28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

354. mál, efnahagsmál

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Forsrh. og fleiri ráðh. hafa gert grein fyrir ráðstöfunum ríkisstj. í efnahagsmálum. Ég skal ekki endurtaka það, en hins vegar undirstrika málflutning Steingríms Hermannssonar, formanns Framsfl., m. a. um að hér er um skammtímaráðstafanir eða áfanga að ræða. Er með þeim stefnt að því að tryggja nokkra hjöðnun verðbólgu fram á árið, rekstrargrundvöll atvinnuveganna og kaupmátt launa.

Stjórnarandstaðan hefur furðulega lítið til málanna að leggja og málflutningurinn er svo fátæklegur að undrun sætir. Menn hefðu haldið að nýi varaformaðurinn í Sjálfstfl. flytti þjóð sinni úrræði til lausnar vanda. Því var ekki að heilsa, því miður, heldur þuldi hann þrautleiðinlega raunarollu um að allt væri í kaldakoli. Hann sá hvergi út úr sortanum sem umlykur stjórnarandstöðuna í Sjálfstfl.

Þann tíma, sem áhrif þessara efnahagsráðstafana var, og áður en áhrif þeirra fjara út mun ríkisstj. beita sér fyrir kerfisbreytingu í efnahagsmálum. Sú spurning gerist æ áleitnari, hve lengi íslenska hagkerfið getur staðist 40–60% verðbólgu án þess að bíða varanlega tjón af. Hugsandi og ábyrgir menn hljóta að sjá að slíkt ástand torveldar þjóðinni bætt lífskjör og stofnar fjárhagslegu sjálfstæði hennar í vissa hættu. Þegar af þessum ástæðum og raunar fleiri þarf að koma til kerfisbreyting í efnahagsmálum. Framsfl. leggur mikla áherslu á þetta meginatriði. Viðræður um kjaramál milli aðila vinnumarkaðar eru á næsta leiti og því kjörið tækifæri til allsherjarsamráðs og samstarfs um nýjar leiðir og nýtt viðmiðunarkerfi.

Ég hygg að sú skoðun eigi vaxandi fylgi að fagna, að þjóðin nái aldrei verðbólgunni niður á viðunandi stig nema með því m. a. að gjörbreyta vísitölukerfinu. Margir stjórnmálamenn hafa á ýmsum tímum rætt vísitölukerfið og fordæmt það. Lúðvík Jósepsson sagði t. d. í þingræðu 3. maí 1974 orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt er rétt, að það er mikil þörf á því að breyta þeim vísitölugrundvelli, sem notaður er til þess að vernda kaupmátt launa. Sá vísitölugrundvöllur, sem við búum við í dag, er í eðli sínu ósanngjarn, og hann er auk þess stórhættulegur í efnahagskerfinu. Það er rétt, það er ekkert vit í því, að vísitölukerfið skuli vera þannig uppbyggt, að þegar þjóðin verður fyrir stóráföllum, eins og við mikla hækkun á olíuvörum, þá skuli allar launastéttir í landinu fá kauphækkun út á slík óhöpp, en það er það sem gerist nú í dag. Ég tel, að það sé launþegasamtökunum í landinu nauðsynlegt og einnig gagnlegt fyrir vinnumarkaðinn almennt séð að hafa vissa vísitölutryggingu á launum, en það þarf að miða þá tryggingu við allt annað en vísitalan er miðuð við í dag. Nú er hún látin mæla margvíslegar verðbreytingar, sem koma í rauninni litið við hinn almenna launamann. Það þarf því að endurskoða allt það kerfi, því að verði það ekki endurskoðað, er hætt við því, að það verði tekin upp gamla viðreisnaraðferðin að skera vísitöluna niður með öllu, en það hefur líka í för með sér margs konar vandkvæði.“

Þetta sagði Lúðvík Jósepsson á Alþingi árið 1974. Þessi ummæli eiga engu minni rétt á sér nú en þá. Samkv. upplýsingum úr Fréttabréfi Kjararannsóknar nefndar hækkuðu launtaxtar í verkamannavinnu um 1400% á árunum 1970–1979, en á sama tíma jókst kaupmáttur meðaltímakaups um aðeins 25–26%. Á þessu tímabili hallaði undan fæti hjá atvinnurekstrinum, þannig að hinar miklu verðhækkanir á síðasta áratug komu ekki fram í auknum hagnaði þeirra. Það er því ljóst að hinar gífurlegu hækkanir kaupgjalds og verðlags á áratugnum 1970–1979 hafa aðeins að litlu leyti komið launþegum til góða. Þær hafa fyrst og fremst brunnið á báli verðbólgunnar og um leið veikt fjárhagsstöðu fyrirtækja og skert rekstrargrundvöll þeirra.

Þessar staðreyndir sýna okkur að krónutala launa er ekki einhlít til að bæta kjörin nema síður sé. Verðbólga hefur magnast m. a. vegna krónutölustefnunnar og valdið margvíslegum skaða í efnahagslífi þjóðarinnar. Launin eru að vísu stærsti þátturinn í raunverulegum lífskjörum fólks, en verðlagið eða verðbólgan hefur einnig afgerandi þýðingu. Þá koma skattar, vextir og margs konar þjónusta og margt fleira.

Það er ánægjulegt að margir forustumenn launamanna gera sér æ ljósari grein fyrir haldleysi krónutölustefnunnar og benda á þýðingu kaupmáttarins og þess, að aukin verðmætasköpun í þjóðfélaginu er grundvöllur bættra lífskjara.

Það er fróðlegt að lita til grannlandanna og sjá hvernig viðmiðunarkerfi þau búa við.

Á árunum 1967 og 1968 var verðbólga í Finnlandi mjög mikil og samkeppnisstaða útflutningsatvinnuveganna því slæm. Fyrirsjáanlegt var að lækka þurfti gengið mjög verulega eða yfir 30% og var öllum ábyrgum aðilum í þjóðfélaginu ljóst, að ef slík gengisfelling yrði að veruleika með þeim víxlverkunaráhrifum á verðlag og laun, sem af henni leiddi, mundu efnahagsmál Finna gjörsamlega fara úr böndunum. Eftir ítarlegar viðræður á milli ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins var á árinu 1968 samþykktur efnahagsmálapakki í þinginu, sem m. a. fól í sér afnám vísitölubindingar launa. Voru allir hlutaðeigandi aðilar samþykkir þeirri ákvörðun, en Alþýðusambandið hafði þann fyrirvara að þetta væri til reynslu. Í kjölfarið tókst að koma í veg fyrir kollsteypu í efnahagsmálum og verðbólgan minnkaði verulega á næstu árum. Viðmælendur í Finnlandi voru sammála um, að afnám vísitölubindingarinnar hefði verið til hagsbóta fyrir hlutaðeigandi aðila, og töldu að rauntekjur hefðu aukist meira næstu árin á eftir en ella hefði orðið.

Í Finnlandi er kjarasamningum svipað háttað og í Svíþjóð, þ. e. launaliður er endurskoðaður í ljósi verðlagsþróunar, en engin sjálfvirk tenging á milli launa og verðlags. Tekið er tillit til stöðu atvinnuveganna og þjóðarbúsins og möguleika á kaupmáttaraukningu án aukinnar verðbólgu. Auðvitað voru aðstæður um margt ólíkar hjá Finnum borið saman við okkur hér á Íslandi þegar þeir ákváðu með samningum kerfisbreytingu, sem hefur reynst þeim vel. Í Danmörku búa menn við skert verðbótakerfi og virðist stefnt í þá átt að hverfa frá sjálfvirku verðbótakerfi. Í Noregi, Bretlandi og Vestur-Þýskalandi eru laun ekki vísitölubundin.

Af því, sem nú hefur verið rakið, má draga þá ályktun, að skynsamlegt og nauðsynlegt sé fyrir okkur Íslendinga að rjúfa hið sjálfvirka vísitölukerfi, sem hér viðgengst, a. m. k. að einhverju leyti, og semja um kaup og kjör þannig að fullt tillit sé tekið til stöðu þjóðarbúsins og möguleika fyrirtækja til að greiða hærri laun.

Framsfl. hefur ekki viljað ganga svo langt að afnema vísitölukerfið með öllu, heldur að nema á brott ýmsa augljósa agnúa þess, svo sem áhrif skatta og þjónustugjalda almenningsfyrirtækja, þar með orkuþjónustu. Þá tækju vísitölubætur mið af breytingum viðskiptakjara. Með slíkum aðgerðum yrði mjög dregið úr verðbólguhvata vísitölukerfisins. Framsfl. leggur mikla áherslu á, að sem allra fyrst verði hafinn undirbúningur að víðtækari efnahagsaðgerðum sem tryggi varanlegra viðnám gegn verðbólgunni, enda nauðsynlegt til þess að ná þeim markmiðum sem ríkisstj. hefur orðið ásátt um.

Kjaramálin eru mjög stór þáttur efnahagsmála, en að mörgu fleira þarf að hyggja þegar heildarstefna er mörkuð. Þess vegna mun ríkisstj. einnig hefja viðræður við aðila að verðmyndunarkerfi sjávarútvegs og landbúnaðar um breytingar á skipan þeirra mála sem stuðlað gætu að hjöðnum verðbólgu, en treyst um leið kaupmátt og afkomu í þessum greinum. Í þessu sambandi verður sérstaklega athugað að draga úr og breyta álagningu opinberra gjalda á atvinnuvegina til viðbótar við þegar ákveðnar skattalækkanir.

Í verðlagsmálum mun ríkisstj. leggja áherslu á að hvetja til hagkvæmari innkaupa til landsins og auka verðgæslu í stað beinna verðlagsákvæða. Þá verður verðlagskynningu beitt í vaxandi mæli til að vekja athygli neytenda á verðlagi. Þá verða vextir lækkaðir í samræmi við hjöðnun verðbólgu. Niðurgreiðslum verður beitt um sinn í auknum mæli. Síðan koma að okkar mati skattalækkanir til álita. Þá verður dregið úr fjárfestingum til að minnka spennu í hagkerfinu og sparnaðarherferð framkvæmd á vegum ríkisins.

Að lokum þarf að halda áfram ströngu aðhaldi í peningamálum og fjármálum ríkisins. Að svo miklu leyti sem bankakerfið er aflögufært verður fjármagni beint til fjárfestingar án þess þó að þrengja um of að lífsnauðsynlegum útlánum bankakerfisins til atvinnuveganna.

Í öllum greinum þarf að vinna þannig að verðbólgan minnki jafnt og bítandi og að sem flestir verði virkir þátttakendur í aðgerðum. Með slíku allsherjarátaki til niðurtalningar verðbólgunnar er von til jákvæðrar framvindu efnahagsmála sem leggur grundvöll að bættum lífskjörum í landinu.

Það er áríðandi að allir þeir, sem skilja vanda stjórnunar, beiti áhrifum sínum í þágu lands og þjóðar. Hagsmunir þjóðarinnar eiga að sitja í fyrirrúmi gagnvart þrýstihópum og ímynduðum stjórnmálahagsmunum. Heilbrigð skynsemi á fyrst og seinast að ráða ferðinni. — Þökk fyrir áheyrnina. Góða nótt.