01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

182. mál, tollskrá o.fl.

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. lét einhvern tíma svo um mælt, að sér kæmi það mjög á óvart hvað tollskráin íslenska væri vitlaus, eins og hann orðaði það, og hvað þar væri mikið af furðulegum afgreiðslum og furðulegum ákvæðum að finna.

Þetta er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. Aðflutningsgjöldin á Íslandi eru orðin þvílíkur frumskógur að það er varla nokkur maður, jafnvel ekki í hópi þeirra sem sérstaka þekkingu hafa þó á þeim málum, sem getur treyst sér til að rata með sæmilegum hætti í þeim mikla frumskógi. Einhver allra þarfasta breyting, sem gera þyrfti á íslenskum efnahagsmálum, væri að reyna að grisja þennan frumskóg tolla og aðflutningsgjalda og gera hann eitthvað meira í samræmi við þá tíma sem við lifum nú á. Sú athugasemd hæstv. fjmrh. var því rétt sem hann lét falla á sínum tíma um að þarna væri marga vitleysuna að finna.

Hins vegar harma ég mjög að mönnum skuli aldrei koma til hugar að taka aðflutningsmálin til skoðunar og breytingar nema aðeins þegar menn þurfa á því að halda að möndla eitthvað með vísitöluna og þá sé skoðunin framkvæmd í miklum flýti og reynt að leita að einhverri vöru og lækka tolla á henni fyrst og fremst til að lækka framfærsluvísitöluna fremur en að menn séu að hugsa um að reyna að grisja þann frumskóg sem aðflutningsgjaldaskógurinn er. Er þetta enn eitt dæmið um að allur leikurinn snýst um vísitöluna eina, en ekki þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf á aðflutningsgjöldunum, jafnvel þó að hæstv. fjmrh. hafi lýst skoðun sinni á því máli. Það er eins og hæstv. ríkisstj. komist aldrei út fyrir þessi þriggja mánaða tímabil sín. Öll hennar afskipti af flestum málum snúast um vísitöluleikfimi á þriggja mánaða fresti. Hún kemst aldrei nær einu máli en hvað varðar áhrif þess á vísitöluna og þess vegna verða menn að sætta sig við að aldrei sé hreyft við þessum aðflutningsgjaldafrumskógi nema þegar hæstv. ríkisstj. telur sig til þess knúna að gera það m. a. vegna þess að hún telur nauðsynlegt að koma í veg fyrir að verðbætur verði greiddar á kaupgjald í þessu landi. Þetta er út af fyrir sig ekkert óvanalegt atferli því að hæstv. ríkisstj. hefur áður gert nákvæmlega það sama og hún er nú að gera. Yfirleitt gerist það með sama hætti og hér hefur verið lýst, að hvorki ríkisstj. né Alþingi er gefið neitt ráðrúm til að skoða málið út frá því sjónarmiði að gera einhverjar leiðréttingar og lagfæringar á aðflutningsgjöldunum. Málið snýst alltaf allt um það eitt, með hvaða hætti megi koma í veg fyrir að verðbætur séu mældar á laun.

Ég held að það hafi verið s. l. mánudag, mig minnir það, sem þess var farið á leit við þingflokkana að hafnar yrðu útvarpsumr. um skýrslu hæstv. forsrh. um efnahagsaðgerðir ríkisstj. Á þessum mánudagsfundi var þess óskað af hæstv. fjmrh., að stjórnarandstaðan greiddi fyrir því, að breytingar á tollalögunum næðu afgreiðslu á n. k. mánudegi, í dag, viku síðar. Ég staðfesti það rétt hjá hæstv. fjmrh., að við stjórnarandstæðingar tókum þeirri málaleitan mjög vel. En okkur datt auðvitað ekki annað í hug en að málið yrði tekið til umr. í þinginu í vikunni, yrði lagt fram og tekið til umr. í vikunni og einhver kostur gæfist á því að skoða málið í fjh.- og viðskn. þingsins, jafnvel þó að menn samþykktu að hafa samt þá skoðun eins hraða og mögulegt væri. Það er hins vegar ekki fyrr en í dag sem hæstv. fjmrh. mælir fyrir þessu máli. Hann hefur ekki heldur gert neinar ráðstafanir til þess, sem ella hefði þó verið hægt að gera, að óska eftir því við fjh.- og viðskn. annarrar hvorrar deildarinnar eða báðar að þær skoði málið áður en framsöguræðan væri flutt, sem hefði þó mætavel verið hægt eins og aðstæður eru og væri ósköp eðlilegt að hæstv. fjmrh. hefði farið á leit við fjh. og viðskn. Þetta hefur ráðh. ekki gert. Með öðrum orðum: málið kemur ekki á dagskrá og ekki til skoðunar í þinginu fyrr en nú kl. 2 á mánudegi og hæstv. fjmrh. ætlast síðan til þess að Alþingi afgreiði málið við þrjár umr. í Nd. og Ed. í dag. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvaða tíma eiga menn þá að hafa til að skoða þetta mál, jafnvel þó að menn séu allir af vilja gerðir að taka sem skemmstan tíma til þeirrar skoðunar? Nú er boðaður fundur í þessari hv. deild, sem á að standa til kl. 4. Þá hefjast þingflokksfundir, sem eiga að standa venjulega til kl. 6 eða 7. Það er ekki fyrr en þá að þessu væri lokið sem væri hægt að taka málið til skoðunar og væntanlega ekki hægt að afgreiða málið fyrr en í kvöld.

Er hæstv. fjmrh. að fara fram á að þingfundum verði nú látið lokið til þess að fjh.- og viðskn. gefist þó tóm til að skoða málið? Er hann að fara þess á leit, að þingflokkar fallist á að halda ekki fundi í dag, eins og er þó gert ráð fyrir samkvæmt þingvenju? Hvenær ætlast hæstv. fjmrh. til að menn fái að skoða málið — eða ætlast hann til þess að menn afgreiði málið án skoðunar?

Ég skal taka það fram, aðeins til þess að upplýsa þingheim og hæstv. fjmrh. um að við Alþfl.- menn höfum verið allir af vilja gerðir til að hraða meðferð þessa mál, að þegar fyrir helgi óskuðum við eftir tilteknum talnalegum upplýsingum um tollamál, sem okkur var lofað í dag, til þess að við gætum fjallað um þetta mál og gert m. a. þær brtt., sem við höfum hug á að gera. En þeim mönnum, sem vinna að málinu hefur því miður ekki gefist tími til að svara spurningum okkar enn. Við höfum í hyggju að flytja brtt. við frv. t. d. um að lækka tolla á vörum til sykursjúkra, sem ekki eiga að skipta miklu máli í tolltekjum fyrir ríkissjóð, en skipta þennan hóp sjúklinga verulega máli. Við óskuðum eftir upplýsingum um þessi efni fyrir helgi til að geta verið tilbúnir með afstöðu okkar nógu snemma, eins og hæstv. fjmrh. bað um. Því miður hefur okkur ekki gefist tækifæri enn þá til að útbúa brtt. því að við fáum ekki þessar upplýsingar. Hæstv. ráðh. ætlast til þess, að þingheimur afgreiði þetta frv. sem lög athugunarlaust, án þess að nokkur maður geti komið þar fram með nokkra breytingartillögu.

Ég vil enn fremur benda hæstv. fjmrh. á að formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar, sem á að fá málið til meðferðar, er veðurtepptur austur á landi og getur ekki komið til fundarins. (SV: Hann er á leiðinni.) Varaformaður nefndarinnar er veikur og situr ekki fundi Alþingis, en hins vegar situr varamaður hans þessa fundi. Ég efast um að sá varaþm. kæri sig mikið um að hafa forustu fyrir vinnu nefndarinnar á þeim skamma tíma sem hún hefur til ráðstöfunar.

Ég vil því láta máli mínu lokið með því að lýsa því yfir, að við Alþfl.-menn erum að sjálfsögðu reiðubúnir til að gera allt sem við getum til að greiða fyrir gangi þessa máls. Við áttum von á að hæstv. fjmrh. ekki bara legði mátið fram, heldur mælti fyrir því í síðustu viku svo hægt væri að taka það til meðferðar í þeirri viku. Það var ekki gert. Við bjuggumst þá við því, að hæstv. fjmrh. óskaði eftir að nefndin skoðaði málið þó svo að umr. færi ekki fram um það, svo að menn væru búnir að hafa eitthvað tækifæri til að athuga þær till. sem hæstv. ráðh. hefur fram að færa í málinu. Það var ekki heldur gert. Það er vafasamt að fjh.- og viðskn. þessarar deildar, þó hún vildi ganga til fundar nú og bæði forseta um að fresta fundum deildarinnar, væri fundarhæf þar sem formaður hennar er ekki við. Ég býst varla við að þingflokkar taki því fegins hendi að fella niður fundi sína í dag. Ég vil því eindregið beina því til hæstv. fjmrh. hvort hann geti ekki fallist á þá niðurstöðu að við reynum að vinna þetta verk í kvöld. Ég er reiðubúinn að mæta á fundi fjh.- og viðskn. í kvöld og reyna að ljúka málinu þá og reyna síðan að ganga til afgreiðslu málsins á morgun. Ég tel það ekki forsvaranlegt, að þegar þingflokkar hafa búið sig í stakk til að geta hraðað afgreiðslu svona máls, m. a. með því að afla sér upplýsinga áður en málið er komið á dagskrá, til að geta flutt brtt. við væntanlegt frv. hæstv. fjmrh., sé þeim ekki gefinn svo sjálfsagður tími til að skoða mál af þessu tagi.

M. ö. o. herra forseti, fer ég þess á leit, að hæstv. fjmrh. fallist á að við fáum kvöldið til að skoða þetta mál. Fallist hæstv. ráðh. á það skal ekki standa á okkur Alþfl. mönnum að taka málið til afgreiðslu á morgun.