27.01.1982
Neðri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

168. mál, dýralæknar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil fagna framkomu þessa frv. Dýralæknar eru tiltölulega ný stétt í þjóðfélaginu og það hefur orðið mikil fjölgun í stéttinni á síðari árum. Þarfir búfjárins fyrir þjónustu þessara manna hafa aukist hröðum skrefum. Nú er svo komið, að verulegur kostnaður við búrekstur er fólginn í þeirri þjónustu sem keypt er af dýralæknum og kaupum á dýralyfjum. Það er nauðsynjamál að þessu sé skipað með sem hagfelldustum hætti og gjaldskrá sé hófsöm og með henni fylgst og lyfjaverði stillt í hóf.

Ég vil eins og síðasti hv. ræðumaður gera athugasemd við skiptingu dýralæknisumdæma. Samkvæmt 4. gr. segir að í Skagafjarðarumdæmi séu Sauðárkrókur, Skarðshreppur, Skefilsstaðahreppur, Staðarhreppur, Seyluhreppur, Lýtingsstaðahreppur og Rípurhreppur, en í Hofsósumdæmi séu hins vegar: Hofsóshreppur, Viðvíkurhreppur, Hólahreppur, Hofshreppur, Fellshreppur, Haganeshreppur, Holtshreppur, Akrahreppur og Siglufjörður. Ég fæ ekki séð að þetta sé hagfelld skipan. Ég held að það sé miklu réttara að Akrahreppur sé látinn fylgja Skagafjarðarumdæmi heldur en Hofsósumdæmi, vegna þess að verslunarstaður Akrahreppsbúa er Sauðárkrókur og Reyndar að nokkru leyti Varmahlið, en það er fremur sjaldgæft að fólk úr Akrahreppi eigi leið til Hofsóss í verslunarerindum, enda um miklu lengri veg að fara.

Ég geri ráð fyrir að það hafi vakað fyrir þeim mönnum, sem sömdu þetta frv. — og ef til vill hafa ekki haft í minni staðhætti þarna á svæðinu, að jafna á milli umdæma. Og óneitanlega verður Skagafjarðarumdæmi talsvert miklu stærra en Hofsósumdæmi. En það er hart að leggja þá kvöð á íbúa í Akrahreppi að þurfa að fara alla þessa leið og verða að sækja þessa þjónustu til Hofsóss þegar annar dýralæknir situr miklu nær. Breyta þar litlu hugmyndir, sem að vissu leyti eru góðra gjalda verðar, um aðstoð við þá sem lengst eiga að sækja til dýralæknis.

Ég vil fara fram á það að þingnefndin, sem fær þetta mál til meðferðar, leiti álits hreppsnefndar Akrahrepps og Búnaðarsambands Skagfirðinga á þessu atriði. Ég held að það megi líka velta því fyrir sér hvort það er sjálfgefið að Viðvíkursveit sé látin fylgja Hofsósumdæmi. Þó er það miklu nær en að ætla Akrahreppi að gera það.

Ég mun ekki fjölyrða um þetta frv. Ég vona að það fái góða afgreiðslu en jafnframt að það verði kannað nákvæmlega hvort ekki má betur fara í þessu efni.