27.01.1982
Neðri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

168. mál, dýralæknar

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í minni framsöguræðu fyrir þessu máli er þetta frv. samið af nefnd og lagt fram óbreytt eins og nefndin gekk frá því. Ég taldi rétt að leggja frv. þannig fyrir, enda þótt auðvitað væri engu slegið föstu um það, hvort æskilegt kynni að vera að gera á því einhverjar breytingar. Ég hafði auðvitað tekið eftir breytingum eins og t. d. varðandi Hálshrepp, enda þótt ég teldi ekki ástæðu til að geta um það sérstaklega í minni framsögu. Það liggur jafnframt ljóst fyrir, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að Sauðárkrókur er auðvitað slík miðstöð Skagafjarðarhéraðs og þangað liggja fleiri leiðir Akrahreppsbúa og jafnvel fleiri Skagfirðinga en til Hofsóss. En þetta er sem sagt sú skipting sem lögð er til í frv. og tillögur þeirrar nefndar sem frv. samdi. Ég tel sjálfsagt að þingnefndin kalli eftir umsögnum varðandi þessi efni eftir því sem henni þykir ástæða til.

Ég vil þó að sjálfsögðu geta þess, að þegar stofnuð eru ný héraðsdýralæknisumdæmi hlýtur að verða að hafa það í huga, að sá skepnufjöldi eða gripir, sem á svæðinu eru, séu nokkurn veginn til samræmis við skiptingu, þannig að ekki séu t. d. allt að tvöfalt fleiri gripir í öðru umdæminu en hinu. Til þessara atriða verður að taka tillit. Ég skal ekkert um það fullyrða hvort t. a. m. í Skagafirði væri haganlegt að koma því svo fyrir, að báðir dýralæknar sætu á Sauðárkróki. Ég vil ekki fullyrða á þessu stigi nema það kunni að vera mögulegt. Væri svo skiptir þetta ekki neinu máli. En það segir sig auðvitað sjálft að það lengir leiðina norður í Fljót og til Siglufjarðar og raunar í byggðina norðan Hofsóss. Það þarf allt athugunar við, hvort það er hyggilegt eða hvort af því hlytist það hagræði í vinnu og verkaskiptingu, eins og ég gat um í minni framsöguræðu, sem gæti orðið til tekna á móti því sem er til óþæginda á öðrum sviðum og þá mundi aftur verða nokkuð styrkt, miðað við þann styrk til ferðakostnaðar sem ég gat um og gerð er tillaga um í frv.

Sömu sögu og um Skagafjörð er auðvitað að segja um Þingeyjarþingsumdæmi sem hér er gert ráð fyrir að séu tvö. Ég hef ekki kannað það frekar, en í umsögnum nefndarinnar, sem frv. samdi, kemur fram að haft hefði verið samband við dýralækna og heimaaðila. A. m. k. er það svo, að á bak við þessa umsögn eru formaður Dýralæknafélags Íslands og yfirdýralæknir og enn fremur deildarstjóri í landbrn. Ég sé ekki ástæðu til að rengja það sem kemur fram hjá þessum aðilum, en ég hef auðvitað ekkert á móti því, að það sé kannað nánar, og það er auðvitað keppikefli bæði fyrir mig og fyrir Alþingi og fyrir alla aðila að um þetta mál sé sem bestur friður. Þess vegna er síður en svo að ég hafi á móti því, að umdæmaskiptingin sé könnuð frekar eða hvern hug heimamenn hafa til hennar á hinum einstöku svæðum.

Varðandi búsetu héraðsdýralækna í Þingeyjarþingsumdæmum tel ég mjög koma til greina að þeir sitji báðir á Húsavík. En áður en ég svara því afdráttarlaust á þessum stað vil ég kynna mér frekar hvern vilja heimamenn hafa í því efni. Það hefur komið til greina að héraðsdýralæknir í Þingeyjarþingsumdæmi vestra sæti á Stórutjörnum, en ég hygg að það sé a. m. k. mjög margt sem mælir með því að í þeim umdæmum sitji læknarnir báðir á Húsavík, þó ég vilji ekki slá neinu föstu um það að þessu sinni.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að fjalla um þetta mál af minni hálfu frekar. Ég tel að orð mín eigi einnig við hvað varðar athugasemd hv. 5. þm. Vestf. varðandi hreppana við Djúp, þó að erfitt sé að gera sér grein fyrir því á þessari stundu hvenær vegur verður kominn yfir Steingrímsfjarðarheiði. En það er auðvitað vel ef það gerist hið fyrsta.

Ég legg mikið upp úr því, að sú breyting, sem hér verður væntanlega gerð á lögunum, leiði til þess, að sú þjónusta, sem dýralæknarnir veita, verði greiðari og betri, að unnt verði að veita hana án mikils aukakostnaðar.