01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

182. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það þingmál, sem hér er til umr., var lagt fram s. l. fimmtudag, en þá var ekki kostur að mæla fyrir málinu þar sem fram fóru eldhúsdagsumr. Hins vegar var um það rætt við fulltrúa stjórnarandstöðunnar, eins og ég tók fram áðan, þ. á m. við formann Alþfl., að málið yrði afgreitt á einum degi í dag. Þá þegar var ljóst að það yrði ekki mælt fyrir því fyrr en í dag. Það er því ljóst, að ef menn vilja ekki una þessu, þá una menn ekki því samkomulagi sem þeir voru að reyna að gera hér í seinustu viku. Það verður þá að hafa sinn gang. — En ég held að það sé alveg ljóst að það verður ekki mögulegt að afgreiða þetta mál, eins og ég er að fara fram á, öðruvísi en að hnika eitthvað til fundartíma deildarinnar og fundartímum þingflokkanna, þannig að ráðrúm gefist til að skoða þetta mál t. d. milli kl. 3 og 4.30 í dag. Ef það er ekki gert er vonlaust að málið komist fram í dag. Ég vil mega skjóta því að fjh.- og viðskn. deildarinnar, að þetta yrði sameiginlegur fundur nefnda úr báðum deildum þingsins. Það mundi vafalaust spara nokkurn tíma að hafa þann háttinn á.

Í sambandi við brtt., sem hv. þm. kynnu að vilja bera fram á tollalöggjöfinni, eða önnur þau atriði sem menn vildu koma á framfæri í sambandi við þessar efnahagsaðgerðir, þá vil ég vekja á því athygli, að þetta mál er aðeins ofurlítill angi af þessum efnahagsaðgerðum ríkisstj. og það er von á miklu stærra og miklu meira þingmáli, sem mun m. a. snúast um tollamál, en auk þess um launaskattsmál, um skattlagningu á banka og stimpilgjöld og margt fleira. Þá verður auðvitað rétti vettvangurinn til að koma á framfæri tillögum af hálfu stjórnarandstæðinga, sem þeir vilja koma á framfæri í sambandi við afgreiðslu þessara mála. — En sem sagt: Vonir okkar stóðu til þess, að stjórnarandstaðan mundi fallast á að þetta mál, sem út af fyrir sig er mjög lítið mál, gengi greiða leið gegnum þingið í dag, og ég vona satt að segja enn að það geti orðið.