01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

182. mál, tollskrá o.fl.

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það hafa orðið nokkrar umr. um það, hvenær væri hægt að halda fund í hv. fjh.- og viðskn. Sumir eru uppteknir í kvöld þó þeir vildu gjarnan vera á kvöldfundi. En það væri kannske hægt að ná samkomulagi um að hafa næturfund í nefndinni til að afgreiða málið, ef nm. féllust á það. Ég sé enga ástæðu til þess að nefndin geti ekki hraðað störfum sínum við afgreiðslu þessa máls. Eiginlega er það viðtekin regla, að vitaskuld taka varaþm. sæti í viðkomandi nefndum og eru jafngildir og kjörnir aðalmenn á þingi og þegar vantað hefur þm. hefur nú verið viðtekin venja að viðkomandi þingflokkur hefur fengið að tilnefna mann í stað þess sem fjarverandi er þegar mikið hefur þótt við liggja. Ég tel því ekkert athugavert við það.

Í sambandi við brtt., sem fram kunna að koma, get ég ekki fallist á að það sé endilega hægt að flytja aðeins frv. hér og það megi engan veginn neinu breyta í því, ef þm. eða meiri hl. þd. hefur hug á að gera breytingu. Ég vil því mjög gjarnan íhuga betur þau atriði sem hér hefur verið minnst á.

Samkv. þessu frv. er sagt að tollar og opinber gjöld af nokkrum heimilistækjum hafi lækkað á s. l. sumri. Það er rétt þar sem það nær. En hins vegar vitum við að þær aðgerðir hafa verið síðan, bæði gengissig og gengisfelling, að þetta verð er komið yfirleitt í það sama eða næstum því það sama og var á s. l. sumri. Það, sem nú er lagt til að gera, er gert í ákveðnu augnamiði. Það er gert til að greiða vísitöluna niður með þessum hætti. Það má segja að flestar ríkisstjórnir hafi að einhverju leyti fengist við þá iðju, en ekki er því að neita, að ósköp er það óviðfelldið þegar verðuppbætur á laun koma eftir á og þær hafa skapast á þeim þremur mánuðum sem líða á milli útreiknings þeirra. Það, sem hér hefur gerst, er að þessar vörur sem aðrar hafa verið að hækka að 2/3 á því tímabili sem liggur á milli útreiknings á verðbótavísitölu á laun. Því má segja að nú sé gott að vera rausnarlegur þegar mikil kaup hafa átt sér stað á heimilistækjum, sem alltaf eiga sér stað þegar gengisfelling er í aðsigi, og aldrei fer það leynt í landi okkar þegar gengisfelling er í aðsigi, því að það er keppst við að auglýsa gengisfellingu viku eftir viku, og þá reyna menn að losa sig við hvern pening sem þeir eiga til að kaupa eitthvað af þeim tækjum sem koma til með að hækka verulega í verði. Það vita allir, að þegar verður mikil sala í slíkum tækjum, hvort sem það eru heimilistæki sem þessi eða hvort sem það eru bílar eða annað, þá verður dauður markaður fyrst á eftir. Því má segja að ríkissjóður komi ekki til með að tapa miklum tekjum til 1. mars af völdum þessa frv. Hann er búinn að taka frá sínar tekjur þegar, eins og allir skilja, en eftir stendur svo takmörkuð verðbótavísitala. Því get ég vel tekið undir það, sem hv. 7. landsk. þm. sagði, að það mætti e. t. v. eitthvað fylgja hér meira til að bæta nokkuð upp sem ríkissjóður hefur fengið á undanförnum mánuðum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég tek undir það og lýsi því yfir, að ég er reiðubúinn sem nefndarmaður að ganga til afgreiðslu á þessu frv. þannig að það geti farið fljótt í gegnum þingið.