01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

182. mál, tollskrá o.fl.

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það frv., sem hæstv. fjmrh. hefur nú talað fyrir, var boðað í skýrslu ríkisstj. í útvarpsumr. s. l. fimmtudag. Ég á ekki von á að það verði settur fótur fyrir framgang þessa máls. Ég hefði hins vegar talið að það hefði orðið til þess að auðvelda alla málsmeðferð ef hæstv. ríkisstj. hefði verið búin að leggja fyrir þingið hvernig allt þetta dæmi, sem hún hefur hugsað sér í sambandi við sínar ráðstafanir, kæmi út.

Í grg. með þessu frv. er þess getið, hvaða tekjutapi ríkissjóður yrði fyrir miðað við að þetta frv. næði fram að ganga. En hér er aðeins einn þáttur af fleiri sem boðað hefur verið að komi til framkvæmda á næstunni. Það hefði því verið eðlilegast að í umr., sem fram fóru s. l. fimmtudag, og í þeirri skýrslu, sem þinginu var birt þá, væri þetta dæmi allt saman gert upp þannig að þm. gætu séð hvað hver þáttur þessarar grg. þýddi í því dæmi sem þar var fram sett. Því er ekki að heilsa. Ég á von á að fjh.- og viðskn.-menn þessarar hv. deildar vildu gjarnan fá einhverjar upplýsingar í sambandi við þessi mál, og ég trúi ekki öðru en hæstv. fjmrh. hafi gert ráðstafanir til þess, að þeir aðilar, sem undirbúið hafa þau og fjallað um af hálfu starfsmanna hans, séu reiðubúnir að koma og veita upplýsingar.

Hæstv. ráðh. vék að því áðan, að það væri æskilegt að hraða þessu frv. í gegnum þingið því að það biðu sjálfsagt margir eftir því að geta keypt þessi tæki á lága verðinu sem yrði eftir að þetta frv. er orðið að lögum. Ég held að hæstv. ráðh. þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessu endilega, því að einhvern grun hef ég um að þegar hugmynd kom fram um að fella niður eða lækka þessa tolla hafi ekki mikið af tækjum verið til í landinu þannig að þess vegna hafi menn ekki beðið eða bíði með kaup á þeim. Hitt gæti ég látið mér detta í hug, að innflytjendur hefðu ekki leyst út tækin upp á síðkastið þannig að ríkissjóð skorti það fjármagn sem hann annars hefði fengið ef um hefði verið að ræða eðlilegan innflutning þessa síðustu daga.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv., en í fjh.- og viðskn. mun sjálfsagt verða óskað eftir ýmsum upplýsingum í þessu sambandi.