28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

354. mál, efnahagsmál

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Rétt í þessu lauk hæstv. forsrh. lýsingu á efnahagsaðgerðum ríkisstj. sem gárungarnir uppnefna „þorrabakkann“. Eins og hlustendur heyrðu af upplestrinum er langstærsti skammturinn í formi loftkenndra yfirlýsinga um að „stefnt skuli að“, „hafnar verði viðræður“, „stuðlað verði að“, „tekið skuli til sérstakrar athugunar“ og fleira í þeim dúr. Þegar þessum loftkökum er ýtt til hliðar er innihaldið vægast sagt rýrt, en það má flokka í þrennt.

Í fyrsta lagi eru sumir skattar og tollar lækkaðir, en aðrir tollar og skattar hækkaðir um mun hærri upphæðir. Í öðru lagi eru útgjöld ríkisins skorin niður um lítið brot eða 1/8 af því sem skattar hafa hækkað á síðustu þremur árum, þ. e. á valdatíma Alþb. og Framsfl.

Og í þriðja lagi er niðurskurðarfénu og skattahækkununum varið til stórfelldra niðurgreiðslna á framfærsluvísitölu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir launahækkanir sem annars hefðu orðið.

Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ kallar þetta drullukökugerð. Annað aðalmálgagn ríkisstj., Tíminn, nefnir þetta bráðabirgðalausn. En sannleikurinn er sá, að með þessum svokölluðu efnahagsaðgerðum hefur ríkisstj. gefist upp í baráttunni við verðbólguna. Í stað þess að telja hana niður eru 400 millj. kr. notaðar til að greiða niður vissar vörutegundir sem vega þungt í löngu úreltum vísitölugrundvelli. Niðurgreiðslur hafa að undanförnu verið notaðar til að lækka laun um 5%, en lækka þau nú um 11%.

Haustið 1979 eða nánar tiltekið hinn 28. nóv. birtist í Morgunblaðinu ágæt grein um niðurgreiðslur. Í henni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Bændur sjálfir og samtök þeirra hafa látið í ljós að niðurgreiðslur megi helst ekki verða meiri en mismunur á framleiðsluverði og söluverði. Þessar miklu niðurgreiðslur skekkja verðlag og draga úr hvöt til að ráðast í nýjar búgreinar. Þær bjóða heim hættu á misnotkun og spillingu. Þær leiða til þess, að þeir ríku fá meira í sinn hlut úr ríkissjóði en þeir snauðu. Þegar dregið verður úr niðurgreiðslum á að bæta láglaunafólki það upp með tekjutryggingu, fjölskyldubótum og afnámi á tekjuskatti þannig að kaupmáttur þessa fólks minnki ekki.“

Í þessari grein er fjallað með vitrænum hætti um þá gífurlegu galla, sem fylgja niðurgreiðslum, og bent á aðrar betri leiðir. Eftir að hafa hlýtt á boðskap hæstv. forsrh. hér áðan um stórfelldar niðurgreiðslur verður það eflaust erfitt fyrir marga að trúa því, að hann er sjálfur höfundur þeirra orða sem ég vitnaði til rétt í þessu. Ég vona — og er reyndar sannfærður um að forsrh. sé sömu skoðunar og hann var fyrir tveimur árum, þótt það hafi orðið hlutverk hans hér í kvöld að lesa þá moðsuðu sem greinilega er samin af framsóknarmönnum og kommúnistum, en þeir eru hvort tveggja í senn úrræðalausir og innbyrðis sundurþykkir í skoðunum. Því verður a. m. k. ekki trúað, að forsrh. vilji ýta undir misnotkun og spillingu, svo vitnað sé til hans eigin orða.

Ástæðan fyrir því, að ríkisstj. fer þá leið að greiða niður landbúnaðarvörur í stað þess að lækka vöruverð með söluskattslækkun er einfaldlega sú, að lækkun á söluskatti er samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar fjórfalt dýrari aðferð fyrir ríkissjóð en niðurgreiðslurnar. Vægi landbúnaðarafurða er svo rangt metið í vísitölugrunninum að hægt er með reikningskúnstum að láta verðbólguna hjaðna með því að greiða niður vörutegundir sem jafnvel fyrirfinnast ekki í verslunum. Hin raunverulega verðbólga heldur hins vegar áfram að vera til, því að aðrar vörur hækka og þær, sem ekki eru í vísitölunni, miklu meira en hinar. Þetta þekkja allir sem annast innkaup fyrir heimilin og þurfa að láta tekjur sínar duga fyrir auknum útgjöldum. Lækkun söluskatts er raunveruleg verðlækkun, en niðurgreiðslur eru pappírslausn sem notuð er til að lækka laun þegar laun eru vísitölutengd við verðlag í landinu.

Hæstv. forsrh. las það úr skýrslu ríkisstj. áðan, að efnahagsmarkmið ríkisstj. væru þau sömu og í efnahagsáætluninni frá gamlársdegi 1980, eða öflugt atvinnulíf, hjöðnun verðbólgu og trygging kaupmáttar, og bætti svo við að tekist hefði að ná þessum markmiðum. Höfundur skýrslunnar hlýtur annaðhvort að vera gersneyddur dómgreind eða gæddur einstöku skopskyni, þegar á það er litið að atvinnufyrirtæki landsmanna hafa verið rekin með bullandi tapi, verðbólgan stefnir í yfir 50 stig og kaupmáttur launa hefur rýrnað, eins og launþegar finna best þegar þeir versla í búðum eða greiða af bankalánum.

Það vekur sérstaka athygli, þegar sagt er að markmiðin nú séu þau sömu og með efnahagsaðgerðunum sem efnt var til í byrjun síðasta árs, að nú er ekki minnst á þær leiðir sem þá voru farnar. Nú er ekki talað um fast gengi eins og gert var í fyrra. Þvert á móti gefa ráðherrar loforð um gengisfall, gengissig eða gengisaðlögun. Í fyrra átti að halda verðlagi niðri með hertri verðstöðvun. Núna er það viðurkennt, að slík ákvörðun var gagnslaus, og lagt til að teknir verði upp nýir starfshættir sem vonandi eru í átt til frjálsari verðlagningar. Í fyrra voru sett sérstök niðurtalningarmörk. Núna er öllum slíkum ákvörðunum frestað til sumars. Í fyrra var verðbótavísitalan skert með lögum undir kjörorðinu: slétt skipti. Núna er framfærsluvísitalan borguð niður með fjármunum skattborgaranna. Auknar niðurgreiðslur hafa komið í stað niðurtalningar.

Af hverju skyldi ríkisstj. ekki efna til svipaðra aðgerða og fyrir ári, ef það er rétt sem hún heldur fram, að þær hafi gefið góða raun? Svarið er auðvitað það, að árangurinn varð ekki meiri en svo, að nú ári seinna er verðbólgan sú sama og hún var þegar stjórnin komst til valda. Ríkisstj. þorir ekki að taka á vandanum því að stjórnarflokkarnir óttast sveitarstjórnarkosningarnar sem fram undan eru. Öllu er slegið á frest vegna þess að kommúnistar, sem hafa hvorki meira né minna en 10 sinnum staðið að vísitöluskerðingu á undanförnum árum, samtals 26.4%, þora ekki að efna til kaupráns rétt fyrir kosningar af ótta við að vekja upp gömlu slagorðin: „Kjósum gegn kaupránsflokkunum“ og „Kosningar eru kjarabarátta“. Og Framsfl., sem lofaði niðurtalningu, lætur kommana kúga sig til frestunar og fær í staðinn loðnar yfirlýsingar um þokukennd markmið á síðari hluta ársins.

Það er fróðlegt að rifja upp við þetta tækifæri viðtal, sem Tómas Árnason átti annars vegar við Tímann og hins vegar við Dagblaðið og Vísi 10. des. s. l., þar sem hann lætur þá von í ljós, að niðurtalningin verði hafin á næstunni. Það skal tekið fram, að Steingrímur Hermannsson var þá eins og stundum áður erlendis, þannig að staðgengillinn vildi láta heyra í sér. Tómas Árnason segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Niðurtalningin felst í því öllu í senn, að lækka skatta og vexti, skerða verðbætur á laun, verðlag til bænda og fiskverð, gæta mikils aðhalds í verðlagsmálum, peninga- og fjármálum og skrá gengi krónunnar þannig að hægt sé að reka útflutningsatvinnuvegina. Nú virðast Alþb. menn harðir á því, að þeir samþykki ekki skerðingu verðbóta á laun. Þeir hafa auðvitað sín sjónarmið. En ég vek á því athygli, að þeir tala um að hrófla ekki við forsendum kjarasamninganna. Þeir halda því opnum dyrum.“

Tómas Árnason hafði varla sleppt orðinu þegar hinn ábúðarmikli formaður Alþb., Svavar Gestsson, tók Tómas Árnason á kné sér og sagði í viðtali við Þjóðviljann:

„Ég tel þetta viðtal við Tómas Árnason gefa alranga mynd af staðreyndum efnahagsmálanna. Það er mjög alvarlegt, að ritari Framsfl. skuli stíga fram á sviðið með þessum hætti, þar sem núv. ríkisstj. hefur jafnan reynt að leysa skoðanaágreining á vettvangi ríkisstj. sjálfrar en ekki með blaðaskrifum.“

Og í kjölfarið kom Ólafur Ragnar Grímsson, eins og Ketill skrækur á eftir Skugga-Sveini, og vildi fá að sparka líka. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Tómas ætti frekar að snúa sér að því að koma í framkvæmd því sem hann hefur látið ógert af ráðstöfunum gegn verðbólgu. Samkv. efnahagsáætlun ríkisstj. um síðustu áramót átti viðskrn. að standa fyrir ýmsu. Meðal þess var endurskipulagning á innflutningsversluninni og innkaupum hins opinbera til að draga úr verðbólgu. Viðskrn. hefur brugðist í þessu,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson.

Þannig var Tómas Árnason kaffærður. Og skömmu seinna kemur Steingrímur Hermannsson til landsins og byrjar að tala, enda nær skrefatalningin ekki til hans, þótt Ólafur Ragnar Grímsson hafi haldið því blákalt fram að blaðrið í Steingrími Hermannssyni væri mesta efnahagsböl þjóðarinnar.

Það er ljóst við lestur skýrslunnar um efnahagsmálin, að Alþb. hefur ráðið ferðinni. Framsfl. verður enn á ný að sætta sig við frestun niðurtalningar, en fær í staðinn stefnuyfirlýsingu um að verðbólgan verði ekki meiri en 35% á yfirstandandi ári og hraðinn verði kominn í 30% á síðari hluta ársins. Út á þessa yfirlýsingu, sem ekkert stendur á bak við, krossfestu framsóknarmenn það sem margir héldu að væri þeim heilagt, sjálfa niðurtalningarstefnuna.

Þegar þetta verðbólgumarkmið er skoðað verður að gera það með hliðsjón af fyrri markmiðum stjórnarinnar. Í stjórnarsáttmálanum stendur skýrum stöfum að verðbólgan í ár eigi að vera 10–12%. Í fjárlagafrv., sem afgreitt var á Alþingi fyrir einum mánuði, er byggt á því, að verðbólgan verði 25–27%. Og nú, einni viku eftir að fjárlög voru prentuð, setur ríkisstj. sér það mark að verbólgan verði 35% á yfirstandandi ári. Hver tekur mark á svona ríkisstj.? Hvaða hald er í þess háttar yfirlýsingu?

Ég bað hagfræðinga að athuga fyrir mig í dag til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að verðbólguhraðinn yrði kominn í 30% á síðari hluta ársins, en það mark er tiltekið í skýrslunni. Til þess að ná þessum árangri verður ríkisstj. að skerða verðbætur launa um 8–10% síðari hluta árs eða öllu meira en gert var 1. mars á s. l. ári. Ríkisstj. hefur ekkert svigrúm til að greiða frekar niður vísitöluna nema ný skattheimta komi til. Þetta er aðalástæðan fyrir frestun, og þetta er í raun sá vandi sem ríkisstj. ætlar að ýta á undan sér fram yfir kosningar, fram yfir kjarasamninga. Sams konar verðbótaskerðing og varð fyrir ári er óumflýjanleg ef sömu stefnu verður fylgt áfram.

Eitt af því, sem vekur athygli við lestur efnahagsskýrslunnar, eru hinar furðulegu hugmyndir höfundanna um bankakerfið. Í skýrslunni segir að ríkisstj. muni beita sér fyrir lagasetningu um meðferð hagnaðar Seðlabanka Íslands, en þar telur Alþb. mikið gull geymt og grafið í jörðu. Þá er annars vegar lagt til að herða eigi bindiskyldu viðskiptabanka og takmarka útlán, en hins vegar sagt að leitað verði samkomulags við sömu banka um aukna þátttöku í fjármögnun framkvæmda. Finnst einhverjum samræmi í þessu?

Í lok skýrslunnar er ákveðið að taka upp viðræður við banka og sparisjóði um lengingu og hækkun lána til húsbyggjenda og íbúðarkaupenda, en annars staðar er sagt að leggja eigi sérstaka skatta, líklega 30 millj. kr., á sömu banka og sparisjóði. Haldið þið, hlustendur góðir, að bankakerfið greiði slíka skatta án þess að koma þeim kostnaði yfir á viðskiptavinina, atvinnufyrirtækin og launþegana, með hærri vöxtum eða dýrari þjónustu? Svona rekur sig hvað á annars horn.

Það er öllum ljóst, sem lesa þá skýrslu sem hér er til umr., að hún gefur ekki tilefni til mikillar umfjöllunar, svo innihaldsmögur sem hún er. Eftir lestur hennar er maður jafnnær um fjölmörg atriði.

Þar sem á eftir mér tala hvorki fleiri né færri en sex ráðherrar vil ég leyfa mér að beina eftirfarandi spurningum til þeirra, til að hlustendur fái skýringar í kvöld á ýmsu því sem ekki sést berlega í holtaþoku skýrslunnar.

Ég spyr Tómas Árnason fyrst: Á hvaða vörur kemur jöfnunartollur? Hve hátt hlutfall og hvað gefur hann í ríkissjóð?

Ég spyr Steingrím Hermannsson: Með hvaða ráðum ætlar ríkisstj. að stuðla að hagkvæmari fjárfestingu í atvinnutækjum en verið hefur, eins og það er orðað? Ég spyr Tómas Árnason: Hvernig og hvenær ætlar ríkisstj. að draga úr fjármagnskostnaði, eins og segir í skýrslunni, þegar þess er gætt, að lánskjör hækkuðu um 48% á meðan verðbólgan er opinberlega skráð 42% á síðasta ári?

Ég spyr Svavar Gestsson: Getur verið að heimildin til að hækka gjaldskrár hitaveitna og rafmagnsveitna umfram framfærsluvísitölu standi í sambandi við þá yfirlýsingu í skýrslunni að taka eigi orkukostnaðinn út úr verðbótavísitölu?

Ég spyr Ragnar Arnalds: Er það rétt, að ríkisstj. hafi ákveðið að lækka lítils háttar toll af heimilistækjum vegna þess, hve margir flýttu sér að kaupa slík tæki fyrir síðustu gengisfellingu?

Ég spyr Ragnar Arnalds: Hvað verður skorið niður af ríkisútgjöldum og hvers vegna varð niðurskurður aðeins 120 millj. en ekki 150 millj. eins og Framsfl. lagði til?

Og af því að Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson hafa styttri tíma en hinir fá þeir bara þessa litlu spurningu: Er það satt, að sjálfstæðismenn í ríkisstj. hafi ekki lagt fram neina tillögu við gerð þessara bráðabirgðaráðstafana?

Góðir áheyrendur. Eins og hér hefur verið rakið er efnahagsskýrslan að langstærstum hluta þokukenndar stefnuyfirlýsingar sem enginn fær hönd á fest. Augljóst er að engin samstaða er í ríkisstj. um að draga úr verðbólgunni með haldbærum aðgerðum. Ótti Alþb. við sveitarstjórnarkosningarnar í maí og komandi kjarasamninga hefur leitt til þess, að ekki er tekist á við vandann heldur átökunum frestað með dýrkeyptum bráðabirgðaráðstöfunum. Framsfl. hefur lotið í lægra haldi í ríkisstj. og ekkert hefur frést um þátt sjálfstæðismanna við tillögugerðina. Eina úrræðið, sem stjórnin hefur orðið sammála um til að halda verðbólgunni í skefjum, er vísitölufals til að koma í veg fyrir of miklar kauphækkanir. Staða ríkisstj. er því orðin keimlík þeirri sem vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar stóð í vorið 1979. Sú stjórn lét lífið haustið eftir í vonlausri baráttu við verðbólguna. Núv. ríkisstj. virðist hafa sætt sig við sams konar dauðdaga og sú vinstri stjórn. Þessi efnahagsskýrsla er þess vegna eins konar dánartilkynning, þótt dánarvottorð verði gefið út síðar og jarðarförinni frestað um stund. — Góðar stundir.