27.01.1982
Neðri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

168. mál, dýralæknar

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um dýralækna er samið af þriggja manna nefnd sem skipuð var á vegum landbrn. með bréfi dags. 1. júlí 1981. Í nefndinni áttu sæti Jón Guðbrandsson héraðsdýralæknir, sem er formaður Dýralæknafélags Íslands, Páll A. Pálsson yfirdýralæknir og Ragnheiður Árnadóttir deildarstjóri í landbrn., og var hún jafnframt skipuð formaður nefndarinnar. Nefndinni var falið að endurskoða lög nr. 31/1970, um dýralækna, ásamt síðari breytingum, og skilaði hún um þetta efni fullbúnu frv. ásamt grg., en frv. er lagt fyrir Alþingi eins og nefndin gekk frá því. Skipun nefndarinnar og flutningur þessa frv. er í samræmi við yfirlýsingu sem ég gaf á síðasta þingi í tengslum við umr. um þau frv. sem þá voru flutt til breytinga á lögum um dýralækna.

Þótt lög um dýralækna séu ekki nema 11 ára gömul hafa verið gerðar á þeim breytingar hvað eftir annað eða alls sjö sinnum. Þetta eitt var í sjálfu sér ærið tilefni til þess að lögin í heild væru tekin til endurskoðunar og samræmingar, en auk þessa hafa borist margvíslegar óskir um breytingar á lögunum frá bændasamtökum, frá Dýralæknafélagi Íslands og einnig í þeim þmfrv. sem flutt voru á síðasta Alþingi.

Ljóst er að við samningu frv. hefur nefndin tekið að nokkru mið af hugmyndum og óskum framangreindra aðila. Frv. er nokkru ítarlegra og fyllra en gildandi lög um þetta efni og felur í sér verulegar breytingar. Verður hér gerð grein fyrir nokkrum þeirra.

Í fyrsta lagi gerir frv. ráð fyrir nokkuð auknum skilyrðum sem þarf að fullnægja til að geta fengið leyfi til að stunda dýralækningar hér á landi, en slík leyfi veitir landbrh. Verði frv. að lögum þurfa umsækjendur að hafa starfað a. m. k. tvo mánuði undir handleiðslu héraðsdýralæknis hér á landi og jafnframt kynnt sér þær reglur sem gilda um dýralækningar og meðferð lyfja. Ákvæði eru sett um málakunnáttu þeirra, sem eru hliðstæð því sem gildir um þetta efni á hinum Norðurlöndunum. Þetta er gert m. a. vegna þess að kennsla í dýralækningum fer ekki fram hér á landi og kandídatar, sem koma heim að námi loknu, kunna að þurfa að kynna sér ýmsa sérstöðu hér á landi að því er varðar húsdýrasjúkdóma, lög og reglur. Auk þess er talin ástæða til að hafa slík ákvæði í lögum að því er varðar erlenda dýralækna sem kunna að sækja hingað til starfa.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því, að stofnuð verði sex ný héraðsdýralæknisumdæmi. Þetta er gert með því að skipta sex af núverandi héraðsdýralæknisumdæmum í tvennt. Þau eru þessi: 1. Gullbringu- og Kjósarsýsluumdæmi, er skiptist í Reykjavíkurumdæmi og Hafnarfjarðarumdæmi. 2. Borgarfjarðarumdæmi, er skiptist í Borgarfjarðarumdæmi og Akranesumdæmi. 3. Skagafjarðarumdæmi, er skiptist í Skagafjarðarumdæmi og Hofsósumdæmi. 4. Þingeyjarþingsumdæmi, er skiptist í Þingeyjarþingsumdæmi vestra og Þingeyjarþingsumdæmi eystra. 5. Austurlandsumdæmi nyrðra, er skiptist í Austurlandsumdæmi nyrðra og Norðfjarðarumdæmi. 6. Laugarásumdæmi er skiptist í Laugarásumdæmi og Hreppaumdæmi.

Þau sex umdæmi, sem hér er gert ráð fyrir að verði skipt, hafa það sameiginlegt að þau eru víðáttumikil og gripamörg, en auk þess eru sum þeirra mjög erfið yfirferðar á vetrum. Við skiptingu þessara umdæma hefur verið haft samráð við hlutaðeigandi héraðsdýralækna og aðra aðila sem þar eru gagnkunnugir. Ber þeim saman um að það sé ofætlun einum dýralækni í þessum umdæmum að veita viðhlítandi þjónustu og anna því heilbrigðiseftirliti og öðrum störfum sem krafist er af dýralæknum. Skipting umdæmanna er einnig í samræmi við ályktanir, sem borist hafa frá samtökum bænda í þessum umdæmum, og sumpart til samræmis við þau frv. sem flutt voru á síðasta Alþingi.

Á liðnum áratug er talið að störf dýralækna hafi breyst verulega samhliða breyttum búskaparháttum. Um leið og búin hafa stækkað hefur fólki, sem við þau vinnur, fækkað og annríki aukist. Gripir eru nú meira en áður var fóðraðir til fyllstu afurða og eru kvillasamari, jafnframt því sem nýir kvillar eða búfjársjúkdómar hafa komið til sögu sem iðulega krefjast læknismeðferðar, ráðlegginga af hálfu dýralæknis eða varnaraðgerða. Bændur hafa í auknum mæli leitað til dýralækna og gera nú minna að því en áður að reyna að lækna gripi sína sjálfir.

Rétt er að vekja athygli á því, að stofnun nýrra héraðslæknisumdæma skal samkv. ákvæðum frv. koma til framkvæmda eftir því sem landbrh. ákveður og fjárveiting segir til um. Það væri óskynsamlegt, enda eigi til þess ætlast af höfundum frv., ef hin nýju dýralæknisumdæmi væru öll stofnuð samtímis, heldur smám saman á nokkrum árum, ella mætti búast við að kostnaðarauki samfara þessum breytingum verði tilfinnanlegur og breytingarnar kynnu að valda óæskilegri röskun og tilfærslu milli embætta.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að heimilt verði að tveir eða fleiri dýralæknar séu á sama stað þar sem það verði talið hentugt. Getur það komið til greina þegar stofnuð verða sum af þeim nýju umdæmum og leiðir vonandi til þess að dýralæknar geti haft með sér æskilegt samstarf og verkaskiptingu og boðið upp á aukna og betri þjónustu án þess að um kostnaðaraukningu verði að ræða. Allt verður þetta þó háð því, að samkomulag takist við dýralæknana sjálfa og eins við þá aðila sem þeir eiga að þjóna.

Í fjórða lagi er í frv. kveðið á um meðferð og sölu dýralyfja. Þar er sagt, að héraðsdýralæknar skuli annast sölu lyfja fyrir dýr eða ávísa þeim, og jafnframt er að finna ákvæði sem kveður á um að dýralæknum einum skuli heimilt að ávísa lyfjum handa dýrum. Jafnframt er varðandi þessi atriði ákvæði um framleiðslu ónæmisefna á Tilraunastöð háskólans að Keldum. Vænti ég að ákvæði, er að þessu lúta í frv., geti farið saman við sambærileg ákvæði í lögum um lyfjadreifingu.

Í fimmta lagi eru ákvæði í frv. um ferðakostnað dýralækna. Þar er gert ráð fyrir að þegar héraðsdýralæknis er vitjað um langan veg frá heimili hans, þ. e. vegalengd sem er yfir 40 km, greiði sá, er vitjunar beiðist, ferðakostnað fyrir fyrstu 40 km akstur frá heimili dýralæknis, en það sem umfram er greiðist af opinberu fé. Hér er um að ræða tilraun til að jafna nokkuð afstöðu þeirra, sem fjærst búa dýralækni, miðað við þá, sem búa nær aðsetri hans, en jafnframt er hér einungis átt við sjúkdómstilfelli sem ekki þola bið. Ætlast er til þess, að landbrh. setji reglur um framkvæmd og ákvæði þessarar greinar og raunar um fleiri efni í þessu frv.

Ýmis ákvæði þessa frv. lúta að því að jafna eða bæta þjónustu héraðsdýralækna við þá sem á þeirri þjónustu þurfa að halda, og hlýtur það að vera keppikefli innan hófsamlegra marka að því er kostnað snertir. Þótt hér sé gerð tilraun til að stíga stutt skref til að jafna aðstöðu bænda er nota þjónustu þessa verður sú aðstaða seint jöfnuð til fulls. Því valda fjarlægðir sem öllum eru kunnar í okkar strjálbýla landi. Ýmsar fleiri breytingar felast í frv. þessu, sem ég sé ekki ástæðu til að fjalla um sérstaklega.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.