28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

354. mál, efnahagsmál

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrir hönd ríkisstj. legg ég fram skýrslu um aðgerðir í efnahagsmálum og hefur ríkisstj. óskað útvarpsumræðna um málið.

Áður en ég flyt skýrsluna vil ég taka þetta fram: Fyrir rúmu ári, á gamlársdag 1980, birti ríkisstj. efnahagsáætlun sína. Mál stóðu þannig að verðbólgan hafði árið áður, 1979, verið 60.6% og reyndist 59% árið 1980. Spá eða framreikningur Þjóðhagsstofnunar var á þá leið, að án aðgerða mundi verðbólgan 1981 verða um 72%. Eftir efnahagsaðgerðir var álit sömu stofnunar að verðbólgan yrði um 50%.

Ríkisstj. setti sér það mark að ná verðbólgunni niður í um 40% á árinu 1981 frá upphafi til loka ársins. Það tókst.

Varðandi árið í ár var talið að án efnahagsaðgerða yrði verðbólgan um 55%, en það er sambærileg tala við 72% ári fyrr. Nú hefur það markmið verið ákveðið, að verðbólga á árinu í ár verði ekki yfir 35% og hraði hennar verði kominn niður í um 30% á síðari hluta ársins. Ég hef nú flutning á skýrslu ríkisstj.

Breyttar þjóðhagshorfur.

Horfur um ytri skilyrði þjóðarbúsins og aflaverðmæti hafa breyst til hins verra frá því er þjóðhagsáætlun fyrir árið 1982 var lögð fram á Alþingi í október 1981.

Útlit er fyrir að áfram haldi erfiðleikar í efnahagslífi viðskiptalanda okkar. Þetta ástand heldur niðri verði og dregur úr sölu á ýmsum framleiðsluvörum Íslendinga. Þegar hefur gætt sölutregðu á áli og kísiljárni, og blikur eru á lofti um verðlag á einum mikilvægasta markaði Íslendinga, Bandaríkjamarkaði. Þá hefur og orðið brestur í einum mikilvægasta fiskstofni landsmanna, loðnustofninum. Á síðastliðnu hausti var því spáð, að unnt yrði að veiða í ár svipað magn og veitt var á síðasta ári. Útflutningsverðmæti loðnuafurða var í fyrra um 420 millj. kr., eða tæp 8% af verðmæti útfluttra sjávarafurða. Árið áður var þetta hlutfall um 13%. Nú er talið að ekki verði unnt að veiða nema hluta þess magns sem gert var ráð fyrir.

Í október s. l. var talið að útflutningur á árinu 1982 mundi vaxa um 3–4%. Nú eru hins vegar líkur á að útflutningstekjur Íslendinga vaxi ekki í ár. Þjóðartekjur landsmanna og þjóðarframleiðsla munu því standa í stað eða jafnvel dragast saman á þessu ári, en það hefur ekki gerst síðan árið 1975.

Vegna þessarar versnandi stöðu í þjóðarbúskapnum og til þess að koma í veg fyrir vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla ber til þess brýna nauðsyn, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir í efnahagsmálum.

Markmið í efnahagsmálum.

Höfuðmarkmið ríkisstj. í efnahagsmálum verða hin sömu og sett voru fram í efnahagsáætlun frá 31. desember 1980. Þessi markmið eru:

Öflugt atvinnulíf og næg atvinna fyrir alla landsmenn. Hjöðnun verðbólgu.

Trygging kaupmáttar.

Á liðnu ári tókst að ná þessum markmiðum. Langvarandi samdráttur í efnahagslífi víða um heim gerir Íslendingum erfiðara að halda uppi nægri atvinnu. Þetta tókst þó á nýliðnu ári og ríkisstj. mun áfram hafa það að leiðarljósi við mörkun efnahagsstefnunnar, að tryggð verði næg atvinna fyrir alla landsmenn: Ríkisstj. mun miða aðrar aðgerðir sínar í efnahagsmálum við það að þessu höfuðmarkmiði verði náð.

Vegna ytri aðstæðna verður torsóttara í ár en í fyrra að ná stórum áfanga í hjöðnun verðbólgu. Á síðasta ári lækkaði verðbólgan eins og að var stefnt úr um 60%, sem hún hafði verið í undanfarin tvö ár, niður í um 40%. Ríkisstj. hefur nú að nýju sett sér markmið í efnahagsmálum sem hún telur raunhæf við núverandi aðstæður í þjóðarbúinu. Stefnt verður að því. að verðbólgan frá upphafi til loka ársins 1982 verði ekki meiri en um 35% og að hraði verðbólgunnar verði kominn niður í um 30% á síðari hluta ársins.

Á liðnu ári tókst með hjaðnandi verðbólgu að verja kaupmátt ráðstöfunartekna almennings, en án sérstakra aðgerða í upphafi ársins hefði kaupmátturinn rýrnað. Ríkisstj. mun einnig á þessu ári leggja áherslu á að verja kaupmátt eins og kostur er.

Nýtt viðmiðunarkerfi.

Ríkisstj. mun nú þegar stofna til viðræðna við samtök launafólks og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um viðmiðunarkerfi, sem gæti komið í stað núverandi vísitölukerfis og tryggt kaupmátt og jöfnun lífskjara, en væri laust við höfuðókosti þess kerfis sem nú gildir. M. a. verði reynt að finna leið til þess, að ráðstafanir til að jafna orkukostnað landsmanna valdi ekki aukinni verðbólgu.

Þá mun ríkisstj. hefja viðræður við aðila að verðmyndunarkerfi sjávarútvegs og landbúnaðar um breytingar á skipan þeirra mála, breytingar sem stuðlað gætu að hjöðnun verðbólgu en tryggt um leið afkomu í þessum greinum.

Atvinnumál.

Það er forsenda frekari árangurs í efnahagsmálum og grundvöllur vaxandi þjóðartekna að atvinnuvegirnir búi við traustan grundvöll. Ríkisstj. mun kappkosta að bæta og jafna starfsskilyrði atvinnuveganna og um leið stuðla að hagkvæmari fjárfestingu í atvinnutækjum en verið hefur.

Í þessu skyni hefur verið ákveðið að lækka launaskatt í iðnaði og fiskvinnslu úr 3.5% í 2.5% og stimpilgjald af afurðalánum úr 1% í 0.3%. Jafnframt verður heimild til álagningar aðstöðugjalds samræmd.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir aðgerðum til styrktar einstökum iðngreinum sem eiga í vök að verjast vegna innflutnings á vörum sem eru seldar á óeðlilega lágu verði vegna opinberra styrktaraðgerða í framleiðslulandinu.

Á næstu mánuðum verður gerð sérstök úttekt á iðnaði og fiskvinnslu með hagræðingu, aukna framleiðni og betri nýtingu fjármuna fyrir augum. Sérstaklega verður endurskoðuð tollheimta af tækjum til atvinnurekstrar til þess að bæta möguleika á framleiðniaukningu í þessum greinum.

Með tilliti til þess, að ekki verður hjá því komist að loðnuflotinn fái í auknum mæli heimild til þorskveiða, verða settar strangari reglur til að koma í veg fyrir frekari stækkun fiskveiðiflotans, án þess þó að stöðva nauðsynlega endurnýjum. Í þessu sambandi verður Úreldingarsjóður fiskiskipa efldur.

Peningamál.

Með sérstökum aðgerðum í peningamálum mun ríkisstj. reyna að tryggja að þessi þáttur efnahagslífsins stuðli að auknu jafnvægi og hjöðnun verðbólgu. Áætlanagerð um peningamál verði notuð í því skyni að þróun helstu peningastærða miðist við þann ramma sem efnahagsstefna og markmið ríkisstj. myndar.

Aðhald í peningamálum verði aukið með ýmsum ráðstöfunum og látið ná til allra þátta sem áhrif hafa á þróun útlána og peningamagns. M. a. verði sveigjanlegri bindiskyldu beitt í þessu skyni. Lagt verði að innlánsstofnunum að gæta ítrasta aðhalds í útlánum, þannig að þau verði í samræmi við efnahagsstefnuna. Unnið verður að því að draga úr fjármagnskostnaði, m. a. með lækkun vaxta í samræmi við hjöðnun verðbólgu.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir nýrri lagasetningu um meðferð hagnaðar Seðlabanka Íslands.

Erlendar lántökur.

Ráðstafanir verði gerðar til þess að draga úr erlendum lántökum. Í því skyni verður leitað samkomulags við viðskiptabankana um aukna þátttöku innlendra lánastofnana í fjármögnun framkvæmda.

Stefnt verður að því að auka innlendan sparnað til þess að draga úr þörf á erlendum lánum. Ýmsir möguleikar verða kannaðir í þessu sambandi, þ. á m. að nota skattalög í auknum mæli til þess að örva sparnað.

Verðlagsmál.

Í verðlagsmálum verður við það miðað að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndun og auka sveigjanleika í verðmyndunarkerfinu, samkvæmt frumvarpi sem lagt verður fram á Alþingi á næstu dögum. Tekið verður upp nýtt fyrirkomulag sem miðar að því að verðgæsla komi í vaxandi mæli í stað beinna verðlagsákvæða. Stuðlað verði að hagkvæmari innkaupum til landsins.

Sveitarstjórnir fái heimild til þess að breyta gjaldskrám fyrirtækja sinna sem nemur hækkun byggingarvísitölu, án sérstaks leyfis frá ríkisvaldinu.

Dregið úr hækkun verðlags.

Ríkisstj. mun á næstu mánuðum draga úr hækkun framfærslukostnaðar með lækkun tolla og auknum niðurgreiðslum á búvöru. Þessar aðgerðir eiga að draga úr ársfjórðungshækkunum verðlags á fyrri hluta ársins um 6%

Kostnaður við þetta, ásamt lækkun launaskatts og stimipilgjalda, mun verða nálægt 400 millj. kr. Fjár til þess verður aflað með eftirfarandi hætti:

Sparnaður í ríkisrekstri.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir niðurskurði á ríkisútgjöldum og fyrir sparnaði í rekstri ríkisins og stofnana þess. Dregið verður úr útgjöldum ríkisins um 120 millj. kr. í ár.

Önnur fjáröflun.

Það fé, sem ætlað var í fjárlögum til niðurgreiðslna og til þess að mæta óvissum útgjöldum í launa- og kjaramálum, verður notað í þessu skyni.

Lagður verði skattur á banka og sparisjóði.

Lagt verði á sérstakt tollafgreiðslugjald við tollmeðferð vöru, samkvæmt nánari reglum sem kynntar verða á næstunni. Greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum, svonefnd tollkrít, verður tekinn upp í áföngum frá næstu áramótum að telja, en því fyrirkomulagi er ætlað að stuðla að hagkvæmari innkaupum og almennri hagræðingu í innflutningsverslun. Jafnframt verða gerðar ráðstafanir til þess, að þessi breyting komi ekki niður á íslenskum iðnaði.

Lán til húsbyggjenda.

Ríkisstj. mun taka til sérstakrar athugunar vanda þeirra sem í fyrsta sinn kaupa eða byggja eigið íbúðarhúsnæði. Lán Húsnæðisstofnunar til húsbyggjenda, sem byggja í fyrsta sinn, verða hækkuð og teknar verða upp viðræður við banka og sparisjóði um lengingu lána húsbyggjenda og íbúðakaupenda með skuldbreytingu svipaðri þeirri sem framkvæmd var á síðasta ári.

Herra forseti. Nú er lokið flutningi skýrslu ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum. Hún hefur verið prentuð og útbýtt á þessum fundi í sameinuðu Alþingi.

Nokkrum orðum vil ég auka við.

Víxlhækkanir verðlags á vörum, innlendum og útlendum, launa, vaxta og margra annarra þátta, þessar víxlhækkanir eru einn helsti orsakavaldur verðbólgu á Íslandi. Þessi víxlgangur, sem stundum er kallaður vítahringur, er hinum sömu eiginleikum búinn sem aðrir hringir og hringar, að menn verða seint sáttir á það hvar hringurinn byrjar og hvar hann endar. En hvað sem því líður, þá er það ljóst að þessi snúningsvél, sem íslenskt efnahagslíf notar nú í öllum sínum greinum, þarf viðgerðar við. Helst þarf að skipta um tæki.

En allt er þetta mál viðkvæmt og vandasamt og þarf að fara með allri aðgát að lausn þess. Ég tel það einn af mikilvægustu þáttum þessara efnahagsaðgerða, að stofnað skal nú þegar til viðræðna við samtök launafólks og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um viðmiðunarkerfi sem gæti komið í stað núverandi vísitölukerfis og tryggt kaupmátt og jöfnun lífskjara, en væri laust við höfuðókosti þess kerfis sem nú gildir.

Hér er ekki um slíkt grundvallaratriði að ræða í efnahagsmálum að allir verða að leggja sig fram með jákvæðu hugarfari til þess að farsæl lausn finnist.

Ég þakka hlustendum góða áheyrn.