingu varðandi lánaskilmála Lánasjóðs ísl. námsmanna, og með frv. því, sem hér liggur fyrir, stefnir áfram í þá átt að herða endurgreiðslukjörin. Í þessu sambandi verður hins vegar að gefa gaum að því, að samfara herðingu lánskjara hefur orðið stórfelld hlutfallsleg aukning á umfangi þeirrar fjárhagsaðstoðar sem námsmenn eiga kost á hjá Lánasjóði. Þetta helst enn í hendur samkv. þessu frv. og skal nú stuttlega drepið á helstu breytingar aðrar sem í frv. felast.

Í 2. mgr. 2. gr. er breytt orðalagi um svonefnda 20 ára reglu sem gerir kleift að veita fjárhagsaðstoð öðrum námsmönnum en þeim sem verksvið Lánasjóðs tekur aðallega til, enda hafi þeir ná 20 ára aldri og stundi sérnám. Breytingin frá gildandi lögum lýtur að því að liðka framkvæmd þessarar heimildar.

Í 6., 7. og 9. gr. felast breytingar á ábyrgðarákvæðum vegna námslána. Ábyrgðarmönnum er fækkað úr tveimur í einn við veitingu láns, og eftir að endurgreiðslur eru hafnar verður lánþegi einn ábyrgur fyrir greiðslu námsskuldarinnar. Jafnframt eru endurgreiðslur námslána gerðar lögtakskræfar og gert ráð fyrir að í því skyni verði sérstakt frv. lagt fram um breytingu á lögum nr. 29/1885, um lögtak og fleira.

Í 2. mgr. 3. gr. er gert ráð fyrir að námsmönnum, sem fjárhagsaðstoðar njóta samkv. frv. ef að lögum verður, verði gefinn kostur á aðild að lífeyrissjóði samkv. sérstakri reglugerð. Iðgjaldshluti námsmanna mundi dragast frá láni og mótframlag Lánasjóðs verði hluti af námsskuldinni. Ýmsum stoðum má renna undir þá skoðun að æskilegt væri að námsmenn ættu kost á að safna sér réttindum í lífeyrissjóðum fyrir þann tíma sem þeir eru í löngu og erfiðu námi. Hugmyndin kann þó að þykja nokkuð nýstárleg meðan sú hefðbundna skipan ríkir, að lífeyrisréttindi verði fyrst og fremst grundvölluð á launatekjum. Þetta atriði frv. er einnig það sem fyrirvari ríkisstj. við framlagningu frv. beinist að öðru fremur, svo sem áður var á minnst.

Frv. felur ekki í sér neinar breytingar á verksviði Lánasjóðs ísl. námsmanna að því er varðar þá hópa námsmanna sem undir lögin falla. Í 1. gr. kemur sem áður fram, að meginhlutverk sjóðsins sé að veita fjárhagsaðstoð til náms á háskólastigi eða sambærilegs náms. Í upphafi 2. gr. segir, eins og nú er gert ráð fyrir, að í reglugerð skuli mælt fyrir um að nemendur tiltekinna skóla skuli njóta námsaðstoðar samkv. lögunum, en orðalag um þetta er þó afdráttarlausara en áður og gert ljósara að slíkur stuðningur sé eðlilegur þáttur í hlutverki sjóðsins.

Til fróðleiks skal hér talið upp hvaða sérskólar það eru sem þessi ákvæði laganna ná til eins og reglugerðin er núna: Þar er um að ræða Fiskvinnsluskólann, þ. e. 3. og 4. ár, Fósturskóla Íslands, Hjúkrunarskóla Íslands Hússtjórnarkennaraskóla Íslands, 2. og 3. ár, iðnskóla eða framhaldsdeildir iðnskóla, 2. og 3. ár, Íþróttakennaraskóla Íslands, Leiklistarskóla Íslands, Myndlista- og handíðaskóla Íslands, sérdeildir, 2., 3. og 4. ár, Nýja hjúkrunarskólann, stýrimannaskóla, tónlistarskóla, þ. e. kennaradeildir Tónlistarskólans í Reykjavík svo og tónlistarnema á 7. og 8. námsstigi samkv. námsstigakerfi Tónlistarskólans í Reykjavík, þá Tækniskóla Íslands, raungreinadeild og tækninám annað en meinatækni, vélskóla og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Nám á tæknifræðistigi og meinatækninám við Tækniskóla Íslands svo og nám í framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri telst aðstoðarhæft samkv. hinni almennu reglu.

Þá skal þess og getið til fróðleiks, að á síðasta ári, 1980–1981, má ætla að um 6.500 námsmenn hafi verið í lánshæfu námi hér á landi. Um 2.250 námsmenn á Íslandi fengu þá lán úr lánasjóði eða tæplega 35% af öllum hópnum og er það þó mikill meiri hluti þeirra sem sóttu um. Um 1370 fengu lán til náms erlendis. Samanlagt voru lánþegar því um 3.620 á skólaárinu 1980–1981.

Eðlilegt er að hv. alþm. láti sig miklu skipta hver ætla megi að verði áhrif þessa frv. á fjárþörf lánasjóðs ef það nær fram að ganga. Vekja ber athygli á að kostnaðartölur í grg. frv. eru margar miðaðar við verðlag sem þegar er orðið úrelt. Það er frá þeim tíma þegar frv. var samið fyrir 11/2 ári. Er því ljóst að athuga þarf við umfjöllun frv. á Alþingi ýmsa þætti grg. sem að þeim lúta. Sumar áætlanir hefur menntmrn. þegar látið endurskoða eða er að láta endurskoða og þau gögn verða að sjálfsögðu látin viðkomandi þingnefndum í té.

Að lokum skal hér um kostnaðaráhrifin vitnað til þess, sem segir í grg. endurskoðunarnefndarinnar og er mjög mikilvægt atriði sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir:

„Augljóst er að sumar breytinganna, sem fólgnar eru í frv., svo sem 100% brúun á reiknaðri fjárþörf og aðild námsmanna að lífeyrissjóði, munu auka fjárþörf lánasjóðsins. Sú aukning dreifist hins vegar á næstu 6–8 ár, þar sem skuldbindingar lánasjóðsins vegna lífeyrissjóðsaðildarinnar fer fyrst að gæta svo að einhverju nemi 3–5 árum eftir að þetta nýmæli kemur til framkvæmda. Á sama tíma ættu endurgreiðslur námslána að aukast svo að þær gerðu gott betur en vega upp á móti aukinni fjárþörf lánasjóðsins, þannig að framlög til sjóðsins ættu að lækka að raunvirði.“

Herra forseti. Ég skal nú fljótlega ljúka máli mínu. Til upprifjunar skal ég nefna í fáum orðum þau atriði sem verst er að leggja á minnið í sambandi við þetta frv.:

1. Lánasjóður ísl. námsmanna er eðlileg og sjálfsögð stofnun í nútímaþjóðfélagi. Þessi starfsemi er félagslegt réttlætismál í eðli sínu, leið til þess að eyða forréttindum og stéttamun.

2. Lánasjóðurinn hefur verið að eflast og þróast síðustu 30 ár.

3. Fjárhagsbyrði ríkissjóðs er allveruleg vegna sjóðsins, en virðist þó hafa náð vissu jafnvægi síðustu 10 ár og þarf ekki að koma neinum á óvart.

4. Tryggja verður að starfsemi sjóðsins sé heilbrigð og nái tilgangi sínum. Því hljóti lög og reglur um sjóðinn að vera háð gagnrýni og eðlilegri endurskoðun á hverjum tíma.

5. Telja verður að nú sé eðlilegur tími til þess að endurskoða lög um sjóðinn, og því er þetta frv. flutt.

6. Benda verður á að þetta frv. er samið af fjölskipaðri nefnd sem í áttu sæti fulltrúar hinna ólíklegustu stjórnmálaflokka og hagsmunahópa. Þótt fyrirvarar séu um einstök atriði í frv. hefur þessi nefnd hvatt til þess að frv. verði flutt og tekið til meðferðar í þinginu.

7. Ýmis nýmæli og breytingar eru í frv. frá því sem nú er í lögum. Nefna verður sérstaklega að aðstoð lánasjóðs skuli miðast við að fullnægja 100% áætlaðri fjárþörf hvers námsmanns, en nú er miðað við 90%, og að reglum um endurgreiðslu námslána verði breytt í því skyni að tryggja sem best endurgreiðslur til lánasjóðs þannig að hann geti í vaxandi mæli staðið undir sér, ef svo má til orða taka.

8. Hvað skyldur og fjárhagsbyrði ríkissjóðs varðar er það að segja, að ef þetta frv. verður að lögum mun fjárþörf lánasjóðs í sjálfu sér vaxa í fyrstu, en vöxturinn dreifist á allmörg ár. Á móti kemur að endurgreiðslur til sjóðsins aukast og þessi endurgreiðsluaukning gerir það að verkum, að sjóðurinn ræður yfir meira eigin fé þannig að bein framlög úr ríkissjóði hljóta að lækka þegar fram í sækir. Þetta frv. miðar að því að lækka beina fjárhagsbyrði ríkissjóðs.

Það er einlæg von mín að málið fái góðar undirtektir í hv. Alþingi. Ég vænti þess, að frv. geti orðið að lögum á þessu þingi. Þingsagan í 30 ár sýnir að lánasjóðsmál námsmanna hafa átt stuðningi og skilningi að fagna í öllum þingflokkum, og efa ég ekki að svo er enn. Í undirbúningi þessa máls hef ég leitast við að fá um það sem víðtækasta umfjöllun ólíkra aðila. Þetta frv. er ekki eins manns verk, heldur árangur af víðtæku nefndarstarfi.

Að svo mæltu, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. þegar þessari umr. er lokið.