01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

167. mál, almannatryggingar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í því frv., sem hér er til umr., er fyrst og fremst verið að samræma ýmis ákvæði barnalaganna almannatryggingalögunum sem kveða á um og lúta að fyrirgreiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins vegna barnalaganna. Eitt af þeim nýmælum, sem fram komu í barnalögunum, var að heimilt væri að ákveða framlag til menntunar og starfsþjálfunar allt til þess að barn nær 20 ára aldri. Ekki var þó fyrir því séð í þeim lögum, hver ætti að vera innheimtuaðili þessa sérstaka framlags eða sjá um greiðslur samkv. úrskurði til foreldra, eins og gert var með önnur nýmæli í þeim lögum. Ljóst er þó að ef þetta ákvæði á að ná tilgangi sínum er nauðsynlegt að í lögum sé tryggt, hver eigi að vera sá aðili sem foreldri eigi aðgang að með slíkar greiðslur, rétt eins og er um önnur nýmæli í barnalögunum sem kveða á um sérstök framlög vegna barna, en í þeim tilfellum er það Tryggingastofnun ríkisins. Er og eðlilegt að þessar greiðslur allar séu á sama stað og Tryggingastofnunin sjái um greiðslur einnig vegna ákvæðis um sérstakt framlag vegna menntunar og starfsþjálfunar, en Innheimtustofnun sveitarfélaga endurgreiði síðan Tryggingastofnun ríkisins þessi framlög eins og önnur framlög sem kveðið er á um í barnalögunum. Sé þetta ekki tryggt er ljóst að ákvæði barnalaganna um sérstök framlög vegna menntunar og starfsþjálfunar muni ekki ná tilgangi sínum, ef einstæðu foreldri er gert að ganga eftir þessum greiðslum sjálft án sérstaks innheimtuaðila eftir að úrskurður valdsmanna liggur fyrir um greiðslur í þessu skyni. Hef ég reyndar spurnir af því, að daglega sé spurst fyrir um þessar greiðslur hjá dómsmrn. og margir hafa af því miklar áhyggjur, að mjög torvelt gæti reynst að ganga eftir þessum greiðslum og erfitt í allri framkvæmd. Ljóst er því að margir einstæðir foreldrar muni standa ráðþrota frammi fyrir því, hvernig nálgast eigi þessar greiðslur eftir að þær hafi verið úrskurðaðar, nema þeim verði tryggður aðgangur að Tryggingastofnun ríkisins vegna þeirra, en Innheimtustofnun sveitarfélaga endurgreiði þær síðan Tryggingastofnuninni, rétt eins og er um meðlagsgreiðslur. Ég hef því ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur lagt fram brtt. á þskj. 291, þannig að framkvæmd þessa ákvæðis barnalaganna verði tryggt. Hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

„Á eftir 1. mgr. 4. gr. komi:

Framlag til menntunar og starfsþjálfunar samkv. 17. gr. barnalaga, nr. 9/1981, er þó heimilt að greiða samkv. úrskurði til 20 ára aldurs.“

Vænti ég þess, að hv. þm. sjái nauðsyn þess að bæta þessu ákvæði inn í svo að ekki þurfi að koma til þeirra erfiðleika og leiðinda sem slíkt getur haft í för með sér, að löggjafinn hafi ekki séð fyrir hvernig framkvæmd þessa ákvæðis barnalaganna skuli háttað.