01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

167. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að bæta við það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði áðan og allt var rétt og satt. Ég vil aðeins skýra hvers vegna þessi breyting kemur fram svo seint.

Í 30. gr. barnalaganna segir, með leyfi forseta: „Foreldri á aðgang að Tryggingastofnun ríkisins um þær greiðslur sem greinir í 19. gr.“ o. s. frv. En sú lagagr., sem hér er verið að heimila Tryggingastofnun að annast einnig, er 17. gr. barnalaganna. Við gerð barnalaganna hefur þess ekki verið gætt, að afgreiðsla og innheimta á þeim viðbótargreiðslum, sem einstæðum foreldrum eru þar veittar, þ. e. samkv. 17. gr., fari gegnum Tryggingastofnun ríkisins. En það gildir um allar aðrar greinar og það mun vera ástæðan fyrir því, að þessa var ekki gætt þegar þessi samræming á almannatryggingalögunum var gerð.

Hins vegar höfum við kynnt okkur það, að ekkert muni vera lagalega á móti því að lög um almannatryggingar heimill þetta þó að þess sé ekki getið í barnalögum, og fulltrúi í dómsmrn. hefur bent okkur á að slíks séu mörg dæmi. Heimild verði raunar að vera í almannatryggingalögum. Ein lög heimila oft fyrirgreiðslu þó að heimildir séu ekki í öðrum lögum. Ég held að hér sé sanngirnismál á ferðinni og sjálfsögð breyting sem ekki kostar endilega mikið fjármagn. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að allar þær greiðslur, sem hér er verið að tala um, eru háðar yfirvaldsúrskurði, þannig að engin slík greiðsla fer fram nema dómari hafi dæmt barnsföður til að inna af hendi þessar greiðslur. Ég vil þess vegna fara fram á það við hv. þm., að við tefjum ekki þetta mál frekar, þó að þessi breyting komi fram svo seint. Ég hygg, að hún sé til bóta og einfaldi afgreiðslu þessara mála, og vil mælast til að málið verði afgreitt héðan úr deildinni í dag.