27.01.1982
Neðri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. 1. flm. þess frv. sem hér er til umr., hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, lýsti vel í framsögu þeim hrikalega mismun á lífskjörum fólks sem stafar af mjög mismunandi upphitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis. Sama gerði hv. 6. landsk. þm., Karvel Pálmason. Fer ég því ekki nánar út í það.

Hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, talaði bæði með og á móti frv. Hann ræddi þó mest um nauðsyn þess að jafna raforkuverð. Með verðjöfnunargjaldinu hefur mikið áunnist í þeim efnum og er nú svo komið að hæsta verð er þó ekki meira en 34% hærra en verðið hér í Reykjavík og margar rafveitur þurfa að selja raforku á hærra verði en þau fyrirtæki sem fyrst og fremst njóta verðjöfnunargjaldsins, þ. e. Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða.

Hv. þm. svo og hv. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefánsson, ræddu um gjaldskrá Landsvirkjunar með tilliti til húsahitunar, töldu, að hún yrði að lækka verulega, og töluðu um lægsta hugsanlegt verð, miðað við hagkvæmustu virkjunarkosti, eins og það var orðað.

Nú er það svo að Landsvirkjun selur ekki raforku til einstaklinga og þá ekki heldur raforku sem sérstaklega er ætluð til beinnar húsahitunar. Auk þess er bein upphitun með raforku afar óhagkvæm frá sjónarmiði rafveitna og ekki síður frá sjónarmiði orkuframleiðenda, því að þörfin á orku til húsahitunar er mest þegar raforkuframleiðslan er minnst, á köldustu mánuðum ársins. Aftur á móti er mjög hagkvæmt, a. m. k. á öllum þéttbýlisstöðum sem ekki hafa aðgang að jarðvarma, að koma sér upp fjarvarmaveitum sem byggja á ótryggðri raforku og svartolíukyndingu til vara. Í þeim tilvikum er unnt að fá raforku frá Landsvirkjun á mjög góðum kjörum, jafnvel sambærilegum þeim sem Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga fær sína ótryggðu raforku á. Þetta reyndum við á sínum tíma í Vestmannaeyjum og það var ekkert því til fyrirstöðu að fá orkuna á svipuðum kjörum.

Þá má í stórum dráttum segja að allvel hafi til tekist með jöfnun raforkuverðs eftir landshlutum og er það vel. Það mætti jafnvel hugsa sér að draga nokkuð úr verðjöfnunargjaldinu þegar svo er komið að nokkuð margar rafveitur þurfa að selja orkuna hærra verði en Rafmagnsveitur ríkisins. En nú er miklu meiri nauðsyn á að jafna hitakostnað fólks með einum eða öðrum hætti. Þar er munurinn margfalt meiri en nokkru sinni var á raforkuverði og hitakostnaðurinn miklu stærri hluti af útgjöldum heimila utan Reykjavíkursvæðisins en raforka til annarra hluta en upphitunar hefur nokkru sinni verið.

Eins og 1. flm. frv. lýsti vel í framsöguræðu sinni, þá hefur Alþingi áður tekið skýra afstöðu til þessara mála með því að leggja á allháan skatt, svokallað orkujöfnunargjald, sem er 1.5% viðbót við söluskatt. En núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið stærstan hluta skattsins til annarra nota og lætur hinn hrikalega mismun upphitunarkostnaðar að mestu lönd og leið.

Kynding með olíu hefur með olíugjaldinu verið lækkuð að meðaltali frá því að vera rúmlega sjö sinnum dýrari en hitakostnaður í Reykjavík í það að vera liðlega sex sinnum dýrari og þá litið eitt dýrari en bein rafhitun.

Hv. 1. þm. Vesturl. sagði að vandinn væri óðum að minnka því að yfir 85% þjóðarinnar hefðu nú aðgang að hitaveitu. Þessi tala er því miður eitthvað of há. En það skiptir ekki öllu máli og það réttlætir engan veginn að hinir, þessi 15% sem þá eru eftir, séu skildir eftir úti í kuldanum. Aðgangur að hitaveitum leysir ekki heldur allan vandann. Vantar mikið þar á. Vegna mikils fjármagnskostnaðar eru gjaldskrár nýrra hitaveitna frá þremur og upp í fimm sinnum hærri en gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur. Til dæmis er gjaldskrá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar fjórum og hálfum sinnum hærri en Hitaveitu Reykjavíkur og verður það líklega um talsvert árabil. Mismunurinn nemur gífurlegum upphæðum hjá fólki og því fyllsta ástæða fyrir Alþingi að leita ráða til jöfnunar. Ef raunverulegur hitakostnaður fólks úti á landi væri tekinn inn í framfærsluvísitöluna mundi hún hækka um hvorki meira né minna en 5–10%, eða nánar tiltekið frá 4.99 til 9.84% eftir því hvar á landinu fólkið býr, og verðbætur á laun jafnmikið. Og ef tekið væri tillit til skatta og 40% verðbólgu þyrftu verðbætur að hækka um 7–14% til þess að fólk úti á landsbyggðinni eða meiri hluti þess stæði jafnfætis fólki hér á Reykjavíkursvæðinu að þessu leyti.

Vísitölusvindlið varðandi hitakostnaðinn einan sér kostar fólkið úti á landi hvorki meira né minna en 5–10% af launum þess. Svo segja menn að kaupmátturinn sé tryggður með því að láta hann fylgja framfærsluvísitölunni. Og launþegahreyfingin sér ekkert athugavert við þessa framkvæmd. Ef ætti að ná þessu upp þannig að fólk úti á landi stæði jafnfætis fólki hér á Reykjavíkursvæðinu þyrftu launin að hækka um 7–14% ef tekið væri tillit til skattlagningar.

Framfærsluvísitalan er svo hrikalega vitlaus að þessu leyti að hún segir að upphitunarkostnaður íbúðarhúsnæðis hafi tæplega fjórfaldast frá því í jan. 1968 og þangað til nóv. á s. l. ári, á sama tíma og annar grundvöllur framfærsluvísitölunnar hefur meira en 42-faldast. Og framfærsluvísitalan segir að upphitunarkostnaður vísitölufjölskyldunnar sé innan við 2% af útgjöldum. Svo segja menn að þetta sé verðtrygging launa.

Hv. 1. þm. Vesturl. telur nauðsynlegt og sjálfsagt að taka orkuverðið út úr grundvelli framfærsluvísitölunnar. En hvað þýðir það í reynd? Það þýðir að sú lækkun verðbóta um allt að 10%, sem flestir landsmenn utan stór-Reykjavíkursvæðisins hafa orðið að þola lengi, verður í reynd lögfest og íbúar Reykjavíkursvæðisins fá á sig nokkurn hluta — að vísu ekki stóran en nokkurn hluta af þeirri skerðingu sem aðrir landsmenn hafa átt við að búa. M. ö. o. skal sett í lög að upphitunarkostnaður íbúðarhúsnæðis sé ekki nema 1.8% af útgjöldum vísitölufjölskyldunnar hvernig sem orkuverð breytist. Þetta er talið vera bjargræðið í dag. Þetta er auðvitað sterkur leikur í vísitölusvindlinu sem nú er ástundað af meira kappi en nokkru sinni fyrr.

Það er annars einkennilegt að stjórnvöld skuli ávallt telja sig þurfa að leita leiða til að fara á bak við fólk, eins og það séu einhverjir kjánar, og að launþegahreyfingin skuli láta það afskiptalaust, láta sér vel líka. Það er alltaf affarasælast, a. m. k. til lengdar, að horfast í augu við raunveruleikann og segja fólki sannleikann en hætt þessum endalausa feluleik og möndli með vísitöluna. Ef nauðsynlegt er talið að skerða verðbætur á laun, þá á að viðurkenna það, segja fólki sannleikann, koma framan að fólki en hætta þessum endalausa feluleik, hætta þessum leik að vera alltaf að koma í bakið á fólki.

Hv. 1. þm. Vesturl. sagði að frv. væri vitlaust, m. a. vegna þess að það leysti ekki vanda allra, ekki þeirra sem engan tekjuskatt greiða. Rétt er að það leysir ekki vanda þeirra sem engan tekjuskatt greiða og ekkert útsvar, því að ónýttur persónuafsláttur er notaður til greiðslu útsvars. Þeirra vanda mætti auðveldlega leysa með þeim hætti sem Alþfl.-menn lögðu til í febrúarmánuði s. l., með útborganlegum ónýttum persónuafslætti til skatts, m. ö. o. með neikvæðum tekjuskatti. En hv. 1. þm. Vesturl. ásamt öðrum stjórnarliðum var andvígur þeirri tillögu.

Þetta frv. leysir ekki allan vanda, því fer fjarri. En það leysir talsverðan hluta hans. Í reynd mundi það hjá flestum jafna út 40–45% af mismun hitakostnaðar. Menn eiga ekki að vera á móti öllum till. sem miða í rétta átt, þó að þær leysi ekki allan vanda strax. Betra er hálfur skaði en allur, og þá er auðveldara að leysa vanda þeirra, sem eftir eru, þegar búið er að leysa vanda flestra hinna.

Þetta minnir mig á það þegar hv. 1. þm. Vesturl. lýsti sig andvígan því stefnumiði tveggja ríkisstjórna, sem fram kom í frv. til laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins sem ég flutti seint á árinu 1979, að almenn lán Byggingarsjóðs ríkisins yrðu að lágmarki 30% brúttó-byggingarkostnaðar árið 1980 og hækkuðu um minnst 5% á ári, í 80% brúttó-kostnaðar eigi síðar en 1990. Hv. þm. var andvígur þessu markmiði frv. vegna þess að hækkunin í 80% tæki allt of langan tíma. Hann sagði að það væri stefna Framsfl. að ná 80% markinu strax. En hvað hefur síðan gerst? Framsfl. hefur verið í ríkisstj. síðan en almenn lán Byggingarsjóðs ríkisins eru í reynd aðeins 16–17% af brúttó-byggingarkostnaði staðalibúða, eins og Húsnæðisstofnun ríkisins fær út, ekki 40% eins og þau væru ef frv., sem ég lagði fram, hefði verið samþykkt og forsendur þess, 16–17% ekki 40%.

Frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem ég ásamt nokkrum öðrum þm. Alþfl. lagði fram á þskj. 112, gengur mun lengra í jöfnunarátt en það frv. sem hér er til umr. því það jafnar mismun svo til alveg hjá flestum launþegum. En ef hv. þm. treysta sér ekki til að samþykkja frv. á þskj. 112 er það frv. sem hér er til umr. á þskj. 128, stórt skref í rétta átt, engan veginn fullnægjandi en til mikilla bóta.