28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

354. mál, efnahagsmál

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Tjaldið er fallið. Glansmynd ríkisstj. er nú í molum, en blekkingarleiknum á að halda áfram. Hér er engin raunhæf lausn til umræðu eða til sýnis, engin varanleg aðgerð.

Við könnumst við plögg af því tagi sem ríkisstj. kynnir nú. Hún lagði fram sams konar plagg í fyrra. Þá var plaggið í 32 tölusettum liðum. Nú eru þeir 22, en ótölusettir. Í fyrra bar plaggið nafngiftina „efnahagsáætlun“. Núnar er það nefnt „skýrsla“. Sumt í þessari skýrslu er meira að segja orðrétt upp úr gamla plagginu, en annað með breyttu orðálagi. Það stendur ekki steinn fyrir steini í óskalistanum frá því í fyrra og eins mun verða um þetta plagg. Það verður því ekki dæmt á grundvelli orðagjálfursins. Besti mælikvarðinn er verk ríkisstj. sjálfrar, og verkin á liðnu ári eru vitaskuld gleggsti dómurinn.

Ríkisstj, hefur ekkert gert. Viðnámsaðgerðirnar frá því í fyrra runnu út í sandinn og verðbólgan veður áfram. Það plagg, sem hér er birt, er ekki til þess að bjarga þjóðinni, það er til þess að bjarga ríkisstj. Ríkisstj. er meira annt um sjálfa sig en um þjóðina. Á annan mánuð hefur landið verið stjórnlaust meðan ríkisstjórnarflokkarnir, Framsókn og Alþb., hafa þráttað um orðalag, aðgerðir og reyndar aðgerðaleysi. Á sama tíma gekk fjöldi fólks atvinnulaus fyrir tilstilli ríkisstj. og stefnuleysis hennar. Enn liggur mestur hluti stóru togaranna bundinn við bryggjur og enn búa fjölmargar fjölskyldur við atvinnuleysi af þessum sökum. Um það hirðir ríkisstj. ekki. Hún er upptekin við að bjarga sjálfri sér, en ekki af því að stjórna landinu.

Auk upptalningar á ýmsu, sem stefnt skuli að eða athugað, rétt eins og í plagginu frá því í fyrra og þá var ekkert með það gert, er innihaldið í boðskapnum þetta:

1. Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðir skulu stórauknar og eitthvað krafsað í tollamálum.

2. Fundnir eru upp nokkrir viðbótarskattar, þar á meðal tollafgreiðslugjald, til að mæta þessum útgjöldum og svo er stefnt að því að skera niður opinberar framkvæmdir og ótiltekin önnur ríkisútgjöld til að brúa bilið.

Með þessu móti er ætlunin að ná niður mælingunni á framfærsluvísitölu og þar með að lækka kaup um 6%. Þennan niðurgreiðsluleik þekkjum við. Kartöflur, smjör og kjöt munu lækka 1. febr., en hækka aftur mánuði síðar. Þessar vörur munu lækka á ný hinn 1. maí, en hækka svo aftur hinn 1. júní. Lækkunin gildir þannig einungis rétt á meðan framfærsluvísitalan er mæld svo að kaupið hækki ekki. Þetta er blekking og þar að auki helber sviksemi. Gallinn er líka sá, að við borðum ekki eins mikið af kartöflum og keti og vísitalan sýnir. Þess vegna felst í þessum aðgerðum 4% hrein kjaraskerðing — kjaraskerðing sem hvergi mun koma fram í opinberum mælingum og þá ekki heldur í þeim tölum sem birtar verða um kaupmátt og ríkisstj. ætlar væntanlega að státa sig af. Við hin sjáum hins vegar verðhækkanirnar í kringum okkur og hvernig kaupið endist sífellt verr. Þegar svona er staðið að verki er buddan réttlátasti mælikvarðinn, en ekki falstölur ríkisstj. um kaupmátt á grundvelli vitlausrar verðbólgu.

Þessi niðurgreiðsluleið er vitaskuld skrípaleikur. Kauphækkunin, sem launþegar fengu nýlega, er nú tekin til baka og vel það. Nákvæmlega það sama gerðist í fyrra. Í bæði skiptin hrósuðu ráðherrar Alþb. sjálfum sér upp í hástert af því, hve góðir samningarnir hefði verið og hófsamir sem þeir hefðu staðið að. En þeim var það alveg fyrirhafnarlaust að kippa því til baka í fyrra, sem þeir blessuðu áður, og ógilda í raun þá samninga sem þeir gerðu þá. Nú er það sama að gerast aftur. Svo er gengið fellt og hringavitleysan heldur áfram. Landið er svo stjórnlaust meðan ráðherrarnir rífast. Ég held að allir landsmenn sjái að hér er barist við vindmyllur. Það næst enginn varanlegur árangur. Það eru engar raunverulegar framfarir. Ein bráðabirgðaráðstöfunin rekur aðra. Lausnin er vitaskuld hvorki leiftursókn íhaldsins né niðurgreiðslublekkingar Framsóknar og Alþb.

Við skulum horfast í augu við staðreyndirnar. Þetta kerfi hefur skilað okkur miklu í verðbólgu, en engu í lífskjarabótum. Þar á ofan er nú erlendum skuldum hlaðið upp. Á næsta ári fer næstum því helmingurinn af erlendum lánum í að borga af gömlum erlendum lánum og þriðjungurinn af því, sem þá er eftir, fer í hrein eyðslulán. Þriðja hver branda, sem úr sjó er dregin, fer til þess að mæta greiðslubyrði af erlendum lánum. Líka á þessu sviði stefnir í vítahring vitleysunnar. Þetta ráðslag dugar ekki. Við getum gert betur, Íslendingar, og við verðum að gera betur. En til þess þarf líka gerbreytta efnahagsstefnu, eins og við Alþfl.-menn höfum barist fyrir og börðumst m. a. fyrir í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar. Þá hindruðu Alþb. og Framsfl. framgang þeirrar stefnu. Því er nú komið eins og komið er og alveg eins og við Alþfl.-menn sögðum fyrir um að fara mundi.

Ég ætla að drepa á nokkra þætti í stefnu okkar Alþfl. manna.

Í fyrsta lagi á að framfylgja raunvaxta- og verðtryggingarstefnu í reynd. Það er ekki gert. Enn brennur spariféð á verðbólgubálinu. Enn er stolið af sparifjáreigendum. Hin hliðin á málinu er sú, að niðurgreitt lánsfé þýðir vitlausa fjárfestingu og það er vitlaus fjárfesting sem er að sliga lífskjör okkar. Heil stofnun, Framkvæmdastofnun, er í því að úthluta niðurgreiddum lánum. Þar er úthlutað gjöfum til útvalinna. Þeir munu græða á verðbólgunni og vilja viðhalda henni. Hluti af verðtryggingarstefnunni er og verður líka að vera lenging lánstíma og hækkun lána, t. d. vegna íbúðakaupa og íbúðabygginga. Um þetta hefur ríkisstj. ekkert sinnt. Það verður að sjá til þess, að ungt fólk geti komið sér fyrir með eðlilegum hætti. Það er hluti af eðlilegum lífskjörum í landinu. Stefnumörkunin á að vera sú, að enginn græði á verðbólgunni og enginn þurfi á henni að halda til að bjarga sér.

Í öðru lagi verða menn að vera ábyrgir gerða sinna. Núna er öllum bjargað, alveg sama hvernig þeir standa sig í atvinnurekstrinum. Ef einhvers staðar er tap er því ávísað á ríkið og ríkið kemur til bjargar. Þessum bakreikningaskrifum á ríkið verður að hætta. Með þessu háttalagi er verið að gera atvinnurekendur ábyrgðarlausa með öllu. Það er óheillastefna.

Í þriðja lagi verðum við að horfast í augu við þá staðreynd, að þjóðin í heild eyðir meira en hún aflar. Auðvitað gildir það sama um þjóðina og hvert einstakt heimili í landinu. Ef menn eyða umfram það sem þeir afla stefna þeir hag sínum í voða. Við höfum fyrir okkur dæmi af lítilli þjóð sem glataði sjálfstæði sínu með því að fara ógætilega í skuldasöfnun. Nýfundnaland var sjálfstætt ríki, en það var tekið upp í skuld.

Lítum á aðra hlið efnahagsmála. Ríkisstjórnir eru sífellt að fella gengið til að bjarga atvinnuvegum og núv. ríkisstj. er síst undantekning í þeim efnum. Að hve miklu leyti þetta er nákvæmlega rétt mat á hverjum tíma um þörfina á gengisfellingu skiptir ekki meginmáli, heldur hitt, að þeirri stefnu er nú fylgt að gera atvinnuvegunum sífellt erfiðara að standa undir þeim kröfum sem við verðum að gera til þeirra. Með gerbreyttri stefnu í málefnum atvinnuveganna getum við og eigum við að gera þeim kleift að borga hærra kaup og þannig jafnframt að draga úr verðbólgunni. Ég skal nefna dæmi um þetta og rekja stefnu okkar Alþfl.- manna að því er þetta varðar.

Þeirri stefnu er nú fylgt að stækka skipastólinn. Þetta þýðir versnandi afkomu hjá sjómönnum og útgerð. Þetta þýðir gengisfellingu og verðbólgu. Við Alþfl.-menn höfum flutt tillögur um að takmarka stærð skipastólsins. Með því móti má gera þessum atvinnuvegi auðveldara en ella að standa undir hærra kaupi.

Ég skal nefna annað dæmi. Þeirri stefnu er fylgt að svelta fiskvinnsluna. Þó er ljóst að með tækniframförum, hagræðingu og bættum aðbúnaði verkafólks í fiskvinnslunni má ná þar betri nýtingu. Þangað er lífskjarabót að sækja — lífskjarabót sem yrði fólgin í því að hækka kaupið og auka kaupmáttinn.

Í þriðja lagi býr land okkar yfir mikilli óbeislaðri orku. Virkjun fallvatnanna og nýting til orkufreks iðnaðar er besta tækifærið sem Íslendingar hafa til að skjóta fleiri stoðum undir þjóðarbúskapinn, finna ný atvinnutækifæri og auka þjóðarframleiðsluna. Þannig yrði skapaður grundvöllur að raunverulegum lífskjarabótum. En þessum málum sinnir ríkisstj. ekki heldur. Hún getur ekki einu sinni ákveðið hvar eigi að virkja.

Í fjórða lagi skal ég nefna stefnuna í landbúnaðarmálum. Enn er það svo, að okkur öllum, Íslendingum, er gert að greiða stórfé með útflutningi landbúnaðarafurða ofan í útlendinga. Þessi stefna rýrir lífskjörin. Ef henni væri breytt í samræmi við það sem Alþfl. leggur til væri hægt að nota þessa peninga t. d. til að lækka skatta. Það mundi þýða raunverulegan bata í lífskjörum.

Í öllum þessum meginþáttum atvinnulífsins fylgir ríkisstj. þannig í reynd kjaraskerðingarstefnu, — stefnu sem eykur verðbólguna, stefnu sem rýrir kjörin. Öll niðurgreiðsluleikfimi, allar kaupránsaðgerðir eru gagnslausar meðan þessi kjaraskerðingar- og verðbólgustefna er ríkjandi í málefnum atvinnulífsins.

Margir Íslendingar búa við smánarlega lág laun og bág lífskjör. Fjöldi fólks á í vaxandi erfiðleikum við að reka heimili sín. Skollaleikurinn með vísitöluna hefur enn frekar rýrt kjör þessa fólks. Við Alþfl.-menn viljum að þessum skollaleik verði hætt. Það er raunverulegur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna sem skiptir máli. Þess vegna er stefna okkar þessi:

1. Skattar á einstaklingum verði lækkaðir til að tryggja rekstrargrundvöll heimilanna. Slík aðgerð knýr ekki verðbólguskrúfuna. Þær krónur, sem menn fá í skattalækkunum, treysta þannig raunverulegan kaupmátt.

2. Komið verði á afkomutryggingu fyrir þá sem lægst hafa launin og búa við lökust kjörin. Slík afkomutrygging yrði greidd þeim launþegum á starfsaldri sem ná ekki tilteknum lágmarkstekjum.

3. Komið verði á eðlilegri lánafyrirgreiðslu til íbúðakaupa eða bygginga þannig að ungt fólk geti komið sér fyrir með eðlilegum hætti. Það er líka þáttur af lífskjörunum að menn geti það.

4. Þegar í stað verði komið á nýjum vísitölugrunni, sem mælir raunverulegan kostnað af framfærslu heimilanna, í stað þeirrar skrípavísitölu sem við höfum nú. Slík ný vísitala mundi afhjúpa svart á hvítu blekkingaleik ríkisstj. Enn fremur ætti að taka upp sérstaka lífskjaramælingu sem sýnir raunveruleg lífskjör með tilliti til allra þátta sem varða kjör heimilanna, þ. á m. áhrifin af skattgreiðslum og aðstöðu til þess að komast yfir húsnæði. Þessi lífskjaravísitala yrði svo tekin til viðmiðunar í aðgerðum stjórnvalda sem miðuðu að því að vernda kjör launafólks.

Þessum aðgerðum, þessari stefnumörkun Alþfl. þarf vitaskuld að fylgja aðhald í fjármálum ríkisins og raunveruleg stjórn í peningamálum, eins og við Alþfl.- menn höfum gert tillögur um. Alþfl. hefur ávallt gert sér ljóst að árangri yrði ekki náð áreynslulaust eða án fórna. Það þarf raunverulega aðhald á öllum sviðum, en ekki einungis orðagjálfur. Það þarf samstillt átak. Núv. ríkisstj. er gersamlega óhæf til þess að ráða við þetta verkefni.

Herra forseti. Ég hef rakið stefnumörkun Alþfl. að því er varðar nokkra meginþætti efnahagsmála. Ég hef ekki séð ástæðu til að fjölyrða sérstaklega um þá skýrslu ríkisstj. sem hér er sögð vera til umr. Hún gefur ekkert tilefni til langrar orðræðu. En ég vil minna á það að lokum, að um þúsund Íslendingar flýja nú land á ári hverju. Skýringin á þessum landflótta er öðru fremur vitlaus efnahagsmálastjórn, — vitlaus efnahagsmálastjórn sem m. a. birtist í skollaleik eins og þeim sem ríkisstj. boðar nú. Það er skylda okkar við landið að snúa þessari þróun við. Það tekst einungis með gerbreyttri stefnu eins og við Alþfl.- menn berjumst fyrir. — Góðar stundir.