26.10.1981
Neðri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar um þá umr. sem hér hefur farið fram. Einn hv. þm. hefur notað 45 mínútur af ræðutíma, dýrmætum vinnutíma Alþingis til þess að fjalla um þetta mál frá þeirri hlið sem raunverulega hefur ekki komið nálægt því frv. sem hér er til umr. Og ég leyfi mér að segja það, að í ræðu hans hafi verið minnst á frv. einu sinni eða tvisvar.

Ég vil í þessu sambandi segja þá skoðun mína hreint út, að það er orðið allt of algengt hér á hinu háa Alþingi að þingmenn tali jafnvel svo klukkutímum skiptir — og eyði dýrmætum vinnutíma þingsins — langt fyrir utan þau mál sem til umr. eru. Það eru örfáir þingmenn sem leyfa sér að taka og nota stóran hluta af þingtímanum á þennan hátt. Ég vil eindregið hvetja til þess, að forsetar þingsins fari að taka þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar, hvernig nýta megi betur þingtímann. Hér sitja þingmenn, þeir sem vilja sinna þeirri skyldu að sitja í þinginu og vera hér á fundum, og þurfa svo að hlusta á umr. af þessu tagi sem koma hvergi nálægt þeim málum sem til umr. eru.