28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

354. mál, efnahagsmál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á fundi suður með sjó komst glöggur maður nýlega þannig að orði: Núlifandi kynslóð Íslendinga er sú fyrsta í sögu þjóðarinnar sem hefur stolið sparifé gamla fólksins, og nú þegar það er ekki lengur hægt stelur hún frá komandi kynslóðum með því að hlaða upp eyðslulánum. — Þetta er harður dómur en hann er óþægilega sannur. Í áratugi hefur verðbólga ásamt lágum vöxtum eytt verðgildi sparifjár, en þeir, sem hafa fengið lánsfé, græddu á móti. Síðan verðtrygging varð almenn og vextir raunhæfir hefur sparifénu verið nálega borgið.

Hins vegar bregður nú svo við, að ríkisstj. hefur tekið meiri erlend og innlend lán en nokkru sinni fyrr, ekki aðeins til arðbærra framkvæmda, heldur einnig til neyslu og rekstrar. Þeim byrðum erum við að velta yfir á komandi kynslóðir, börn okkar og barnabörn. Hin gífurlega skuldasöfnun síðustu tvö árin er eitt gleggsta merkið um misheppnaða ríkisstj. sem hefur ekki ráðið við vandamál líðandi stundar og bjargar sér með því að taka lán á lán ofan.

Mestallt s. l. ár bjó ríkisstj. við mjög hagstæðar aðstæður, sérstaklega vegna hækkandi gengis dollars. Um skeið varð þetta til þess að það dró úr hraða verðbólgunnar, enda þótt margar atvinnugreinar ættu við mikla erfiðleika að stríða. Þegar leið á árið tók þó að dimma í lofti á ný og skipti þá engum togum að ríkisstj. missti tök á efnahagsmálunum. Verðbólguhraðinn jókst á nýjan leik og hefur nú í vetur verið nærri því eins og hann gerist verstur. Allt það, sem vannst fram eftir fyrra ári, hefur nú verið eyðilagt. Þjóðin stendur aftur í sömu sporum með óðaverðbólgu, stórfelldan halla á utanríkisviðskiptum, hverja gengisfellinguna á fætur annarri og alvarleg atvinnuvandamál. Ríkisstj. fékk við ekkert ráðið og innan hennar hefur risið alvarlegt ósamkomulag um hvað til bragðs skyldi taka.

Um áramótin kom það fyrir, sem ekki hefur gerst í yfir 20 ár, að fiskiflotinn var bundinn í höfn, aðalframleiðslugrein þjóðarinnar stöðvaðist.

Um áramótin blasti atvinnuleysi við þúsundum landsmanna, en sjómenn í verkfalli urðu að beita hörðu til að beygja sjútvrh.

Um áramótin var iðnaðurinn í kröggum, starfsfólki var sagt upp og verksmiðjum jafnvel lokað.

Um áramótin var nýja krónan okkar eins árs, en hafði rýrnað svo að hún var ekki meira en 55 aura virði, svo mikil hafði verðbólgan verið á liðnu ári.

Er hægt að hugsa sér efnahagslíf Íslendinga öllu verra á sig komið en þetta? Er hægt að hugsa sér þjóðina í öllu meiri vanda en í upphafi þessa árs, rétt fyrir tveggja ára afmæli ríkisstj.?

Sannleikurinn er sá, að um áramótin var ríkisstj. sjálf svo sundurþykk að hún gat ekki komið sér saman um nein úrræði og hafði engan áramótaboðskap að flytja þjóðinni. Í stjórnarflokkunum var talað um í fullri alvöru hvort ekki væri komið að slitum þessa stjórnarsamstarfs og grípa yrði til þingrofs og alþingiskosninga fyrir vorið. Það hefur tekið stjórnina langan tíma að koma sér saman um þær ráðstafanir sem hafa verið kynntar þjóðinni í kvöld. Þær eru veigalitlar og ófullgerðar og geta ekki verið árangur af margra vikna starfi. Sannleikurinn er sá, að undanfarnar vikur hafa ráðherrarnir ekki aðeins verið að setja þennan pakka saman. Þeir hafa fyrst og fremst verið að semja á nýjan leik um stjórnarsamstarfið, þeir hafa verið að endurmynda þá ríkisstj. sem var að falli komin um síðustu áramót. Þessi pólitíska hlið málanna hefur verið aðalatriði vandans, en pólitískar aðstæður réðu því þó að lokum, að samkomulag náðist um að sitja áfram og efna ekki til kosninga í vor.

Þær efnahagsaðgerðir, sem nú eru boðaðar, eru fyrst og fremst athyglisverðar fyrir það sem ekki felst í þeim. Þær hugmyndir framsóknarmanna og Alþb.-manna, sem ekki náðist samkomulag um, féllu niður. Þess vegna segir Tíminn í ritstjórnargrein að þetta sé aðeins bráðabirgðasamkomulag og seinna verði að gera frekari ráðstafanir, en það hafa jafnvel ráðherrar Framsóknar — og raunar Alþb. líka — ekki dregið dul á. Þetta samkomulag dugir í lengsta lagi fram á mitt ár. Þá verður að búa til nýjan pakka.

Í hinni frægu viðtalsbók við forsrh. segir hann á einum stað að um það hafi verið rætt í upphafi stjórnarsamstarfsins að forðast yfirlýsingar opinberlega á meðan mál væru í vinnslu hjá ríkisstj. Þetta er mikilvægt fyrir hverja ríkisstj. því að ekki kann það góðri lukku að stýra, ef stjórnarflokkar og ráðherrar eru stöðugt að bítast opinberlega. Í fyrstu tókst forsrh. sæmilega hvað þetta snertir og virtist vera allgott samkomulag innan stjórnarinnar. En í vetur hefur þetta gerbreyst og hafa ráðherrar og fylgisveinar þeirra stöðugt verið í hári saman opinberlega. Hefur ekki farið fram hjá neinum að samkomulagið, sérstaklega á milli framsóknarmanna og Alþb. manna, hefur verið mjög slæmt. Þeir Tómas og Svavar eða Steingrímur og Ólafur Ragnar hafa í blöðunum svo sannarlega ekki verið samherjum líkir. Það er heitt í kolunum þegar menn deila eins og þessir hafa gert undanfarnar vikur opinberlega.

Eitt af því, sem ráðherrarnir hafa deilt um án þess að komast að nokkurri niðurstöðu, er meðferð hitunarkostnaðar húsa í vísitölunni. Á þessum kalda vetri fer ekki fram hjá neinum að ríkisstj. hefur klúðrað upphitunarmálunum, bæði fyrir þeim, sem búa við gamlar eða nýjar hitaveitur, og hinum, sem verða enn að notast við rafmagns- eða olíukyndingu.

Einn versti gallinn á stjórn efnahagsmála hér á landi hefur verið sífellt kukl og svindl í vísitölunni. Hefur það óvíða verið eins slæmt og á sviði upphitunarmála, en þar er vísitalan látin mæla hitunarkostnað í Reykjavík enda þótt víðar um land sé sá kostnaður 5–6 sinnum hærri. Svo hefur svindlið verið kórónað með því að svelta Hitaveitu Reykjavíkur svo að hún hefur ekki getað borað eftir nýju vatni og er að komast í þrot.

Hitaveita Reykjavíkur er eitt arðsamasta og merkilegasta fyrirtæki sinnar tegundar á jörðinni. Það eru stórkostleg hlunnindi af náttúrunnar hendi að íbúar mesta þéttbýlis landsins skuli hafa gnægð af heitu vatni undir fótum sér nú á tímum hins mikla orkuskorts. En stjórnvöldum hefur farist svo illa við þetta fyrirtæki að það sér fram á skort á heitu vatni og hefur þegar neyðst til þess að grípa til olíuhitunar. Þessa dagana eru gerðar áætlanir um vatnsskömmtun og skort, ef nýtt kuldakast skellur á hér syðra. Olíuhitun og hitaskömmtun í Reykjavík er ekki hægt að kalla annað en hneyksli og ótrúlegt stjórnleysi í orkumálum. Þannig er ástandið þar sem aðstæður eru af náttúrunnar hendi bestar. En hvað er þá að segja um aðra landshluta? Það er í fyrsta lagi ljóst, að vísitölusvindlið í upphitunarmálunum hefur af fólki utan Reykjavíkursvæðisins 5–10% af launum þess. Þetta er auðvitað stóralvarlegt mál, t. d. vestur á fjörðum þar sem fjölskyldur geta verið 15 vikur að vinna fyrir olíunni einni, en vísitalan segir að hitunarkostnaður sé aðeins um 2% af útgjöldum fjölskyldunnar.

Þegar hækkanir á olíuverði voru mestar var lagður á þjóðina sérstakur skattur, viðauki við söluskatt, til að jafna hitunarkostnað milli landsmanna. Þessi skattur mun nú færa ríkissjóði um 190 millj. kr., en af þeirri upphæð hefur fjmrh. tekið 160 millj. til annarra þarfa. Þetta er furðuleg ráðsmennska þegar þess er gætt, hversu þungur baggi hitunarkostnaðurinn er víða um landið. Á þessu sviði ríkir hrikalegt misrétti og er því spáð, að hitunarkostnaðurinn einn geti leitt til þess, að fjöldi fólks gefist upp og flytjist búferlum þangað sem sá kostnaður er minni. Hér er um að ræða öfuga byggðastefnu.

Það er kominn tími til að hætta slíku vísitölusvindli. Ríkisstj. verður að gera sér grein fyrir að fólk sér í gegnum þessar kúnstir og sættir sig ekki við þær. Vera má að landsmenn verði allir að taka á sig byrðar til að bæta efnahag heildarinnar, en þá er farsælast að koma beint framan að mönnum og segja þeim sannleikann. Mörg ár eru nú liðin síðan olíuhækkanirnar miklu gerðust, og það er kominn tími til að jafna metin í hitunarkostnaði milli landsmanna. Það verður einnig að hætta að svelta Hitaveitu Reykjavíkur vegna vísitöluæfinga sem gerðar eru til að blekkja þjóðina.

Það, sem ríkisstj. hefur um mál þessi að segja í yfirlýsingu sinni sem birt hefur verið í kvöld, er svo litið og loðið að við það verður ekki unað, heldur verður að krefjast þess, að málið verði tekið föstum tökum og gerðar ráðstafanir sem um munar til að leiðrétta misrétti og mistök sem gerð hafa verið. Alþfl. heldur uppi stöðugri baráttu í þessum málum á Alþingi. Miklar umr. hafa orðið undanfarið um frv. flokksins um að gera hitunarkostnað frádráttarbæran til skatts. Flokkurinn mun halda þessari baráttu áfram þar til ríkisstj. rumskar og tekur á málinu af þeirri alvöru sem það krefst.

Núv. ríkisstj. hefur setið að völdum í tvö ár. Hún var mynduð á mjög óvenjulegan hátt og var fyllsta ástæða til að lofa henni að reyna sig, sjá hvort hún næði betri árangri en aðrar samsteypustjórnir. En reynslan af stjórninni er ekki góð. Nú um áramótin var efnahagsöngþveitið meira en þegar hún tók við, meira en það hefur verið að ýmsu leyti í 20 ár. Samstarf flokkanna innan ríkisstj. hefur farið út um þúfur og þeim tókst með naumindum að halda henni saman. Ráðherrarnir hafa að vísu náð samkomulagi um að sitja enn um sinn, en efnahagspakkinn, sem þeir færa þjóðinni í kvöld, er léttur og lítils af honum að vænta. Þar er ekkert að finna nema gömul íhaldsúrræði og endurtekin nokkur loforð sem svikin voru á síðasta ári. Eftir tveggja ára reynslu verður ekki komist að annarri niðurstöðu en að þetta sé veik stjórn og ósamstæð.

Reynslan sýnir þjóðinni að Alþb., sem hefur miklu ráðið þessi tvö ár, hefur engin ný úrræði fram að færa, heldur samþykkir kauprán og vísitölusvindl án þess að blikna.

Reynslan sýnir að Alþb. er eins og dauð hönd við stjórn orku- og iðnaðarmála, endalaus skriffinnska og engar ákvarðanir. Þó er það mál málanna fyrir næstu framtíð að íslenska þjóðin hagnýti auðlindir sínar með röskum átökum á sviði orkuvinnslu og nýiðnaðar.

Þessi ríkisstj. hefur verið keypt því dýra verði að gefa Alþb. stöðvunarvald í utanríkis- og varnarmálum. Minni hlutinn er látinn ráða, meiri hlutinn verður að víkja. Þetta skammarlega ástand hefur þegar valdið miklu tjóni og í hverju máli á eftir öðru gera ráðherrar Alþb. einmitt það sem Sovétríkin vildu helst að gert væri eða ekki gert. Öllum lýðræðissinnuðum flokkum ber skylda til að binda sem fyrst enda á þetta neitunarvald kommúnista sem mun í sögunni verða blettur á þessari ríkisstj.

Fyrsta kafla stjórnmálanna á hinu nýja ári er í raun lokið með þessum umr. Ríkisstj. lafir, alþingiskosningar verða ekki í vor, aðeins sveitarstjórnarkosningar. Efnahagsráðstafanirnar eru veik blanda af gömlum bráðabirgðaúrræðum, sem endast e. t. v. fram á mitt ár, alls ekki lengur. Alþfl. mun berjast áfram gegn þessari stjórn, gera kröfur um varanlegri úrræði gegn verðbólgu, um traustara gengi, um framtak í orkumálum, um öflugri iðnað, réttlæti í upphitunarmálum og — eins og ávallt fyrr — félagslega vernd fyrir alla þá sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni.

Ég þakka þeim sem hlýddu. — Góða nótt.