26.10.1981
Neðri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þegar ég heyrði niðurlagsorð hv. síðasta ræðumanns varð mér hugsað að betur væri að satt væri. Því miður er ekki enn búið að koma ýmsum af leiðtogum Alþb. og Alþfl. frá kjötkötlum verkalýðshreyfingarinnar, en ef horft er til baka til síðustu missera verður ekki langt í það, og væri sársaukalaust af minni hálfu þó að einstaka framsóknarmaður fylgdi þar með í kaupið. Sannleikurinn er nefnilega sá, að á þessum síðustu mánuðum og misserum hefur launafólk orðið fyrir ósegjanlegum vonbrigðum.

Við munum eftir því, að þegar ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar tók við völdum á árinu 1974 voru jafnvel menn eins og Lúðvík Jósepsson búnir að gera sér grein fyrir því, að ríkisstj., sem þá sat, gæti ekki setið áfram við völd án þess að kaupið yrði skert verulega. Þó munum við, að kjarasamningarnir, sem gerðir voru á öndverðu ári 1974, voru gerðir eftir leiðsögn Alþb.-ráðherranna þá, og við munum líka, að ekki leið á löngu áður en sú ríkisstj., sem þar sat með Alþb.-ráðherrana í broddi fylkingar, ákvað einhliða og án samráðs við Alþýðusamband Íslands að skerða launin, rifta nýgerðum kjarasamningum með þeim afleiðingum að formaður Alþýðusambandsins, sem þá lá á sjúkrahúsi, hrökklaðist úr ríkisstj. og var raunar rekinn úr henni.

Þau misseri, sem þá fóru í hönd, voru mörgum erfið. Verkalýðshreyfingin viðurkenndi með orðtaki sínu: varnarbarátta, að atvinnuvegirnir væru í þvílíkum öldudal, að viðskiptakjörin hefðu versnað svo mjög að ekki væri við því að búast að unnt yrði að bæta kjörin aftur á næstu misserum.

Síðan leið fram til ársins 1977. Fram eftir því ári fóru fram kjarasamningar við þau sérstöku skilyrði að það hafði skyndilega orðið eitthvað afgangs í þjóðfélaginu og það voru efnahagslegar forsendur fyrir því að auka kaupmáttinn í landinu án þess að ný efnahagsholskefla þyrfti að ríða yfir þjóðina. Þetta var á vordögum 1977. Mér er það sérstaklega minnistætt frá þessum tíma að bæði fulltrúar Alþb. og Alþfl. höfðu það mjög við orð að rétt væri að umsamdar kauphækkanir yrðu ekki eingöngu frá þeim tíma sem skrifað var undir samningana, heldur skyldu samningarnir vera afturvirkir og ná aftur til þess dags sem hinir gömlu samningar runnu út. Þetta er eftirtektarvert í ljósi þeirrar samningahrinu, sem varð á síðasta ári, og líka í ljósi þess núna, að bæði formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, hv. 7. þm. Reykv., og formaður Alþýðusambandsins hafa bundist samtókum um að draga samningana sem mest á langinn af því að þeir vita sem er að fyrir því eru engar efnahagslegar forsendur að hægt sé að bæta launakjörin í landinu. Ef við rifjum upp, að á vordögum 1977 var samið um 28% grunnkaupshækkun, ef við rifjum upp að samkv. þeim samningum voru grunnkaupshækkanirnar á einu og hálfu ári ríflega 40% , komumst við ekki hjá því að hugsa að annaðhvort hefur verkalýðshreyfingin lært mikið af sinni kröfuhörku þá eða þá að væntumþykja verkalýðsforingjanna á launþegunum er önnur og minni þegar þeir eru sjálfir við völd en þegar þeirra pólitísku andstæðingar velgja valdastólana.

Á árinu 1977 hafði tekist að koma verðbólgunni niður í 26 eða 27%. Það var mikill áfangi. En því miður kom brátt í ljós að verkalýðsleiðtogar Alþfl. og Alþb. og sumir af verkalýðsleiðtogum Framsfl. kunnu ekki að meta það og skildu ekki þýðingu þess, að við hefðum árangur sem erfiði í baráttunni við verðbólguna. Því fór sem fór. Það má í rauninni segja að hámarki hafi misbeiting kommúnista á verkalýðshreyfingunni náð þegar formaður Verkamannasambands Íslands setti ólöglegt útflutningsbann á með þeim afleiðingum m. a. að ýmis fyrirtæki, svo sem hin ríkisrekna Siglósíld, hafa enn ekki náð sér eftir það tjón sem þá var unnið. Jafnvel þótt hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds hafi fram hjá fjárlögum og í heimildarleysi veitt fé til Siglósíldar eru erfiðleikarnir enn ekki úti hjá þeirri verksmiðju. Þessir erfiðleikar, eins og ég sagði, eiga rót sína að rekja til þeirra skemmdarverka sem unnin voru með útflutningsbanninu.

Við, sem vorum á þessum árum í stjórnmálabaráttu og vorum jafnframt í trúnaðarstörfum innan verkalýðshreyfingarinnar, munum vel eftir því, hversu miklar vonir launþegar bundu við vígorðið: „samningana í gildi“, við orðin: „kosningar eru kjarabarátta“. Ég man enn eftir þeirri svipmynd úr sjónvarpinu þegar formaður Verkamannasambandsins, Guðmundur J. Guðmundsson, hallaði sér fram á skerminn í átt til Davíðs Schevings Thorsteinssonar og spurði hann að því, hvort hann treysti sér til þess að lifa af launum verkamanns sem ekkert hefði utan sín laun fyrir 40 stunda vinnuviku. Þessi maður hefur ekki oft tekið sér þessi orð í munn eftir að hann var kosinn á Alþingi og hafði tvöfalt afl á við það sem hann áður hafði til að sýna að með þessum orðum var hann ekki aðeins að vekja úlfúð, vekja upp hatur og illar hugsanir, var hann ekki aðeins að skara eld að sinni köku, heldur væri hann líka að lýsa umhyggju sinni í raun fyrir verkamanninum, að hann vildi leggja alla sína krafta fram til þess að lægstu laun mættu batna, að hinn óbreytti maður gæti haft það betra í þjóðfélaginu en áður. Við munum eftir því frá síðasta Alþingi þegar hv. þm. brá sér til Snæfellsness til að þurfa ekki að taka þátt í viðkvæmri atkvgr. Ég þori ekki að halda því fram, að hann hafi þar verið að skjóta jólagæsina, ég man ekki um það, en hitt veit ég, að hann hafði þar einhverjum erindum að gegna sem honum var meira í mun að reka en lyfta hönd sinni hér á Alþingi fyrir launafólk — þeirri hönd sem úrslitum hefði ráðið í því máli ef hann hefði haldið henni uppi.

Launafólk varð fyrir vonbrigðum. Allt árið 1979, allt árið 1980, alveg fram að þeim tíma sem ég nú segir þessi orð, var launafólkið að bíða eftir nýjum samningum. Það leið ekki einn dagur eða tveir, það leið ekki ein vika eða tvær vikur, einn mánuður eða tveir mánuðir, — það liðu tvö misseri áður en þessir nýju samningar voru undirritaðir. Við munum það líka, að það var ríkisstj. sem reið á vaðið með samningunum við opinbera starfsmenn. Í þeirri samningsgerð fólst fyrirheit frá ríkisstj. til þeirra manna, sem hún hafði á launum, um að hún teldi þjóðfélagið og atvinnuvegina, skattborgarana, geta risið undir þessum launum sínum starfsmönnum til handa. Ætli ríkisstj. hafi lagt sig mjög fram um að standa við samningana? Ætli þeir menn, sem hæst töluðu um kaupránið 1978, eins og hæstv. fjmrh., hafi lagt metnað sinn í að undirskriftin skyldi standa jafnlengi og samningahrinan stóð? Nei, það var síður en svo. Það var ekki fyrr búið að semja á hinum almenna vinnumarkaði en þau ummæli heyrðust frá einstökum ráðh. að verkalýðshreyfingin hefði sýnt ábyrgðarleysi og að ekki hefði verið til þess ætlast að svo mikið kæmi í hlut hins almenna verkamanns, verkamannsins á eyrinni, hafnarverkamannsins, Dagsbrúnarverkamannsins. Af þeim sökum sagði ríkisstj. í áramótaspjalli sínu að nauðsynlegt væri að skerða kjörin að nýju, rífa kjarasamningana áður en blekið var þornað, gera ársstarf samningamanna verkalýðshreyfingarinnar að engu.

Þegar þessir atburðir gerðust sat í þessari deild stjórnarmaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Nú skyldi maður ætla að þessi umbjóðandi opinberra starfsmanna mundi rifja upp og tala um það við ráðh. að þeir hefðu illa brugðist, að þeir ættu að standa við sín orð. En hún mátti ekki vera að því. Hún var annað að hugsa. Gervasoni hafði sloppið út landinu og athygli hennar var öll hjá Gervasoni, í gervimennskunni. Þessi gervifulltrúi launþega hér á Alþingi hafði lítinn sóma af, en eftir þessu var tekið. Síðan má segja að þetta orð, Gervasoni, sé farið að hafa sérstaka merkingu. Flökkustrákur frá Frakklandi var nær því að bregða ríkisstj. verkalýðshreyfingarinnar en kjaraskerðingin sjálf, en að nýgerðir kjarasamningar voru eyðilagðir án þess að neitt hefði í sjálfu sér gerst — samningar sem Alþýðusambandsþing var nýbúið að fagna og hafði með ályktunum sínum sagt að væru raunhæfir samningar og væri hægt að standa á. Miðað við Gervasoni var þetta lítið mál.

Einstaka maður úr launþegastétt hefur að vísu spurt mig hverjir hafi borgað alla samningsgerðina 1980. Hver borgaði brúsann? Getur það virkilega verið rétt, að eftirlitslaust og án skýringa geti tilteknir menn hér í þjóðfélaginu tekið eina krónu af hverjum 100 úr vasa hvers einasta launþega á landinu og varið þeim að eigin geðþótta án ábyrgðar, án eftirlits? Má það vera svo, að engin skoðun hafi farið fram á því innan verkalýðshreyfingarinnar í hverju vitleysan lá 1980, hvað verkalýðshreyfingin gerði skakkt? Verkalýðshreyfingin samdi um 10% kauphækkun í októberlok. Hún samdi um það við ríkisstj. á gamlársdag að þessi 10% skyldu ekki verða greidd út hinn 1. mars, heldur skyldu þau verða tekin af launþegum aftur með valdboði. Þessir samningar hafa að mati ríkisstj. sjálfrar og raunar forseta Alþýðusambands Íslands líka valdið því, að verðbólgan skaust upp í 60%. Við munum eftir því, að það var létt verk og löðurmannlegt að telja trúnaðarmenn launþega á að engin leið yrði að koma verðbólgunni aftur í hið sama farið nema verkalýðshreyfingin skilaði aftur öllu því sem samið var um 1980.

Nú hljótum við að spyrja: Af hverju var þetta langa samningaþóf? Til hvers var tíminn notaður? Af hverju er hægt að halda Alþýðusambandsþing og fagna nýgerðum kjarasamningum þótt allir, sem á því þingi sitja, viti að þessir kjarasamningar verði innan nokkurra vikna dregnir til baka og þar séu lögð á þau ráð að verkalýðshreyfingin skuli láta það gott heita? Er það ekki ábyrgðarleysi að valda með þessum hætti nýrri kollsteypu í íslensku efnahagslífi? Er það ekki ábyrgðarleysi að vera á háum launum hjá verkalýðshreyfingunni, vekja hjá launþegum talvonir um betri tíð, en vera á sama tíma í baktjaldamakki við misvitra stjórnmálamenn um að allt skuli þetta aftur tekið og burt tekið og það sé í lagi að þetta sé dregið til baka af því að svo hittist á að félmrh. er í sama stjórnmálaflokki og formaður Verkamannasambandsins og formaður Alþýðusambandsins? Það er náttúrlega ekki traustvekjandi, að á sama tíma og venjulegt fólk heldur naumast húsum sínum, hefur ekki ráð á að hefja byggingar, á í erfiðleikum með að kosta börn sín í skóla, veit ekki hvort atvinnan stendur í vetur, skuli einhverjir verkalýðsleiðtogar koma upp hér á Alþingi og segja að verkalýðshreyfingin eða forustumenn hennar hafi ekki samþykkt eitt eða annað og þess vegna þurfi það að vera af því vonda.

Auðvitað dylst það engum manni, að margir af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar eru ekki vanda sínum vaxnir né þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Þeir hafa ekki tök á viðfangsefninu. Þeir ráða ekki við það. Þess vegna er nauðsynlegt að skera verkalýðshreyfinguna upp þvera og endilanga, rýmka um atkvæðisréttinn, opna möguleika á hlutfallskjöri, veita hverjum einasta manni, sem er skattlagður með ofríki, leyfi og vald til að hafa áhrif á hverjir fara með völdin og hverjir ráða hans launa- og kjaramálum. Það er ekkert litið sem á þessu veltur. Það er ekki eins og verkalýðsforingjarnir séu í einhverjum mömmuleik og það séu bara súkkulaðidúkkur eða drullukökur sem þeir eru að möndla með. Það er þjóðarkakan sjálf. Það er afkoma heimilanna. Það getur í sumum tilvikum verið spurningin um hvort menn eignist þak yfir höfuðið, hvort menn haldi íbúð sinni, hvort þeir yfirleitt lifi hamingjusamlegu lífi. Svo koma menn hér upp ýmsir og segja með einhverju yfirlæti að verkalýðsforingjarnir hafi meira vit á því en aðrir, hvernig þessi ráð skuli lögð, eftir að verkalýðsforingjarnir hafa gjörsamlega brugðist.

Hverjar eru annars skýringar þeirra og hvar er að finna skýringar þeirra á því, að allir kjarasamningar að heita má undanfarin ár hafa orðið launþegum til bölvunar? Hvar er úttektin á samningunum 1974? Hvar er úttektin á samningunum 1977? Af hverju treystir verkalýðshreyfingin sér ekki til þess að krefjast í fyrstu kröfugerð þeirra kjara handa sínu fólki umsvifalaust sem hún taldi að væri lágmarkskrafa fyrir þremur árum eða fjórum? Hefur þjóðfélagið þá versnað svona síðan 1978? Hefur því verið stjórnað svona illa? Er búið að koma okkur á kaldan klaka síðan? Er ekki hægt að gera mannsæmandi kröfur fyrir íslenskt láglaunafólk nema Geir Hallgrímsson sé forsrh.? Hvað veldur þessu? Af hverju er hrokinn horfinn? Af hverju eru verkalýðsleiðtogarnir í rauninni allra hógværustu menn sem maður hittir núna, þó þeir séu jafnvel kallaðir „jaki“. Jaki minnir á sterkan. Guðmundur minnir á Jón. (GJG: Þetta er ákaflega djúphugsuð ræða hjá þm.) Mér þykir vænt um að heyra að það skuli þó fjögur orð um kjaramál hafa komið upp úr formanni verkamannasambandsins hér á þinginu. Það er meira en var á síðasta þingi.

Það verður ekki gerð nein úttekt í verkalýðshreyfingunni sjálfri á kjarabaráttunni síðasta áratuginn. Hún mun ekki reyna sjálf að átta sig á þeim mistökum, sem hún hefur gert, meðan henni er stjórnað af þeim mönnum, sem nú eru þar við völd, vegna þess að valdastreita þeirra hefur annan tilgang en þann að þjóna sem best launþegum. Hún hefur pólitíski ívaf. Það er rauður þráður sem gengur þar í gegn. Við munum t. d. vel þegar núv. hæstv. félmrh. var að þakka verkalýðsleiðtogum Alþb. fyrir að hafa komið sér í ráðherrastól í ræðunni í okt. eða nóv. 1978. Við munum eftir þeirri ræðu. Það voru mörg stór orð sögð af þeim manni, enda hafa fáir menn núlifandi tekið sér oftar í munn orðið „Alþingi götunnar“ en hann, þó ég á hinn bóginn minnist þess líka, eftir að hann varð ráðh., að hann gæti illa sætt sig við að aðrir menn hefðu eitthvað um málin að segja. Upphafning hans varð líka skyndilega svo það er kannske skiljanlegt.

En nú á sem sagt að fara að sem ja. Ég veit ekki hvort ég geri það út af fyrir sig að umræðuefni í bili. Það er ýmislegt annað sem hægt er að tala um.

Þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan um starfshætti verkalýðsfélaganna og spurninguna um hvernig aftur sé hægt að vinna traust og trú hjá hinum almenna launþega á því að með verkalýðsbaráttu og þeirra félagssamtökum sé hægt að vinna skynsamlega jafnt og þétt og ákveðið að bættum kjörum. Sú valdauppbygging, sem nú er í verkalýðshreyfingunni, er búin að dæma sig úr leik. Hún hefur reynst illa og þess vegna er ekki um annað að ræða en leggja hana til hliðar. Eins og ævinlega þegar við veltum fyrir okkur af hverju eitthvað gengur illa verður niðurstaðan sú, að jafnræðið er ekki nógu mikið, frelsið er ekki nógu afgerandi.

Það er hægt að taka stutt dæmi. Í verkalýðsfélagi greiða, skulum við segja, 4000 manns atkvæði. Það eru tveir listar í kjöri. Hvor listi um sig fær 2000 atkvæði. Þá ræður hlutkesti öllum mönnum í stjórn og trúnaðarráði. Sá, sem tapar í hlutkestinu, fær ekki einn einasta mann. Þó er þar ekki um meiri hl. og minni hl. að ræða. Það eru jafnmargir menn báðum megin. Samt á einn krónupeningur að ráða því, að öll stjórn þessa verkalýðsfélags, allt trúnaðarráðið, skuli vera af öðrum listanum. Er þetta réttlæti? Trúir einhver maður á, að með reglum af þessu tagi sé hægt að halda uppi jákvæðu starfi sem krefst trausts og aðhalds? Auðvitað trúir því enginn maður. En hitt skilja menn, af því að það er mannlegt, að menn, sem eru búnir að búa um sig í ákveðnum sætum og ákveðnum stólum og hafa góð kjör og kunna kannske ekki annað, þó þeir kunni ekki einu sinni þetta, skuli vera á móti öllum þeim nýjungum, öllu því aukna frjálsræði sem kann að setja einokunarvald þeirra sjálfra í hættu. Á bak við íhaldssemina í sambandi við valdauppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar er nefnilega ekkert annað en eigingirni verkalýðsleiðtoganna sjálfra. Þeir eru búnir að hreiðra um sig í þessum sætum. Sumir þessara manna eru fulltrúar stjórnmálaflokka sem telja sig eiga einkarétt á verkalýðshreyfingunni, hafa fundið upp „patentið,“ og af því að þeir hafa fundið upp „patentið“, hafi aðrir menn ekkert um það að segja. Þó fara þeir ofna í vasa manna, eins og sinna flokksbræðra, og segja við þá: Þú átt að borga keisaranum skatt. Þú skalt greiða beint 1% af launum þinum fyrir utan allt annað, í rekstrarfé handa mér og mínum líkum, en þú skalt ekki hafa tök á því að fá fulltrúa fyrir þig í stjórnina. — Þetta er mergurinn málsins.

Þetta er ekkert lítið fé. Hvað ætli það séu margir tugir milljóna sem renna með þessum hætti í gegnum verkalýðshreyfinguna? Það væri gaman að vita það. Hvað er 1% af öllum launagreiðslum á landinu mikið? Það er ekki undarlegt, þegar maður fer um og þegar maður kemur í sumar verkalýðsskrifstofur, að sjá hvað þar er myndarlega og rausnarlega búið. Mér er raunar sagt að það sé nokkuð annað blær hjá íslensku verkalýðsleiðtogunum við Svartahafið en þótt einstaka þm. reyni að létta sér upp í sólarlandaferðum. Það er nokkur önnur reisnin þarna við Svartahafið, betur að mönnum búið, enda sækja þeir í að komast þangað aftur. Sumir hafa farið oft í þann andlega heilsubrunn og eiga mikla samkennd með þessu fólki.

Ég minnist þess, að þegar ég sat þetta eina Alþýðusambandsþing sem ég sat var mættur þar fulltrúi frá sovésku verkalýðshreyfingunni, allra myndarlegasta og föngulegasta kona, og sat þarna fast og hlustaði með eftirtekt á okkur tala. Ég vissi raunar ekki hvaða erindi hún átti hingað. Ég skildi það aldrei, af því að verkalýðshreyfingin, eins og við skiljum hana, er ekki til í hennar landi, og ekki hef ég orðið var við það síðar eða af því frétt, að hún hafi tekið sér Guðmund Jaka eða Jón Snorra Þorleifsson eða aðra sér til fyrirmyndar. Það má annars vel vera, ég veit nú lítið um það. Kannske það sé komið eitthvert verkamannafélagið Dagsbrún þarna við Svartahafið? Það má vera, og þeir taki þar í nefið líka og noti rauða vasaklúta. Ekki veit ég það. En hitt veit ég, að það er nánast móðgun við íslenska verkalýðshreyfingu þegar á þing hennar er boðið fólki sem er fulltrúar afla sem ekkert eiga skylt við frjáls verkalýðssamtök.

Ég mun síðar á þessu þingi fara nánar út í starfshætti verkalýðshreyfingarinnar. En auðvitað er eitt stærsta málið núna, að koma nýjum mönnum í helstu valdastöður verkalýðshreyfingarinnar. Reynslan sýnir okkur að þessir menn, sem nú ráða þar og hafa ráðið, eru ekki vandanum vaxnir. Þótt kaupið hafi hækkað og hækki um 50–60% í krónum talið á hverju einasta ári versna lífskjörin, við getum keypt fyrir það minna og minna. Verkalýðshreyfingin og þessir verkalýðsleiðtogar tala mikið um kaupgjaldsvísitölu, en reynslan af þessu ári kennir okkur að þeir létu breyta lögunum þannig varðandi viðskiptakjörin að þeir létu þann lið kaupgjaldsvísitölunnar hætta að mæla um leið og viðskiptakjörin bötnuðu. Ekki veit ég hvort formaður Verkamannasambands Íslands hefur reiknað út hversu mikið kaupið hefði hækkað 1. sept. s. l. ef við útreikningi kaupgjaldsvísitölunnar hefði ekki verið hreyft með hans atkvæði á síðasta þingi. Hvað var ranglega tekið mikið af okkur þá? (GJG: Hvaða mál er á dagskrá?) Hvað ætli það hafi verið mikið? Það hefur ekki verið nein smáupphæð. Svo spyr aumingja formaður Verkamannasambandsins hvaða mál sé á dagskrá? Það var á dagskrá í þessari andrá hversu mikið verkalýðshreyfingin samdi af sér 1. sept. Hvað hefðu launþegar fengið mikla kauphækkun ef gamli útreikningurinn hefði áfram verið í gildi? Það skal ég ábyrgjast að Guðmundur J. Guðmundsson hefur ekki minnstu hugmynd um. Hann hefur aldrei leitt hugann að því, aldrei athugað það, frekar en aðrir þeir menn sem eru honum tengdastir innan verkalýðshreyfingarinnar.

Það er svo eftir öðru, að enn einu sinni hefur verið höggvið í þann knérunn þar sem sjómenn eru og tekin frá þeim kauphækkun sem þeir í raun áttu.

Það sýnir svo hvernig ástandið er orðið, að Verkamannasamband Íslands klofnaði nánast í tvennt í kröfugerðinni og þeir menn, sem komu frá aðalfundi Verkamannasambandsins, voru ekki glaðir menn né vígdjarfir. Þeir fundu að það vantaði einhverja sannfæringu í þeirra baráttu.

Að síðustu er rétt að benda á að alvarlegasti þátturinn í sambandi við launakjörin hér á landi er náttúrlega hið mikla misvægi sem gildir eftir störfum, hve mishá launin eru jafnvel í sömu stétt. Það er náttúrlega alvarlegast í þessu öllu saman og bein afleiðing af félagsmálapökkum og pólitískri íhlutan í kjarasamninga.

Ég varpaði því fram á síðasta Alþingi, þegar kaupið var skert með ólöglegum hætti 1. mars s. l. eða a. m. k. hæpnum hætti, hvort verkalýðshreyfingin myndi treysta sér til að setja aftur fram kröfu um grunnkaupshækkanir. Ég sagði að reynslan af samningunum í fyrra sýndi að slíkt væri mjög hæpinn ávinningur fyrir launafólk, enda væri verkalýðsforustan ekki í stakk búin til að halda utan um þann ávinning sem hún kynni að ná í nýjum kjarasamningum, eins og brbl. og kjaraskerðingin eða kaupránið 1. mars í fyrra sýndi. Mér finnst margt benda til þess, að þessi verði raunin á. Menn eru farnir að gera sér það ljóst, að þrátt fyrir mikið góðæri eru ekki efni til þess að kaupmátturinn batni um hríð, því miður, Þess vegna held ég að niðurstaðan verði sú, að nýir samningar muni dragast á langinn og þegar þeir loksins sjái dagsins ljós muni þeir ekki skipta miklu máli. En meðan allt þetta gerist minnkar traustið á verkalýðshreyfingunni, dregst saman og krafan um ný vinnubrögð, önnur vinnubrögð, aðra starfshætti, verður æ sterkari hjá öllum launþegum hér á landi.