26.10.1981
Neðri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Sighvatur Björgvinsson [frh]:

Herra forseti. Á síðasta fundi þessarar deildar var fundartíma lokið áður en mér auðnaðist að ljúka ræðu minni, en ég tók til máls til þess m. a. að svara ýmsum ásökunum sem komið höfðu fram í minn garð og okkar Alþfl.-manna í máli hv. þm. Baldurs Óskarsson. Kom m. a. fram í þessari ræðu minni að ég taldi að það væri rangt, sem haldið hefði verið fram af þeim Alþb.-mönnum og gert ítrekað að umræðuefni í blaði þeirra, Þjóðviljanum, að náðst hefði eitthvert allsherjarsamkomulag hjá launþegahópunum um samstöðu í komandi kjarasamningum. Ég skýrði m. a. frá því, að daginn áður, 20. okt. s. l., hefðu á 72 manna nefndarfundi Alþýðusambands Íslands verið kynntar niðurstöður Sambands byggingarmanna og Málm- og skipasmíðasambands Íslands þess efnis, að þessi sambönd lýstu því yfir að þau hugsuðu sér ekki að eiga samleið með öðrum launþegahópum í komandi kjarasamningum nema að mjög takmörkuðu leyti. Samband byggingarmanna tók fram í stefnumörkun sinni, sem sambandið kynnti á 72 manna nefndarfundinum, að það hygðist fara með samninga sína að öllu öðru leyti sjálft en aðeins hvað varðaði kaupgjaldsvísitöluna, sem Alþýðusamband Íslands ætti að fara með. M. ö. o.: Samband byggingamanna kynnti 72 manna nefnd Alþýðusambands Íslands þá eindregnu afstöðu sína að nú ætluðu byggingarmenn að semja einir um öll sin kjaramál, sem máli skiptu, að öðru leyti en í einu atriði, þ. e. kaupgjaldsvísitölunni, sem Alþýðusambandið færi með.

Þegar þessi tillaga Sambands byggingarmanna var til umfjöllunar fyrst man ég eftir því, — ég hafði nú ekki, herra forseti, tíma til að gá að því, en það er lítill vandi að ganga úr skugga um það, — að dagblaðið Þjóðviljinn skýrði frá umfjöllun um málið undir fyrirsögn eitthvað á þá lund, að Samband byggingarmanna legði mikla áherslu á heildarsamflotið í verkalýðshreyfingunni og mundi taka þátt í slíku. Nú hefur hins vegar komið í ljós að það var þveröfug ákvörðun sem þá var í undirbúningi og hefur nú verið tekin. Samband byggingarmanna var alls ekki að undirbúa neina ákvörðun um að standa með láglaunafólkinu innan Alþýðusambands Íslands í sambandi við kröfugerð og samningagerð, heldur þvert á móti. Sambandið var að undirbúa þá ákvörðun sína að standa eitt að kröfu- og kjarasamningagerð um öll önnur atriði en kaupgjaldsvísitöluna.

Nokkuð hefur frést um einstök kröfugerðaratriði Sambands byggingarmanna. Þau voru einnig kynnt á 72 manna nefndarfundinum. Ég hef þá kröfugerð fyrir framan mig hér. Ég er ekki til þess fær að gefa neitt mat á því, hvað kröfugerð Sambands byggingarmanna þýðir, hvað þeir fara fram á miklar launahækkanir, en það þori ég að fullyrða að er margfalt á við þá launahækkunarkröfu sem m. a. kom fram hjá báðum hlutum í Verkamannasambandi Íslands þegar Verkamannasambandið þingaði um sína kröfugerð fyrir nokkrum dögum. Það má út af fyrir sig deila um hvort í kröfugerð Sambands byggingarmanna felst 40 eða 80% launahækkunarkrafa, en um það verður ekki deilt, að sú krafa hlýtur að skrifast með a. m. k., eins og þarna er gert, tveimur tölustöfum og er margföld á við kröfu láglaunafólksins.

En herra forseti, Samband byggingarmanna var ekki eitt um að tilkynna á 72 manna nefndarfundinum að það hygðist standa eitt og ekki taka þátt í heildarsamfloti með Alþýðusambandi Íslands að öðru leyti en um einstök atriði, og þau kannske óraunveruleg, í sameiginlegri kröfugerð Alþýðusambandsins. 20. okt. s. l. kynntu fulltrúar Málm- og skipasmiðasambands Íslands fyrir 72 manna nefnd Alþýðusambands Íslands þá afstöðu sína, að þeir teldu óhjákvæmilegt að málmiðnaðarmenn og skipasmiðir leituðu eftir beinum viðræðum við viðsemjendur sambandsfélaga Málm- og skipasmiðasambands Íslands um margvísleg hagsmuna- og kjaramál, sem, eins og segir í ályktuninni, „ekki verða leyst á öðrum vettvangi“. Þeim kemur ekki einu sinni til hugar, forstöðumönnum Málm- og skipasmiðasambands Íslands, að gera tilraun til þess að vera í samfloti með verkalýðshreyfingunni. Þeir segja að þessi mál, sem þeir ætli sér að semja um, sérstök kjaramál sín, verði ekki leyst á þeim vettvangi.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það, eins og ég áður gat um, að bókagerðarmenn, sem lúta forustu elsta og virðulegasta stéttarfélags á Íslandi, hafa ekki aðeins ákveðið að vera ekki lengur í samfloti með Alþýðusambandsforustunni, heldur hafa sagt skilið við Alþýðusamband Íslands og sagt sig úr lögum við Alþýðusambandið. Ekki verða þeir því með í samflotinu. Rafiðnaðarmenn hafa tekið sömu afstöðu. Rafiðnaðarmenn verða ekki heldur með í samflotinu. Samband byggingarmanna hefur tilkynnt Alþýðusambandinu að það muni senda nánast áheyrnarfulltrúa, eins konar ambassador eða sendiherra, í væntanlega samningagerð Alþýðusambands Íslands, en ætli sér þar aðeins að hafa afskipti af kaupgjaldsvísitölumálum og fylgjast með því að verða nú ekki af þeim molum sem kunni að hrjóta á borð lágtekjufólksins. Öll önnur kjaraatriði ætlar Samband byggingarmanna að semja um eitt og sér. Blöðin skýra frá því, að kröfugerð byggingarmanna sé á bilinu 60–80%. Þetta er þriðja fagsamband faglærðs fólks innan Alþýðusambands Íslands sem ætlar ekki að vera í samflotinu. Fjórða fagsambandið, Málm- og skipasmiðasamband Íslands, tilkynnir sómu niðurstöðu. Það ætlar ekki heldur að vera með. Það ætlar að hafa fulltrúa innan dyra við heildarsamningagerð Alþýðusambandsins til að fylgjast með því að það fari ekkert fram hjá málm- og skipasmiðum af því sem þar kann að verða gert, en um kröfugerðina ætlar það að hafa sérstöðu, og samningamálin, sem skipta málm- og skipasmiði einhverju sérstöku máli, um kaup og kjör ætla þeir að annast sjálfir. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar í höndunum um hvað járniðnaðarmenn hyggjast fyrir frekar en ég hef gert grein fyrir hér í máli mínu. Eftir stendur sem sé aðeins að láglaunafólkið í Alþýðusambandinu, verslunarmennirnir, verkamennirnir, verkakonurnar og Iðjufólkið, stendur nú eitt. Samflotið, sem alltaf er verið að prédika, er aðeins með þátttöku þess og með óverulegri þátttöku nokkurra annarra félaga faglærðs fólks, sem þó lýsa því yfir, ef þau eru ekki þegar búin að segja sig úr lögum við Alþýðusambandið, að þau ætli að semja ein og sér um sín mál. Og ég bið menn að íhuga það, að þó svo þessi sambönd hálaunafólksins ætli sér að hafa sendifulltrúa við, þegar láglaunafólkið ástundar sina kjarasamningagerð, verka þau „stjórnmálasamskipti“ ekki á hina hliðina. Iðjufélögin, Verkamannasambandsfélögin og Verslunarmannafélögin fá enga áheyrnarfulltrúa að hafa við kjarasamningagerð bókagerðarmanna, byggingarmanna, Málm- og skipasmiðasambandsins né Rafiðnaðarsambands Íslands. Stjórnmálasamskiptin innan verkalýðshreyfingarinnar eru þarna öll á eina hlið. Sambönd hærra launuðu hópanna í Alþýðusambandinu ætla sér að sjá til þess að hafa greiðan aðgang að samningagerðum láglaunafólksins svo að ekkert, sem þar kann að vera samið um, fari fram hjá þeim. En láglaunafólkið og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og hans félagar fá hvergi nálægt að koma þegar þeir hafa lokið sínum samningagerðum og byggingarmenn, bókagerðarmenn, rafiðnaðarmenn og málm- og skipasmiðir hefja alvörusamningagerðina fyrir sig.

Herra forseti. Ég þori að fullyrða, að þrátt fyrir að þessar upplýsingar, sem ég hef verið að gefa hér, liggja nú fyrir mun Þjóðviljinn og þeir Alþb.-menn halda áfram að hamra á því, sérstaklega gagnvart láglaunafólkinu, að nú eigi að vera um heildarsamstöðu að ræða í kjarasamningagerðinni, nú sé heildarsamflot fyrir dyrum. Þeir munu örugglega halda áfram að hamra á þessu, Alþb. og Þjóðviljinn, eins og hefur verið gert gegn betri vitund fram að þessu.

En hvað þýðir þessi pólitík fyrir láglaunafólkið? Hún kann að gagnast íhalds- og Alþb.-forustunni í Alþýðusambandinu til að fela það að hún ræður ekki lengur við það verkefni sitt að láta Alþýðusamband Íslands ganga fram í einni órofa fylkingu. Hún kann að fela þá staðreynd fyrir láglaunafólkinu. Til þess eru þessar fullyrðingar settar fram. En hvað þýða þessar röngu fullyrðingar fyrir láglaunahópana? Þær þýða að með þessu er vitandi vits verið að reyna að telja láglaunafólkinu trú um að horfurnar séu ekki þær sem þær eru, að fyrst eigi að láta láglaunafólkið ganga frá sínum kjarasamningum á grundvelli þeirrar hóflegu kröfugerðar, sem Verkamannasamband Íslands gerði að fyrirlagi forustumanna þar, og láta láglaunafólkið standa í þeirri meiningu, að slík samningagerð verði knúin fram í heildarsamfloti þannig að hærra launuðu hóparnir fái þá ekki meira. En þegar þeirri kröfugerð er lokið og þeirri samningagerð er lokið ætla hærra launuðu samböndin í Alþýðusambandinu að koma í kjölfarið og gera „læknasamninga“, eins og læknar gerðu við hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Ég vænti þess, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands og einn skeleggasti talsmaður láglaunafólks í þjóðfélaginu, komi hér upp á eftir, og ég leyfi mér að spyrja þann hv. þm. algerlega áreitnislaust: Sér hv. þm. ekki í hendi sér þá hættu sem láglaunafólkið er í — þá hættu sem blasir við láglaunafólki með þeirri stóðu sem upp er komin í samningamálunum? Hv. þm. hlýtur að gera sér grein fyrir því, að það er ekki unnt að halda því lengur fram að stefnt sé að heildarsamfloti í kjarasamningagerðunum þegar liggur á borðinu hver afstaða hálaunahópanna í Alþýðusambandinu er. Og hv. þm. hlýtur að vita að það er mikill ábyrgðarhluti fyrir hann og félaga hans að taka þátt í þeirri pólitík Þjóðviljans og flokksforustunnar í Alþb. að reyna að telja láglaunafólkinu trú um að málin séu öðruvísi í pottinn búin en þau eru. Það er stórhættuleg iðja. Hann hlýtur að hafa orðið var við það, hv. þm., hvernig aðstæðurnar eru orðnar í sambandi hans, Verkamannasambandi Íslands, vegna þess að hvað sem hver segir hefur láglaunafólkið fengið sannleikann á tilfinninguna. Það veit, þó að það sé reynt að leyna sannleikanum fyrir því, hver hann er. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hlýtur að hafa orðið þessa var á síðasta þingi Verkamannasambands Íslands. Þar var ekki um neinar pólitískar atlögur að ræða. Sú hreyfing, sem kom fram á þingi Verkamannasambands Íslands, átti ekki upptök sín í neinum stjórnmálaflokki, neinni flokksforustu. Það var hrein grasrótarhreyfing sem þar reis upp. Það var hreyfing sem átti upptók sín á vinnustóðunum meðal láglaunafólksins. Og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hlýtur manna helst, maður sem hefur jafnmikla reynslu af verkalýðsmálum og hann, að gera sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir hann og hans samtök ef hann lætur hina pólitísku forustu Alþb. leiða sig lengra út á þá braut en þegar er orðið að ætla að telja láglaunafólkinu í landinu trú um að það séu í aðsigi einhverjir heildarsamningar allra launþegahópanna um hóflegar kjarabætur. Svo er aldeilis ekki, miðað við þær ákvarðanir sem þessir hópar, sem ég kynnti áðan, hafa þegar tekið.

Ég get verið fyllilega sammála hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni og þeim félögum hans í Verkamannasambandi Íslands, sem stóðu að mótun kröfugerðar um hóflega stefnu í kjaramálum, að sú afstaða er rétt. Verkalýðshreyfingin hlýtur að hafa lært að raunveruleg kaupmáttaraukning skiptir meira mála en einhver krónutöluhækkun kaupgjalds, sem þegar í stað er tekin aftur af ríkisstj., eins og gert var á s. l. hausti. Ég er sammála hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, þó að ég sé í stjórnarandstöðu, að sú stefna, sem Verkamannasambandsþingið markaði, er skynsamleg stefna, raunhæf stefna. En hann hlýtur líka að vera mér sammála um það, að þó svo að Verkamannasamband Íslands marki slíka skynsamlega stefnu í launamálum hafa hinir hóparnir í Alþýðusambandi Íslands ekki gert það. Þeir ætla sér það ekki og hafa ekki gert kröfur um slíkt. Þeir ætla sér að koma í kjölfar samninga láglaunafólksins og fara fram á margfaldar kauphækkanir í sína þágu. Sjálfsagt fá þeir því framgengt vegna þess að þeir geta bent á fordæmið. Þeir geta bent á það fordæmi sem ríkisstj. og hinir pólitísku foringjar Alþb. gáfu með „læknasamningunum“, þegar þeir töldu rétt að gera samninga við helstu hálaunastétt þjóðfélagsins um kauphækkanir einhvers staðar á bilinu 19–40%.

Herra forseti. Ég varð mjög áþreifanlega var við það á ferðum mínum í sumar, að fjölmargir launþegar í láglaunahópunum þóttust vita að þróunin mundi verða þessi, hvað svo sem Alþb. og Þjóðviljinn segðu. Ég varð t. d. mjög var við það vestur á fjörðum að þetta var mjög eindregin skoðun verkafólks þar og þá ekki Alþfl. manna frekar en annarra. Forustumenn verkalýðsfélaganna á Vestfjörðum voru almennt þeirrar skoðunar, að málin mundu taka þá stefnu sem þau hafa núna tekið, að þetta samfylkingartal í Alþb. og Þjóðviljanum mundi reynast falsið eitt og fláttskapurinn einfaldlega vegna þess að sambönd hærra launaða fólksins innan Alþýðusambands Íslands væru ekki á þeim buxunum að taka þá afstöðu.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að flestöll sambönd hálaunamanna í Alþýðusambandinu lúta forustu yfirlýstra Alþb.-manna. Það sýnir enn frekar tvískinnunginn í málflutningnum, að hin pólitíska forusta Alþb. skuli vera að halda fram alveg fram á síðasta dag að fyrir dyrum standi einhver samfylkingarpólitík í launamálum þegar miðstjórnarmenn og yfirlýstir flokksmenn sama flokks, sem veita hærra launuðu samböndunum forustu, eru að undirbúa sérstöðu. Ég fann greinilega á ferðum mínum í sumar að þetta var mat verkafólksins í mínu kjördæmi og forustumanna þar að mundi gerast — líka þeirra forustumanna í verkalýðshreyfingunni á Vestfjörðum sem tilheyra Alþb., en þeir eru til þó að þeir séu ekki óskaplega margir.

Það er nú komið í ljós að þessir menn höfðu rétt fyrir sér. Það hefur nú komið í ljós að eftir allt umtalið, eftir allt japl, jaml og fuður í sumar stendur láglaunafólkið eitt. Það stendur eitt. Verkamannasambandið, Iðja og verslunarmenn standa nú ein í Alþýðusambandinu og berjast fyrir samstöðu. Önnur sambönd, að undanteknu Sjómannasambandi Íslands, hafa þegar tekið afstöðu gegn þeirri linu. Það hlýtur að valda mönnum a. m. k. einhverri umhugsun, jafnvel þeim hv. þm. Alþb. og á ég þá ekki við hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, sem meta flokkshollustuna meira en trúnaðinn við umbjóðendur sína í verkalýðshreyfingunni. Ég tek það enn og aftur fram, að með þeim orðum er síður en svo stefnt að hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, vegna þess að hann þekkir mætavel sinn vitjunartíma í þeim málum.

Herra forseti. Varðandi frv. það, sem hér er til umr., hef ég bent á að tilurð þess hér og tilkoma og flutningur þess á s. l. þingi varð m. a. til þess að vekja umræður á ný um skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar — umræður sem var hleypt af stað á liðnum vetri og hafa stöðugt færst í vöxt með hverjum mánuði síðan. Þó ekkert annað kæmi til en sú umræða væri vakin er málið þarft. Í annan stað hef ég bent á það einnig, að meginatriði þessa frv. séu tvö. Þau skipta meginmáli.

Það er í fyrsta lagi bent á og það er engin ný staðreynd, að skipulagið í verkalýðshreyfingunni kemur í veg fyrir að barátta ýmissa verkalýðssinna fyrir samstöðu í kjarasamningagerð og mótun heildarlaunastefnu á vegum Alþýðusambandsins náist fram. Þetta er engin ný kenning hjá flm. frv. Þetta er afstaða sem lá fyrir á þingi Alþýðusambands Íslands þegar árið 1958. Það er annað af meginatriðum frv. að benda á að ástæðan fyrir því, að ekki hefur tekist sem skyldi að marka heildarlaunastefnu á vegum verkalýðshreyfingarinnar og fá fram sérstakar kjarabætur fyrir láglaunafólkið, er m. a. skipulag verkalýðshreyfingarinnar. Hitt er það að leggja til að með nýju skipulagi í verkalýðshreyfingunni verði lögð áhersla á vinnustaðinn sem grunneiningu og — ef ég mætti taka mér í munn orð þess manns sem við sækjum til vitneskju um slíkt — skipulagsmyndin yrði frekar lóðrétt en lárétt. Það er annað meginatriði frv. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Ég sé ekkert athugavert við að lýsa yfir samþykki mínu við þessi tvö meginatriði, enda hefur ekki minni aðili en sjálft þing Alþýðusambands Íslands gert það þrívegis.

Um önnur atriði í frv. hv. þm. má deila. Þar eru ýmis framkvæmdaatriði sem eiga að ná þessari stefnu fram. Um það má deila, og þau gera það m. a. að verkum, að ég er ekki flm. að frv. með hv. þm. Einnig má deila um það, eins og menn gera hér, hvort sé tímabært, hvort rétt sé að Alþingi skipi slíkum málum með lögum, og einnig, þó að menn séu samþykkir því, hvenær sé rétt að gera það eða hvort eigi að (áta reyna frekar á að Alþýðusamband Íslands og önnur launþegasambönd nái fram samþykktum sínum áður en slíkt er gert. Við megum ekki gleyma því, að hér er ekki lagt til að neyða einhverju skipulagi upp á Alþýðusambands Íslands sem það er andvígt. Hér er aðeins lagt til að framkvæmd sé skipulagsbreyting sem Alþýðusamband Íslands samþykkti fyrir 20 árum og hefur ítrekað samþykki sitt við, en hefur ekki enn komið til framkvæmda.

Ég vildi, herra forseti, að þetta lægi alveg ljóst fyrir af minni hálfu, jafnframt því sem það hefur aldrei verið mín skoðun og er ekki að það sé einhverjum forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar að kenna að fólk búi við lág laun í þessu þjóðfélagi. Það er ekki hægt að kenna forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar um slíkt. Það er hægt að kenna m. a. skipulagi verkalýðshreyfingarinnar um það en alls ekki forustumönnum hennar. Mér er mætavel kunnugt hvernig þessir menn leggja sig fram um að ná kjarabótum fyrir félagsmenn sína og hvernig þessir menn leggja sig margir hverjir sérstaklega fram um að fá félagsmenn að taka þátt í stefnumótun og starfi við kjarasamningagerð og í almennu félagsstarfi verkalýðsfélaganna. Það er því ekki sanngjarnt að saka þá um að bera persónulega ábyrgð á deyfð í verkalýðshreyfingunni né heldur að bera persónulega ábyrgð á því, að launakjör skuli ekki vera betri en þau eru. En þessir forustumenn, eins og aðrir aðilar í Alþýðusambandinu sem málum ráða, bera að sjálfsögðu nokkra ábyrgð á því að hafa ekki komið fram þeim skipulagsbreytingum á Alþýðusambandinu sem m. a. hefðu stuðlað að því, að láglaunafólkið hefði átt auðveldara með að ná fram kröfum sínum en raun ber vitni.

Herra forseti. Það voru einnig ýmis önnur atriði sem ég benti á í ræðu minni síðast að þyrfti sérstaklega að huga að. Ég benti m. a. á að ef menn ætla að gera einhverjar umtalsverðar breytingar á skipulagi vinnumarkaðarins er ekki nóg, eins og hv. þm. Baldur Óskarsson tók raunar fram í sinni ræðu, að snúa sér aðeins að einhverjum tilteknum geira í launþegahreyfingunni. Það eru mörg önnur launþegasambönd til í landinu en Alþýðusamband Íslands. Ef menn ætla að kortleggja vinnumarkaðinn upp á nýtt þýðir auðvitað ekki að snúa sér að Alþýðusambandinu einu, en líta ekki á skipulagsmál launþegahreyfingarinnar í heild. Það þýðir ekki heldur að líta aðeins á skipulagsmál launþegasamtakanna. Það verður auðvitað líka að sjá svo til, að skipulag vinnukaupendanna, atvinnurekandanna, stangist a. m. k. ekki á við skipulag verkalýðshreyfingarinnar.

Það er ekki tekið sérstaklega á þessum málum í frv. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Það þýðir að fjölmörg vandkvæði í skipulagsmálum launþegasamtakanna verða ekki leyst jafnvel þó að Alþingi samþykki það frv., t. d. vandamál sem verða víða á mörkum heildarsamtaka launafólks, eins og á mörkum ASÍ og BSRB, þar sem fólk getur búið við misjöfn kjör og misjafnt vinnuöryggi þó að það vinni hlið við hlið á sama vinnustaðnum sama starfið, ef það er meðlimir sitt í hvoru félagi. Á því máli er ekki tekið í frv. Vilmundar Gylfasonar. Auðvitað þarf að tryggja að skipulag verkalýðshreyfingarinnar sé ekki þannig að það bókstaflega geri það að verkum að menn búi við misjöfn kjör fyrir að vinna sömu störf eftir því í hvaða félögum þeir eru. Sama vandamál er líka á mörkum BSRB og BHM t. d. varðandi kennara í grunnskólum. Það getur skipt máli fyrir mann, sem kennir í grunnskóla og getur verið í báðum samböndunum, í hvoru hann er. Það getur skipt mjög verulegu máli í kaupi og kjörum. Þeir sem hafa áhuga á að launajafnrétti sé í þ jóðfélaginu, þeir sem hafa áhuga á að sömu laun séu greidd fyrir sömu störf, þeir sem hafa áhuga á að launin ráðist af framlagi mannsins í þágu þjóðfélagsins, en ekki af því í hvaða félagi hann skipar sér í sveit, verða auðvitað einnig að taka á þessu vandamáli. Það er ekki heldur gert í frv. Vilmundar Gylfasonar.

Meginatriðin í frv. hafa í fyrsta lagi orðið til þess að vekja umr. um málið, í öðru lagi er tekin afstaða með þeim skipulagsgrunneiningum sem þar er gert og í þriðja lagi bent á að skipulag verkalýðshreyfingarinnar hefur orðið láglaunafólkinu sérstaklega fjötur um fót. Þetta er allt saman rétt hjá hv. þm. Þetta er meginkjarninn í málflutningi hans. Undir þann meginkjarna get ég vissulega tekið þótt ég sé ekki sammála hv. þm. um ýmis önnur efnisatriði í frv. hans. Ég held þó að slíkt skipti hv. þingmann miklu minna máli í sjálfu sér en þau atriði sem ég hef hér rætt um, og ég trúi því, að hann mundi vera fús til þess að breyta þeim efnisatriðum ef farið yrði þess á leit við hv. þm.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda miklu lengur áfram, en ég vildi gjarnan segja nokkur orð að lokum.

Ég held að þrátt fyrir allt ættum við að gæta þess, sem tilheyrum flokkum hér á Íslandi sem vilja verkalýðshreyfingunni vel, að í flestöllum störfum okkar, bæði á Alþingi og utan þess, þó að okkur kunni að greina á um leiðir, þarf okkur ekki að greina á um markmið. Við skulum reyna að líta svo á að flestöll afskipti, sem við reynum að hafa af þeim málum, séu jákvæð, a. m. k. ekki í því skyni gerð að torvelda verkalýðshreyfingunni baráttu hennar eða að minnka hlut launamannanna í þjóðfélaginu. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, hvaða afleiðingar það hefur haft að leiða íhaldsöflin til slíkra lykilvalda í þjóðfélaginu sem þau nú hafa náð. Hvað þýðir það fyrir framtíð verkalýðssinna og vinstri manna á Íslandi að íhaldið, leiftursóknaröflin hans Svavars Gestssonar, hæstv. ráðh., hefur verið gert að oddvita ríkisstj., að stærsta afli í stjórnarandstöðu og að oddaafli í verkalýðshreyfingunni? Raunverulegir vinstri menn hljóta að fara að hugsa alvarlega um þessi mál, vegna þess að ef svo heldur fram sem horfir fæ ég a. m. k. ekki annað séð en hætta sé á að íhaldsöflin í þjóðfélaginu nái hér slíkum undirtökum að það muni taka verkalýðshreyfinguna og vinstri menn mörg ár, jafnvel áratugi, að bæta fyrir þau afglöp sem unnin hafa verið í þessu sambandi á umliðnum fáum misserum. Ég held, þrátt fyrir allt og þrátt fyrir að okkur finnist oft gaman að deila, Alþfl.-mönnum og Alþb.-mönnum, og höfum um margt að deila, að við ættum af og til í þeim deilum að gefa okkur ráðrum til að hugsa eilítið eitthvað í þessa veru til að reyna að átta okkur á hvað við ætlum að gera og hvernig við ætlum að halda á málum. Staðreyndin er orðin sú, að einn ávöxtur þessara deilna okkar er einhver mestu undirtök íhaldsins í íslensku verkalýðs- og stjórnmálalífi sem sagan hefur nokkru sinni þekki.