26.10.1981
Neðri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekki tamið mér það hér í þessari hv. deild að gera athugasemdir við störf forseta og vil ekki gera. Hins vegar verð ég að lýsa undrun minni á því, að þegar hér kemur stórt og veigamikið frv., sem skiptir verulega sköpum í félagsmálastarfi verkalýðsfélaga, þá skuli koma hér hv. alþingismenn eða alþingismaður og halda 45 mínútna ræðu um efni sem bókstaflega kemur þessu lagafrv. ekki nokkurn skapaðan hlut við. Ég virði umburðarlyndi forseta og vil á engan hátt átelja það. Mér hefur yfirleitt virst forsetastörf bæði hjá aðalforseta og varaforseta vera réttsýn og réttlát. En ég lýsi undrun minni á því, að þessi hv. þm., sem hér var að ljúka máli sínu og má tala eins lengi og hann vill um almenn stjórnmál, skuli hindra umr. um mál, sem hér er á dagskrá, með almennum stjórnmálaumræðum, persónulegum athugsemdum út og suður, en forðist dagskrármálið. Þetta er að misnota traust forseta og er hreinlega brot á þingsköpum. Hins vegar geri ég mér ekki vonir um að lagfæringar verði á framkomu þessa hv. þm.