27.01.1982
Efri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

176. mál, endurnýjun skipastólsins

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Við þm. Alþfl. endurflytjum hér frv. til l. um hagkvæmni, stærð og endurnýjun skipastólsins sem við fluttum líka á síðasta þingi. Við Alþfl.-menn höfum á undanförnum árum ítrekað bent á þá lífskjaraskerðingu sem felst í stækkun fiskiskipastólsins við núverandi aðstæður. Í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar var innflutningur fiskiskipa stöðvaður fyrir frumkvæði Alþfl. Núv. sjútvrh. hleypti hins vegar af stað nýrri skriðu innflutnings. Það frv., sem hér er flutt og var sem sagt áður flutt á síðasta þingi, tekur einmitt á þessu máli. Með samþykkt þess væri mörkuð ákveðin stefna í stærð og endurnýjun skipastólsins. Ég tel að þær viðbætur við fiskiskipastólinn, sem hafa verið samþykktar síðan þetta frv. var síðast flutt, sanni betur en nokkuð annað nauðsyn þess, að löggjafinn móti heildarstefnu í þessum málum, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Menn hljóta auðvitað fyrst að spyrja sig þeirrar spurningar, hvort fiskiskipastóllinn sé of stór. Ég tel að það víðtæka skömmtunarkerfi, sem nú er við lýði til að hafa hemil á heildarafla á helstu nytjafiskum, sanni betur en nokkuð annað hvernig svara beri þessari spurningu, að það sé ótvírætt að fiskiskipastóllinn sé of stór miðað við afrakstursgetu fiskstofnanna. Ef um skömmtun er að ræða er það til marks um að afköstin séu of mikil, annars værum við ekki að skammta veiðarnar. Þetta er nú þannig, að togurum eru bannaðar þorskveiðar þriðjung úr árinu. Bátaflotinn býr við takmarkanir á vertíð í þorskveiðum, hann býr við takmarkanir í síldveiðum og loðnuveiðum. Ekkert sannar betur en þetta hversu augljóst það er, að fiskiskipastóllinn er of stór. En um leið er það ljóst, að þegar heildarveiðin og þar með heildartekjurnar eru takmarkaðar mun sérhver viðbót við fiskiskipastólinn minnka afla og tekjur allra hinna sem fyrir eru. Það kemur þannig minna í hvern hlut.

En það er ekki bara það, að það komi minna í hvern hlut, heldur vex jafnframt tilkostnaður af útgerðinni. Með því að fylgja fram þeirri stefnu að láta skipastólinn vaxa, eins og gert hefur verið, rýrum við kjör sjómanna. útgerðar og þjóðarinnar allrar. Á sama hátt mundi minnkun fiskiskipastólsins við þessar aðstæður þýða að meira kæmi í hvern hlut og hagur sjómanna, útgerðarinnar og þjóðarinnar mundi þess vegna batna. Mér finnst að flestum ætti að vera þessi sannindi ljós, enda má segja að nauðsyn þess að hafa hemil á stærð skipastólsins njóti nú orðið almenns skilnings og þá ekki síst meðal sjómanna og útgerðarmanna og annarra þeirra sem starfa í greininni. Engu að síður er hér innflutningsbylgja í gangi, og hæstv. sjútvrh. setti af stað þessa innflutningsbylgju sem mun auka og hefur reyndar aukið mjög stærð skipastólsins.

Í þessu sambandi hafa menn undrast það, að þrátt fyrir þessi augljósu sannindi skuli vera ásókn í ný fiskiskip, jafnvel þótt sýnt sé með tölum að afkoman á nýjum fiskiskipum sé léleg og það sé harla erfitt ef ekki ómögulegt að sjá að nokkur grundvöllur sé fyrir rekstri þeirra. En skýringin á þessu er vitaskuld tvíþætt. Meðan menn vita að heimilaðar eru viðbætur við fiskiskipastólinn á sér stað kapphlaup. Hver og einn útgerðaraðili leitast auðvitað við að ná sem mestu í sinn hlut og tekur þá ekki tillit til þess, að það mun bitna á hinum.

En hin skýringin er ekki síður mikilvæg, nefnilega sú, að reynslan kennir útgerðarmönnum að þeir þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af rekstrarafkomunni. Það hefur verið regla og lenska hér á landi, að þeir, sem stæðu ekki í skilum, fengju sérstaka fyrirgreiðslu, lánum, sem þeir hefðu tekið væri „konverterað“, sem svo er nefnt, og þannig væri vandanum fleytt áfram. Það hefur ekki verið til siðs að útgerðarmenn færu á hausinn. Þessi tvö atriði ráða auðvitað úrslitum um að þrátt fyrir að mönnum sé ljóst að heildarstærð fiskiskipastólsins sé of mikil sækjast þeir engu að síður eftir því að bæta við skipastólinn fyrir eigin hönd.

En einmitt vegna þess, hvernig þessum málum er háttað, að hver og einn leitast við að ná sem mestu í sinn hlut, er það skylda stjórnvalda að marka stefnu um hver sé hæfileg stærð skipastólsins og hvernig endurnýjun skuli fara fram. Ég verð að segja það, að fiskveiðistefna án strangrar takmörkunar á stærð skipastólsins er alger markleysa.

En jafnframt því að stefna að því, að náð verði hagkvæmri stærð skipastólsins, verður að vinna að því, að fiskiskipin séu vel búin og veiti góðan aðbúnað. Eðlileg framþróun og endurnýjun verður að eiga sér stað. Þótt togaraflotinn sé tiltölulega nýr er ljóst að bátaflotinn er að ýmsu leyti úr sér genginn og þarfnast endurnýjunar og endurbóta. Að slíkri þróun verður auðvitað að stefna, en það verður að gerast innan þeirra marka að heildarskipastóllinn vaxi ekki, heldur að úr stærð hans verði dregið. Það verður ekki séð að önnur leið sé nærtækari til að draga úr stærð skipastólsins en að sjá til þess, að meiri sóknarþungi hverfi úr rekstri en það sem við bætist vegna endurnýjunar. Nærtækasta og jafnframt átakaminnsta leiðin er að setja sér að viðbætur og endurnýjun fari ekki fram úr tilteknu hlutfalli af úrfalli úr flotanum. Með þessu frv. er einmitt sú stefna mörkuð.

Þeir eru vafalaust margir sem mundu óska þess, að örar miðaði í því að draga úr stærð skipastólsins en frv. gerir ráð fyrir, og má færa fyrir því margvísleg rök. Engu að síður mundi með samþykkt þess miða til réttrar áttar í stað þess að nú stefnir í öfuga átt. Þetta frv. er sem sagt flutt til þess að vilji löggjafans komi fram og þá ekki síst með hliðsjón af því, hve hörmulega hefur til tekist hjá núv. ríkisstj. í þessum efnum.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að almenna reglan verði sú, að endurnýjun skipastólsins megi ekki í heild á neinu ári fara fram úr 50% af meðaltalsúrfalli tveggja næstliðinna ára mælt í brúttórúmlestum. En með tilliti til þróunarinnar síðustu misseri er þó gert ráð fyrir að á árunum 1982 og 1983 verði gert algert hlé á innflutningi fiskiskipa og innlendar smíðar takmarkaðar. Það eru hins vegar engin ákvæði í þessu frv. um það, í hvers konar skipum sú endurnýjun, sem frv. heimilar, eigi sér stað. Það er hlutverk stjórnvalda og hagsmunaaðila að setja sér reglur um það. Við flm. teljum eðlilegt að ríkisstj., lánasjóðir og aðilar í sjávarútvegi marki stefnuna að þessu leyti að því er framkvæmdaatriði varðar.

Loks er það um innihald frv. að segja, að það er gert ráð fyrir að þessi lög gildi til ársloka 1986. Þá geta menn tekið til athugunar hvort menn vilja breyta um eða ekki.

Ég gat þess framarlega í ræðu minni, að þróunin frá því að þetta mál var síðast til umr. gefi enn frekari ástæðu en nokkru sinni fyrr til þess að lög verði sett með þessum hætti og stefnan verði mörkuð. Fiskiskipastóllinn er nefnilega sífellt að stækka. Á árinu 1979 varð nokkur samdráttur í stærð fiskiskipastólsins. Árið áður hafði hann verið 104.400 lestir, en í lok ársins 1979 var hann 102.200 lestir. Þarna hafði sem sagt nokkuð miðað til réttrar áttar. Það var vegna markvissra aðgerða á þessum tíma að því að stöðva innflutning, auka úreldingu og sjá til þess að skip, sem áttu að fara úr landi af því að þau töldust seld úr landi, væru seld úr landi. En síðan þá hefur þróunin snúist aftur til verri vegar. Við upphaf árs 1981 hafði skipastóllinn aftur vaxið upp í 104.500 tonn, og núna hefur hann enn vaxið um 2100 tonn eða upp í 106.600 tonn. Þetta er auðvitað þrátt fyrir að það hefur átt sér stað brottfall, þannig að á árinu 1981 er nettóviðbótin 2300 tonn. Það eru sem sagt heildarviðbætur upp á 4500 tonn.

Fyrir áramót, þegar ég mælti fyrir öðru frv. varðandi afnám heimildar til ríkisstj. til að veita ríkisábyrgð á innflutningi á skuttogurum, gat ég þess, að á þriðja tug fiskiskipa mundi bætast við skipastólinn á því ári, 1981, og á árinu 1982. Samtals eru það 7500–7700 tonn. Mér sýnist við nánari athugun að við þessar áætlanir mínar hafi síst verið of í lagt, heldur bendi allt til þess, að viðbæturnar verði enn meiri. Ég hafði t. d. ekki í þeirri tölu talið raðsmíðaverkefni, sem ríkisstj. hefur samþykkt, og ekki gert ráð fyrir innflutningi á pólskum fiskiskipum til Vestmannaeyja, sem mun vera frágengið eða því sem næst og vilyrði ríkisstj. fyrir hendi.

Þær viðbætur, sem hér um ræðir, eru svo hrikalegar, og það, sem gerst hefur síðan síðast var mælt fyrir þessu frv., er svo hrikalegt að Alþingi getur ekki látið þessi mál fram h já sér fara öllu lengur. Hin efnahagslega þýðing þess að sporna við fótum ætti að vera mönnum ljóst, hversu afdrifaríkt það er fyrir afkomu þjóðarinnar og sérstaklega kjör sjómanna að spornað verði við varðandi stækkun fiskiskipastólsins. En ég ætla að nefna nokkrar tölur í þessu sambandi.

Á áætlun Þjóðhagsstofnunar um rekstraryfirlit fiskveiða um áramótin 1981–1982 eru taldir 73 minni togarar. Ef við lítum á þær viðbætur sem virðast vera fram undan að því er varðar minni togara, þá eru það 15 minni togarar, eftir því sem mér telst til, sem hefur verið lofað að bætist við þennan skipastól. Þeir eru ekki allir jafnstórir og þeir togarar sem nú eru að veiðum. Meðalstærð þeirra er líklega nærri 350 tonnum. Rekstrarkostnaður á hvert skip er því kannske ekki jafnhár og í þessu yfirliti Þjóðhagsstofnunar. En þeir eru alla vega jafngildi 11–12 venjulegra skuttogara. Og hvað þýðir það, ef það bætast 11 minni skuttogarar í flotann, svo að við notum þennan mælikvarða? Jú, það þýðir, ef aflinn er óbreyttur handa þessum flota og skammtanirnar benda nú til þess, að það sé ekki skynsamlegt að auka aflanna og ekki heldur þar með tekjurnar, að það kemur 15% minna í hvern hlut á þessum flota. Þetta þýðir að sjómenn verða að sækja sérstaka 15% hækkun á fiskverði til að halda sínu í kaupi ef við ættum að skipta þessu smærra með þessum hætti.

Ætla menn að halda því fram, að skuttogaraflotinn sé svo gamall og úreltur að þessarar endurnýjunar sé sérstaklega þörf? Það er ekki nokkur vegur að gera það. 15% þurfa sjómenn að sækja aukalega í fiskverðshækkun bara til að mæta þessu. Og hvernig verður því mætt? Tilkostnaður útgerðarinnar vex að sama skapi, og samkv. því uppgjöri, sem hér tíðkast, verður þetta gert upp á núlli og það þýðir tilsvarandi gengisfellingu, við skulum segja 7.5% gengisfellingu til að hafa eitthvað. Þetta er það sem við erum að gera. Með þessu móti er verið að rýra lífskjör sjómanna alveg sérstaklega, en vitaskuld þjóðarinnar í heild. Og til hvers eru menn að búa til efnahagspakka með niðurgreiðslum, kaupskerðingu og guð má vita hverju til þess að berjast við verðbólguna þegar ráðherrar taka með hinni hendinni svona ákvarðanir sem eru hreinar gengisfellingar?

En það er meira á listanum en þessi 15 skip. Ég sagði að þau væru á þriðja tug. Það er nefnilega álíka viðbót í bátum. A. m. k. 17 bátar eiga að bætast við. Það mundi þýða 10–15% aukningu líka í bátaflotanum og samsvarandi þörf hjá bátasjómönnum fyrir fiskverðshækkun til að halda kaupi sínu og samsvarandi þörf fyrir gengisfellingu þess vegna. Þessar viðbætur gerast á sama tíma og loðnuskipin hafa ekki verkefni og verða og eru að búa sig til þorskveiða.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi, en meginatriðin eru mjög ljós. Fiskiskipastóllinn er of stór. Það er sífellt verið að bæta við hann. Það er fram undan að á þriðja tug fiskiskipa á að bæta við á árunum 1981–1982. Við erum þarna með 15% viðbót fram undan við skuttogarana, og við erum með fram undan 10–15% viðbót við bátaflotann. Þetta þýðir að sjómenn verða að sækja sér í gegnum fiskverðið hækkun sem þessu nemur til að halda sínu í kaupi. Og ef að líkum lætur verður þessu mætt með gengisfellingu. Það eru raunar ekki nema tvær leiðir. Önnur er sú að rýra kjör sjómannanna og útgerðarinnar sem þessu nemur, — setja sem sagt hluta af útgerðinni á hausinn og segja við sjómenn: Þið verðið að lækka í kaupi, — ellegar þá að mæta því með hinum hefðbundna hætti, sem kemur fram í gengislækkunum og tilsvarandi verðbólgu.