26.01.1982
Sameinað þing: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

51. mál, landnýtingaráætlun

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Hér er tekin til umr. á ný þáltill. sem er flutt af þm. allra flokka, till. sem fjallar um að gerð verði landnýtingaráætlun. Ég vil taka undir það með þeim sem rætt hafa hana hér á undan mér, að ég tel mjög tímabært að slík áætlun sé gerð og ég tel mikilvægt að hún sé vel gerð og að hún móti þá stefnu sem til frambúðar væri hægt að fara eftir um landnýtingu.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að hann vildi taka undir það með 1. flm., sem hann gerði að umræðuefni í sinni frumræðu, að vandamál í sambandi við landnýtingu væru margs konar, m. a. væri mikill ágangur af manna völdum sérstaklega á lönd með veikari gróður, mikill ágangur frá manninum sjálfum, auk þess sem öll beitarnýting yrði að vera með þeim hætti að hún ofbjóði ekki landinu, það þyrfti að taka þetta með í reikninginn.

Ég hefði ekki þurft að kveðja mér hljóðs endilega til að tilkynna úr ræðustól að ég væri jákvæður gagnvart þessari till. og teldi hana gagnlega. En það, sem gaf mér sérstakt tilefni til þess að kveðja mér hljóðs, var sú ræða sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti við 1. umr. Ég verð að segja að mér finnst að sú ræða eða kaflar í henni séu þannig gerðir að á þann veg megi ekki fara að við undirbúning að máli sem telja verður gott mál. Það er mjög mikilvægt, þegar umrædd áætlun verður gerð og að henni unnið, að þá verði haft að leiðarljósi að fara rétt með undirstöðuþætti í þeirri áætlun sem gera skal.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson viðhafði þessi orð á einum stað og mig langar að hafa þau yfir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekkert launungarmál, að á mjög mörgum hálendissvæðum og afréttarlöndum er um mikla ofbeit að ræða. Að vísu er ofbeit ekki jafnmikil í öllum landshlutum. Í sumum landshlutum þola afréttarlöndin jafnvel meiri ágang sauðfjár og annarra grasbíta en þar á sér stað, en um allflest stærstu afréttarsvæði landsins gegnir því máli að þar er gróðureyðing yfirvofandi vegna of mikils ágangs búfjár vegna hreinnar ofbeitar.“

Ég hef í tilefni af þessum orðum og fleira, sem í ræðu hans fólst, haft samband við landnýtingarráðunaut Búnaðarfélags Íslands, Ólaf Dýrmundsson, og m. a. spurt hann um þetta efni, hvar þau landssvæði væru sem þessi ofnotkun væri og ágangur af sauðfé og öðrum grasbítum. Hann taldi að um það efni hefði ekki fengist nægilega ákveðin svör hvar það hefði verið. Væri að sjálfsögðu fróðlegt að fá það upp gefið hjá hv. þm. hvar þær heimildir væru sem gæfu honum tilefni til að viðhafa þessi orð.

Mér þykir rétt að kynna það hér, að á síðasta Búnaðarþingi var samþykkt ályktun um þetta efni. Hún er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing fer þess á leit við stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, að hún leggi fram í samvinnu við sérfræðinga stofnunarinnar sundurliðað yfirlit um beitarþol hinna ýmsu beitarsvæða landsins í samræmi við niðurstöður rannsókna. Með hliðsjón af niðurstöðum beitarrannsókna síðustu ára, sbr. landgræðsluáætlun 1981–1985, er jafnframt lögð áhersla á áframhaldandi tilraunir til að auka beitarþol og bæta nýtingu úthaga, sérstaklega í heimalöndum, t. d. með beitarskiptum. Jafnframt verði könnuð hagkvæmni áburðardreifingar við hagabætur, annars vegar í heimalöndum og hins vegar á afréttum.“

Þessi ályktun sýnir fyrst og fremst að bændum er það áhugamál og vilja hafa vakandi auga með því, með hverjum hætti þeir eigi að hagnýta landið sem þeim er trúað fyrir, bæði heimalönd og afréttir. Þess vegna hafa þeir óskað eftir að fá upplýsingar um það frá Rannsóknastofnuninni og þeim sérfræðingum, sem þar starfa, hvar hættan er mest og hvað hún sé mikil.

Þessi ályktun Búnaðarþings var send til ráðamanna stofnunarinnar 24. mars 1981, en því miður er skemmst af því að segja að svar hefur ekki borist enn. Landnýtingarráðunautur hefur ítrekað rekið á eftir því, að þessi svör yrðu gefin, og nú fyrir stuttu haft samband við yfirmann stofnunarinnar um þetta og óskað eftir að svör verði gefin við þessum spurningum. Í máli þeirra kemur það fram, að um þetta séu ekki til neinar haldgóðar upplýsingar, og hafa þessi svör væntanlega ekki gefist vegna þess.

Landnýtingarráðunauturinn var ekki fyllilega ánægður með að ekki væri hægt að gefa bændum nein svör um hvernig málið stæði, og hann leitaðist við að fá upplýsingar um hversu mikil beit væri í afréttunum og hvernig hún skiptist milli héraða. Hann ákvað að skrifa öllum sveitarstjórnum í landinu og afla upplýsinga um hversu mikið af fénaðinum gengi í heimahögum og hversu mikið í afréttum. Það yrði of langt mál að fara að lesa upp hvernig þetta er í hinum einstöku héruðum, enda skiptir það ekki máli á þessu stigi umr., en í heild er það þannig, að í öllum sýslum landsins að kaupstöðum meðtöldum er líklegt að í heimalöndum jarða séu allt sumarið fyllilega 60% af því fé sem til er í landinu. Þá kemur út að áætlaður hundraðshluti sauðfjár í afréttum og/eða öðrum sameiginlegum beitarhólfum sé 38.4%, en í afréttum 35.3%. Þar sem ég sé á þessari skýrslu hæstan hundraðshluta af sauðfé vera í afrétti er í Norður-Þingeyjasýslu, 76% af fénu, og í Gullbringusýslu 70%. Þar sem fjárfjöldinn er mestur, að ég ætla, m. a. í Borgarfjarðarsýslu, eru ekki nema 34% í afréttum, í Vestur-Húnavatnssýslu 39% í afréttum, í Austur-Húnavatnssýslu 64%, í Árnessýslu 39%.

Því miður sýnist mér að þessi athugun, sem gerð hefur verið á því, hversu mikill hluti af fénu hefur verið í afréttum, stangist algerlega á við það sem segir síðar í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, þar sem hann segir svo, með leyfi forseta:

„Vísir menn segja, að nú séu um það bil 900 þús. fjár rekið á afrétti í þessu landi, og miðað við þær gróðurfarsrannsóknir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, telja þessir sömu sérfróðu menn um gróðurfar landsins að þar sé um að ræða um þar bil 400 þús. fjár meira en þessi afréttarlönd þola.“

Það eru eitthvað um 900 þús. fjár í landinu og það er viðurkennt að rum 30% af því séu í afréttum. Þessar fullyrðingar standast því ekki og ég, eins og ég sagði áðan, tel óeðlileg vinnubrögð að set ja fram í þessari umr. um till., sem menn eru sammála um að sé gagnleg, rangar upplýsingar. Ég skora á hv. þm. Sighvat Björgvinsson að gefa upp heimildarmann sinn um þetta efni. (SighB: Það er sjálfsagt.)

En áfram má halda. Hv. þm. sagði í ræðu sinni að það væri meira en ástæða til að skoða það í samanburði við búskap í Grænlandi hver niðurstaðan væri úr sauðfjárræktinni í báðum þessum löndum. Hann segir hér, með leyfi forseta:

„Í Grænlandi er búið með sauðfé af sama stofni og íslenska sauðféð. Þar er meðalfallþungi dilks 22–23 kg. Hér á Íslandi er meðalfallþungi dilks af sama stofni 13–14 kg. Í Grænlandi er meðalviðkoma hverrar kindar 1.6 lömb. Hér á Íslandi er meðalviðkoma hverrar kindar 1.3 lömb.“

Á sama hátt mætti einnig spyrja: Hvaðan eru þær heimildir sem hér er vitnað til? (SighB: Það er úr málgagni hv. þm., Morgunblaðinu, frá 1980.) Það er alveg sama. Þegar spurt er um sérfræðilegt álit skiptir það litlu hvar það birtist. Aðalatriðið er hver skrifar og hvaðan upplýsingarnar eru. Það ætti þessi reyndi þm. að vita.

Ég get þá líka vitnað í Morgunblaðið um þetta efni. Ég veit ekki betur en í dag hafi komið tvær greinar í Morgunblaðinu um fallþunga dilka á Íslandi og á Grænlandi. Og ég get gert meira. Í báðum tilfellum er um sérfræðinga að ræða á þessu sviði: sérfræðing um búfjárfræði, Stefán Scheving Thorsteinsson, sem hefur starfað mikið við tilraunabúið um sauðfjárrækt á Grænlandi og verið ráðunautur um sauðfjárrækt þar í landi, en í annan stað er stutt grein eftir Svein Hallgrímsson sauðfjárræktarráðunaut hjá Búnaðarfélagi Íslands, sem einnig er í Morgunblaðinu í dag. Ég held að ég komist ekki hjá því í tilefni af þessum tölum um meðalþunga og frjósemi og því öllu saman, sem er ákaflega mikið og gott í Grænlandi, að lesa stuttan kafla úr þessari grein eftir Svein Hallgrímsson í Morgunblaðinu í dag, með leyfi forseta:

„Í blaði þínu föstudaginn 22. þ. m. var sagt frá umr. á Alþingi um landnýtingaráætlun. Þar kom fram að fallþungi dilka á Grænlandi væri 22 kg, en 13–14 kg á Íslandi. Sömuleiðis kom þar fram, að á Grænlandi kæmu 1.6 lömb eftir hverja á, en 1.3 lömb hér á landi.

Af þessu tilefni vil ég koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

Fjöldi áa 1980–1981: Á Íslandi 685 þús., á Grænlandi 20 þús. Lömbum slátrað haustið 1981: Á Íslandi 915 þús., á Grænlandi 21 þús. Fallþungi með nýrmör: Á Íslandi 14.3 kg, á Grænlandi 14.7 kg. Lömbum slátrað eftir vetrarfóðraða á: Á Íslandi 1.34 kg, á Grænlandi 1.05. Kjöt eftir vetrarfóðraða á: Á Íslandi 19 kg, á Grænlandi 15.5 kg.

Tekið skal fram til að fyrirbyggja misskilning, að upplýsingar um fallþunga og fjölda sláturfjár á Grænlandi voru fengnar símleiðis í dag hjá Lasse Bjerge, starfsmanni á Sauðfjártilraunastöðinni Upernaviarssuk við Julianehåb á Grænlandi.“

Einnig er rétt að koma að því líka sem segir í niðurlagi greinar Sveins Hallgrímssonar:

„Samkv. upplýsingum Lasse Bjerge eru föll á Grænlandi vegin með nýrmör, en á Íslandi án nýrmörs. Talið er aá bæta megi við fallþungann 5% vegna þessa. Fallþungi á Íslandi haustið 1981 er samkv. skýrslum Framleiðsluráðs 13.65 kg. Sé bætt við hann 5% vegna nýrmörs verður hann 14,33 kg.“

Hér eru upplýsingar frá sérfræðingi á þessu sviði, sem styðst við nýjustu niðurstöður frá Grænlandi, algerlega í aðra átt en hv. þm. lét að liggja í ræðu sinni hér á dögunum.

Það má segja að gangi í svipaða átt það sem Stefán Scheving lætur hafa eftir sér í Morgunblaðinu í dag. Ég kýs að lesa hér stuttan kafla úr hans grein, með leyfi forseta. Hann segir:

„Af framangreindu má því ljóst vera að meðalfall dilka og meðalfrjósemi áa á Grænlandi er hvergi nærri því sem Sighvatur Björgvinsson vill vera láta og notar til samanburðar við afurðir íslenska fjárins. Þess ber þó að geta, að til er a. m. k. eitt fjárbú af um það bil 83 þar sem ær skila afurðum á borð við það sem þm. telur meðalafurðir á Grænlandi, en það er tilraunastöðin í Upernaviarssuk við Julianehåb. Þar hefur meðalfallþungi dilka legið frá 20–22 kg s. l. 5 ár og frjósemi ánna frá 1.5 til 1.7 lömb á á til jafnaðar.“

Það er allt of mikil einföldum á stóru máli, sem er mjög afdrifaríkt um stefnumörkun, að taka aðeins til eina tilraunabúið sem er í Grænlandi og telja það vera meðaltalið af því sem þar fæst af fénu.

Hv. þm. heldur hér fram og telur sig geta reiknað það út, að það mundi fást álíka mikið kjöt hjá íslenskum bændum af 500 þús. kindum og þeir fá nú af 900 þús. kindum. Út af fyrir sig held ég að það sé ekkí rétt reiknað út frá þeim tölum sem hann gefur hér, en það skiptir kannske ekki mestu. Hitt er annað mál, að ef við notum réttar þungatölur er þetta alrangt. Það er svo rétt að hafa í huga, að þó að svo vilji til og svo hafi gengið til með ræktun á tilraunabúinu í Grænlandi að þeir séu með mjög góða útkomu af sínu fé er ekki eftirbreytnivert fyrir íslenska bændur að fara inn á sömu aðferðir í meðferð sauðfjár og því miður eru til staðar í Grænlandi. Ég geri ráð fyrir að það þætti ekki vera í lagi ef það kæmi fyrir, sem því miður hefur hent öðru hverju í Grænlandi, að fallið hefði stór hluti þess fjár sem á vetur hefði verið settur.

Bæði hjá grænlenskum bændum og hjá þeim íslensku skiptir höfuðmáli upp á afurðirnar að gleyma ekki vetrarfóðrinu fyrir féð. Ef það er í lagi held ég að við þurfum ekki að vera mjög hræddir um niðurstöðurnar af ofbeit í afréttunum. Ýmsir þeir, sem kalla sig sérfræðinga í beitarþoli og beitarþolsrannsóknum, hafa viljað ganga út frá því, að það sauðfé, sem rekið er til afréttar hér og víða er talið valda ofbeit, gangi í afréttunum nánast í 90 daga á hverju sumri. Eins og ég hef tekið fram áður er útlit fyrir að aðeins rúm 30% af fé í landinu gangi á afréttum, og það gengur þar ekki 90 daga. Það er mjög algengt að það gangi þar aðeins í 60 daga og til að það gangi þar í upp undir 70 daga. Ég þekki það vel af mínum heimaslóðum, að það er ekki rekið til afréttar fyrr en upp úr mánaðamótunum júní — júlí og það er búið að reka það allt úr afrétti um 10. sept. Afrétturinn er 120 km langur, svo að það tekur sinn tíma hjá fénu að komast á leiðarenda. Það er því útilokað að það geti verið 90 daga í afrétti. Það eru ýmsar svona fullyrðingar, sem því miður fljúga fyrir öðru hverju, sem verður að gjalda varhuga við þegar á að taka á máli eins og þessu með jákvæðum huga og ætlast til að ná árangri.

Ég ætla að leiða alveg hjá mér að bollaleggja nokkuð um það sem kom fram í ræðu hv. þm., hvort kal í íslenskum túnum væri því að kenna, hvað sauðfé gengi nærri þeim í beit á haustin. Ég verð að segja að ég hef ekki trú á því, en ég skal ekkert fullyrða um það. En mér sýnist að yfirleitt sé þannig staðið að málum, þar sem fé er mest beitt á túnin, að það sé látið hafa sérstaka akra til að ganga á og beitarálagið á hána sjálfa sé ekki ýkjamikið. En við getum látið það liggja á milli hluta. Ég ætla ekki að gera það að sérstöku umræðuefni.

Það, sem ég vil leggja áherslu á um beitarnotin, er að ég veit að sums staðar er ofbeit, bæði í heimahögum og í afréttum, og það er mikilvægt að svör fáist við því og það verði rannsakað hvar svo er komið og í hversu miklum mæli og hvernig á að snúast gegn því. Mig furðar á því, hve langur tími liður án þess að Búnaðarþing fái svör frá Rannsóknastofnuninni um það, hvernig þessum málum sé háttað á hinum ýmsu svæðum í landinu. Það er, eins og ég sagði áðan, meira en trúlegt, — það er nærri víst, að í sumum sveitum og á einstökum bæjum sé of margt fé. Landnýtingaráætlun eins og þessi getur orðið gagnleg, en ýkjur eins og komu fram í ræðu hv. 3. þm. Vestf., ýkjur um ástand þessara mála, eru ekki til annars fallnar en villa um fyrir fólki og mynda tortryggni í garð þeirra sem um þessi mál eiga að fjalla og stjórna, bæði bænda og rannsóknarmanna í landinu. Ég tel að þegar kemur að því að fjalla um þessa till. áfram þurfi að leita upplýsinga margra aðila í landinu: búnaðarsambandanna, Búnaðarfélagsins, Landgræðslu ríkisins og að sjálfsögðu hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins einnig, og þá muni vera hægt að undirbyggja þá áætlun, sem hér er óskað eftir að gerð verði, betur en yrði ef ekkert væri til leiðsagnar annað en ræða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Ég gef henni ekki mín bestu meðmæli.

Ég hefði nú e. t. v. getað látið máli mínu lokið hér og vegna till. sjálfrar hefði ég kosið að gera það. En því miður get ég ekki alveg orða bundist vegna síðari hluta ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, þar sem hann gerði að umtalsefni eignarrétt á landi. Hann segir þar m. a.: „Fyrir jólin fluttum við þm. Alþfl. í hv. Nd. Alþingis frv. til l. um að mörkuð yrðu skil á milli einkaeignarréttar á landi og eignarréttar almannavaldsins og það landssvæði á afréttum og hálendi Íslands, sem engar eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila væru finnanlegar fyrir, yrði úrskurðað eign almannavaldsins.“ — Áfram segir hv. þm. svo síðar í ræðu sinni:

„M. ö. o. segir Hæstiréttur: Hreppsfélögin og ábúendur jarðanna eiga ekki þetta land, vegna þess að þau geta engar sönnur fært fyrir sínum eignarrétti. En ríkið á landssvæðið ekki heldur.“

Og síðan segir hann: „Hæstiréttur óskar m. ö. o. eftir því, að Alþingi setji lög um hvernig skuli fara með þegar enginn einstaklingur eða lögaðili getur sannað eignarheimildir sínar á landi og landgæðum. Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu, að slík lönd og landgæði falli ekki sjálfkrafa undir eignarheimild ríkisins, en óskar eftir því, að Alþingi setji lög um hvernig með skuli fara. Frumvörp að slíkum lögum liggja nú fyrir Alþingi flutt af mér og fleiri Alþfl.-mönnum og studd af þm. Alþb. Eftir þennan úrskurð Hæstaréttar þurfa menn sem sé ekki lengur að velkjast í neinum vafa um þetta mál.“— Það er alveg ákveðið mál, og þar lokast gæsalappirnar.

Mér skilst að jafnvel hrein afsöl fyrir löndum séu ekki talin gild fyrir Hæstarétti í þessu máli og furðar mig það mjög. Ég hef hér undir höndum tvenns konar plögg varðandi þessi mál sem mig langar að kynna. Hið fyrra er afsalsbréf, útgefið af eignar- og umráðamönnum Skálholts-, Bræðratungu-, Haukadals- og Torfastaðakirkna, fyrir afrétti þeim er þeim ber eftir Wilkins- og Gíslamáldögum, til handa Biskupstungnahreppi. Sem sagt: Þessar kirkjur seldu þann afrétt sem þær áttu fyrir innan vötn. Það er landið frá Hvítárvatni eða Hvítá og inn á Kjöl.

„Vér undirskrifaðir eignar- og umráðamenn Skálholts-, Bræðratungu-, Haukadals- og Torfastaðakirkju könnuðumst við og gerum hér með heyrinkunnugt, að vér höfum selt og afhent með afsöluðum óðals- og innlausnarrétti eins og vér með þessu afsalsbréfi voru seljum og afhendum afrétt þann, sem téðum kirkjum“ — eftir máldögunum sem ég gat um — „tilheyrir fyrir norðan vötn.“ — Síðar í bréfinu segir: „Biskupstungnamenn ganga því þegar að kaupi og eign sinni, er þeir hér eftir nýta og hagnýta eins og þeir best hafa kost og vit á.“

Undirskriftir eru í votta viðurvist, þinglesið og innfært í afsalsbréfabók og gjald greitt fyrir. Undirskrifað af sýslumanni: Th. Guðmundsson.

Það er alveg furðulegt ef það er ekki metið fyrir dómstólum að þetta sé fullgilt eignarhald á þessu landi. — En mig langar að kynna hér stutt bréf annað, sem ég hef undir höndum, sem varðar afrétt Gnúpverjahrepps eða Eystrahrepps, eins og hann var í þá daga oft nefndur. Þetta er ekki afsalsbréf. Þetta heitir Promemoría og hefst þannig:

„Með því að Austarihreppsafréttur, sem honum hefur tilheyrt og fylgt til allra landnytja frá aldartíð, svo vel að fjárgöngum, skógi, grösum og öllum landsnytjum, en hefur tekið svo fárlegum skaða af jarðeldum, vikurgosum og svo uppblæstri, svo að meiri partur eru eyðisandar orðnir, að það litla brúk, sem þar eftir finnst, vinnst ekki sveitarmönnum til hjálpar, og nokkrir hafa leitað sér hjálpar til að kaupa sér skóg til kola í öðrum sveitum, sem þó er torsótt að fá.“

Í niðurlagi þessa minnisbréfs segir svo:

„Við undirskrifaðir lögfestum upp á okkar ágreining allra sveitarmanna vegna áðurnefndan afrétt fyrir innan Fossá og leggjum lög og dóm fyrir allra óviðkomandi manna brúkun og yrkingu að þeim fráteknum sem þar finnst, ítökum eiga í skógi eða fjárgöngum eftir löglegum ankomstum undir viðliggjandi sektir eftir lögum og biðjum í dýpstu undirgefni að herra sýslumaðurinn láti þetta upp lesa og auglýsa fyrst á Grafarþingsstað í Ytrihrepp og þar eftir á þeim fimm þingstöðum í Flóa.

Til staðfestu vor undirskrifuð nöfn á Stóra-Núps manntalsþingi þann 18. maí 1797.“

1797 fara þeir fram á það, bændur í Gnúpverjahreppi, að sýslumaðurinn lesi upp á þingstöðum þeirra sveitarfélaga, sem þeir áttu fyrst og fremst skipti við, þennan gjörning, sem þeir hafa gert, sem undirstrikar að þeir telja afréttinn vera eign bændanna og sveitarfélagsins. Það eina, sem mér sýnist að vanti í þetta minnisbréf, er að tekið sé fram í því, að þeir telji sig einnig eiga virkjunarrétt í fallvötnum. En ég get ekki áfellst þá fyrir það, þó þeir kæmu ekki auga á það 1797, að hægt væri að virkja vatnsafl á Íslandi ellegar að taka upp malarnám eða útflutning á vikri eða eitthvað því líkt. Það má vel vera að aðrir telji að það hafi verið eðlilegt að það stæði í þessum plöggum, en mér sýnist ekki sanngjarnt að fara fram á slíkt. Hitt er annað mál, og það vitum við, að ef menn væru að kaupa þessar eignir núna á þessum tíma, mundi vera tekið fram fleira sem nota mætti en það sem tekið er fram í þessum bréfum. Og ég verð að segja það, að meðan mál eru jafnlítið rannsökuð í sambandi við eignarréttinn og kemur í ljós, bæði af þeim dómum, sem gengið hafa, og af þeim bréfum sem smám saman eru að koma fram og finnast um eignarhald á afréttarlöndunum, megi Alþingi ekki samþykkja frv. sem er neitt í þá veru sem þetta frv. Alþfl.-mannanna, sem nýtur hylli Alþb. eftir því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði í sinni ræðu. (Gripið fram í: Jæja.) Það er í ræðunni. (Gripið fram í: Er þar þá ekki einnig að meginatriðin væru studd?) Studd af þm. Alþb., stendur hér. (Gripið fram í: Já, en ekki nyti sérstakrar hylli þeirra.) Það er furðulegt ef á að gera slíkt með rasshendinni, að styðja frv. sem fram koma. Ég hélt að það yrði með heilum hug. En það er kannske venjan hjá þeim körlum að gera ekkert með heilum hug.

Jæja, herra forseti, ég geri ekki ráð fyrir að ég lengi þetta mál svo mjög úr þessu. En ég held að ég kjósi að ljúka máli mínu með því að lesa hér upp stuttan kafla úr grein sem landnýtingarráðunautur skrifaði 1978 og birtist í Frey og birtist einnig sem kjallaragrein í Dagblaðinu á því sama sumri. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En hvað hefur þá verið gert til að hafa stjórn á afréttarbeitinni? kunna sumir að spyrja.

Áður var þess getið, að í flestum sveitarfélögum væri farið að takmarka verulega eða banna upprekstur hrossa í þeim tilgangi að draga úr beitarálagi í þeim afréttum, sem taldir eru fullnýttir. Þeim sveitarfélögum hefur og farið fjölgandi, sem setja reglur um upprekstur eða flutning sauðfjár í afrétti sína. Algengast er að banna upprekstur fyrr en seint í júní eða byrjun júlí, fylgst er með fjárfjölda við afréttargirðingar síðla sumars og rekið til byggða, ef þurfa þykir, í lok ágúst eða byrjun september, og í mörgum sveitarfélögum hefur göngum og réttum verið flýtt. Í heild hafa slíkar ráðstafanir orðið til þess að stytta beitartíma á afrétti frá því sem áður var, þannig að dregið hefur út beitarálagi. Einnig ber að minnast þess, að í mörgum sveitum nýtir aðeins hluti fjárins afréttarbeit, svo sem áður var getið um. Skipulegri ítölu hefur þó lítið verið beitt til þessa.

Með Landgræðslu ríkisins og fjölmörgum sveitarfélögum í landinu er ágæt samvinna um markvissar gróðurverndar- og uppgræðsluaðgerðir af ýmsu tagi. Má í því sambandi nefna áburðardreifingu, einkum á mörkum afrétta og heimalanda, t. d. á Suðurlandi, sem hefur borið góðan árangur. Með því að græða upp gróðursnauð svæði fæst betri dreifing á fénað, beitarálag verður jafnara og minni hætta er á að fé safnist saman við afréttargirðingar síðla sumars. Gott dæmi um þetta er að finna í neðanverðum Biskupstungnaafrétti, ofan Sandár.

Við slíkar aðgerðir setur Landgræðsla ríkisins það skilyrði, að hross gangi ekki á landinu, og í samráði við viðkomandi sveitarfélög eru settar reglur um afréttarnýtingu sauðfjárins eftir því sem þurfa þykir í hverju tilviki. Á mörgum stöðum hefur þurft að alfriða land með girðingum og hefur Landgræðslan víða unnið stórvirki við heftingu uppblásturs og sandfoks. Um það þarf ekki að fjölyrða.

Þótt ég hafi aðeins verið stuttan tíma í þessu starfi „— þ. e. starfi landnýtingarráðunautar—„ hef ég nú þegar mætt góðum skilningi bænda víða um land á nauðsyn þess að varðveita og bæta sumarbeitilönd, hvort sem er í heimahögum eða afréttum. Gróðurverndarnefndir eru starfandi í öllum sýslum landsins, og geta þær gegnt veigamiklu hlutverki með því að fylgjast stöðugt með ástandi gróðurlenda í samvinnu við Landgræðsluna, Landvernd og Búnaðarfélag Íslands. Raunar hlýtur skipuleg og hófleg nýting úthaga að byggjast á góðu samstarfi og gagnkvæmu trausti hinna ýmsu aðila, sem um málin fjalla.“

Ég tel ekki ástæðu til að ég fari að þessu sinni lengra út í þessa sálma. En ég vil hvetja til þess, um leið og ég lýk máli mínu, að þessi till. verði athuguð í nefnd með jákvæðum huga, og ég vænti þess, að við getum sameinast um að hún komi þannig frá Alþingi að hún marki tímamót í þessum málum fyrir okkur og geri stefnuna fastari og einlægari til árangurs. En til þess að svo verði megum við ekki viðhafa um þessi mál málflutning eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson.