01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

182. mál, tollskrá o.fl.

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Við skulum gera okkur grein fyrir því áður en lengra er haldið, að lög öðlast ekki gildi fyrr en þau hafa verið gefin út. Þó svo að Alþingi samþykkti frv. þetta í dag í bæði Ed. og Nd. mundu lögin þar með ekki hafa öðlast gildi. Alþb.-menn halda auðvitað að allt séu lög ef þeir samþykkja það. En það er nú samt sem áður ekki svo. Til þess að frv. þetta öðlist gildi þarf í fyrsta lagi að samþykkja það á Alþingi og árita af forseta og í öðru lagi að gefa það út í Stjórnartíðindum. Ég á ekki von á að það sé áætlað að Ríkisprentsmiðjan Gutenberg gefi út Stjórnartíðindin í nótt, þannig að þó svo að frv. þetta yrði samþykkt í báðum deildum í nótt mundi það þar með ekki hafa öðlast gildi. Ég sé satt að segja ekki hverju það breytir, hvort frv. verður að lögum í dag eða á morgun, upp á gildistímann. Mér er nær að halda að það mundi ekkert fyrr öðlast gildi þó að það væri samþykkt í dag en ef það yrði samþykkt á morgun.

En það er ekkert aðalatriði. Meginatriði málsins er að sjálfsögðu að menn sýni Alþingi ekki aðeins þá virðingu að stofna ríkisstjórn með aðild Alþb. og undir forsæti Gunnars Thoroddsens. Það er út af fyrir sig mikil virðing við Alþingi að slík ríkisstjórn skuli vera til. En það er líka virðing við Alþingi að hæstv. ríkisstj. gefi alþm. kost á því þó ekki væri nema að skoða á stuttum fundi þær tillögur sem hún gerir. Ég sé ekki að hægt sé, miðað við þingvenjur, að halda slíkan fund í fjh.- og viðskn., nema að fella annaðhvort niður fundi þingsins hið snarasta eða fella niður þingflokksfundi, vegna þess hvernig hæstv. ríkisstj. hefur haldið á málinu. Hæstv. ríkisstj. hafði alla möguleika til að taka málið til meðferðar í fjh.- og viðskn. annaðhvort á fimmtudag, föstudag eða laugardag, jafnvel þó svo hún mælti ekki fyrir málinu fyrr en í dag.

T. d. vil ég benda á að það er ekki rétt, eins og haldið hefur verið fram af hæstv. ríkisstj. að þessi breyting sé á þá lund að felldir séu niður 80% tollar af heimilistækjum. Það eru fjölmörg heimilistæki, sem fólk notar dags daglega, sem enn yrðu í 80% tolli þó að þetta frv. yrði samþykkt. Spurningin er að sjálfsögðu, sem menn þurfa að fá að skoða, hvað því veldur að slíkir hlutir eru eftir skildir. Í 80% tolli eru, eins og ég segi, ýmis heimilistæki, t. d. búsáhöld bæði úr áli, kopar og öðrum efnum sem notuð eru. Allur borðbúnaður er eftir sem áður í 80% tolli. Kaffikönnur allar, rafmagnskönnur, allar kvarnir, grænmetiskvarnir og annað slíkt; þvottavélar til gólfþvotta og annað slíkt eru eftir sem áður í 80% tolli. Meira að segja, hæstv. forseti, verða Carmen-hárrullur eftirleiðis áfram í 80% tolli, og er það þó varningur sem menn vita að er mikið notaður bæði utan og innan Alþingis. Það þyrfti að skoða hvort Carmen-hárrúllur ættu ekki enn fremur að vera felldar úr tolli, a. m. k. lækkaðar um helming. (HBl: Er það ekki síst hagsmunamál Alþb.) Og er það ekki síst hagsmunamál Alþb., það er rétt. Þá vil ég leyfa mér að geta þess, að meðal þess varnings, sem eftir er í 80% tolli, eru nauðsynjavörur eins og t. d. grænmeti, krydd, sveppir, grænar baunir, gulrætur og slíkur varningur, eldspýtur, skóáburður, leirvörur, öll búsáhöld úr áli, stáli, tini, nikkeli og öðru slíku og fjölmargar aðrar slíkar vörur, rakvélablöð, jafnvel ullarklippur, sem líka eru í uppáhaldi hjá sumum hv. þm., líka í Alþb. Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt, þó að menn gefi sér nú ekki mikinn tíma til, að skoða hvort ekki sé rétt til að gæta samræmis þegar verið er að fella niður tolla af hluta heimilistækja, eins og er verið að gera hér, — að gæta samræmis í þeim tollabreytingum til að vera ekki að flækja enn þá meira þann frumskóg sem hæstv. fjmrh. hefur verið að tala um. Hvaða ástæða er til þess, fyrst verið er að fella niður tolla af heimilistækjum, að skilja eftir ýmsar nauðsynjavörur sem ekki eiga að geta skipt sköpum um afkomu ríkissjóðs, en gætu verið gagnlegar fyrir einstaklinginn, væru felldir niður tollar af þeim, án þess að það skipti mjög verulegu máli í tekjum ríkissjóðs, svo sem eins og Carmen-hárrúllur?