01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal svara fsp. hv. þm.

Ég ætlaði að fara yfir þá skýrslu, sem fiskifræðingarnir afbentu mér eftir ferð þeirra um austursvæðið, en hv. þm. gerði það sjálfur svo ítarlega að ég held að ég geti sparað mér það að mestu leyti. Sömuleiðis nefndi hann þær tölur sem ég hafði hugsað mér að nefna hér um þróun þessara veiða, sérstaklega um stærð hrygningarstofnsins. Ég gæti einnig lagt það til hliðar. Ég mun því aðeins hlaupa á nokkrum meginatriðum og ekki fara langt aftur í tímann.

Ég minni á það í fyrsta lagi, að samkv. tillögum íslensku og norsku fiskifræðinganna frá því í febr. 1981, þ. e. á s. l. ári, var lagt til að heildarloðnuveiðikvótinn fyrir 1981–1982, þ. e. þessa vertíð, yrði 700 þús. lestir. Farið var fullkomlega eftir þeirra tillögum. Þessu var síðan skipt af norsk-íslensku fiskveiðinefndinni í Osló 19. maí s. l. Ákveðið var að Íslendingar fengju 617.385 lestir, Norðmenn 82.615 lestir. Þarna var dregið dálítið af Norðmönnum, því að þeir höfðu farið yfir sumarið 1980. Samtals rúmlega 22 þús. lestir voru af þeim dregnar.

Næst fóru fram mælingar íslenskra og norskra fiskifræðinga 14–23. okt. Þá höfðu Norðmenn að sjálfsögðu lokið sínum veiðum við Jan Mayen og sömuleiðis höfðu Efnahagsbandalagslöndin hætt sínum veiðum við Austur-Grænland eða á gráa svæðinu á milli Jan Mayen og Grænlands, en Íslendingar áttu þá eftir að veiða 350 þús. lestir. Þá kom fram mæling upp á 144 þús. lestir, og ég hygg að það hafi verið þá sem hv. þm. rak upp sitt ramakvein eða hvað hann kallaði það áðan. Ég ákvað að stöðva ekki veiðar þá, því satt að segja trúði ég þessum tölum eftir að ég var búinn að ræða við fiskifræðinga ítarlega um málið og sömuleiðis eiga fund með skipstjórum og öðrum sem mikla reynslu hafa. Ég ákvað hins vegar að senda rannsóknaskipið Bjarna Sæmundsson strax út til áframhaldandi mælinga. Var lagt sérstakt fjármagn í það. Sem betur fór kom í ljós að miklu meira magn var þarna heldur en áður hafði verið talið, 325 þús. lestir voru mældar. Og miðað við það, sem veitt hafði verið í millitíðinni, samsvarar þetta um 450 þús. lestum eða þrisvar sinnum meira en átt hefði að mælast samkv. fyrri mælingum. Engu að síður voru loðnuveiðar stöðvaðar þá, nema ákveðið var að leyfa þeim skipum, sem ekki höfðu náð 50% síns kvóta, að halda áfram. Þetta var gert að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Og ég vek athygli á því, að sjómenn og útgerðarmenn hafa sannarlega ekki síður hagsmuna að gæta þarna en aðrir — og raunar meiri þegar tekið er a. m. k. tillit til þess sem þeir verða fyrir af þessum ástæðum nú, þó að ég dragi á engan máta úr þeim framtíðarafleiðingum sem hrun loðnustofnsins hefur, og kem ég að því síðar.

Þessar veiðar gengu satt að segja ekkert sérlega vel hjá þessum skipum. Það voru mjög miklar ógæftir, lítið náðist og enn þá eru um 10 þús. lestir sem þessi skip hafa ekki náð. Veiðar eru ekki stundaðar af neinum krafti.

Síðan var aftur mælt nú í janúar, eins og fram hefur komið, og þá kemur sú niðurstaða, sem hv. fyrirspyrjandi rakti, að hrygningarstofninn sé 150 þús. lestir. Er það mjög í samræmi við það sem reikna má út frá fyrri mælingum, þegar tekið er tillit til þess, að mjög mikið af þorski er á þessum slóðum og mjög mikið af þessum stofni hefur af þeim orsökum fyrirfarist.

Veiðar standa þá þannig, að Norðmenn hafa veitt samtals á þessari vertíð 91 400 lestir, Íslendingar 484 600, höfðu eins og ég sagði áður heimild til að veiða 617 þús. lestir. Færeyingar hafa veitt við Jan Mayen 2867 lestir, við Grænland 13 345. Danir og Írar hafa samtals veitt um 20 700 lestir. Allir hafa þarna náð sínum kvóta og talsvert meira nema við Íslendingar sem erum þarna um það bil 100 þús. lestum fyrir neðan.

Ákveðið var, um leið og þessar niðurstöður komu, að Bjarni Sæmundsson færi til rannsókna hér á vestursvæðinu og reyndar austur með Norðurlandi og aftur á austursvæðið. Þá á loðnan að hafa aðskilið sig þannig að hrygningarstofninn sé sér. Að höfðu samráði við hagsmunaaðila ákvað ég hins vegar að stöðva ekki þau örfáu skip sem þarna eru. Ég held ég megi segja að það hafi verið mat allra, að það breytti út af fyrir sig mjög litlu þó að þessi skip fengju að halda smávegis áfram. Hins vegar hef ég þegar hafið viðræður við bæði fulltrúa LÍÚ og við sjómenn og það eru reyndar fundir bæði í dag og á morgun um framtíð loðnuveiðanna. Um gífurlega mikið áfall er að ræða fyrir þau skip sem ekki hafa náð t. d. nema helmingi af sínum kvóta. Margir hverjir þeir útgerðarmenn byrjuðu veiðarnar seint í þeirri góðu trú, að þeir gætu náð þessu magni, og byggðu þá á því, að ódýrara yrði við þær að fást seinna þegar loðnan væri komin nær. Ég hygg að margir hafi talið þetta skynsamlegt, en fyrir bragðið hafa þeir misst af strætisvagninum. Þess vegna er í athugun nú að bæta þetta eins og lög framast leyfa úr Aflatryggingasjóði, og er verið að fjalla um það í dag. Heimild er til þess að bæta slíkt tjón að hluta þegar veiðar eru skyndilega stöðvaðar.

Í öðru lagi hefur verið gert ráð fyrir því, og var reyndar gert ráð fyrir því fyrir áramótin í skiptingu á þorski á milli togara og báta, að töluverður hluti — ef ekki nálægt allur þessi loðnufloti kæmi inn í þorskveiðar í jafnvel ríkara mæli nú en var í fyrra. Ég hef einnig rætt við forustumenn LÍÚ um það, hvort ekki væri unnt að ná samkomulagi um skynsamlega ráðstöfun á þessum flota, t. d. þannig að minnstu bátarnir kæmu á þorskveiðar, en þá fengju færri skip loðnukvóta á næstu vertíð. Jafnframt hef ég boðist til þess að skoða síldarveiðarnar í þessu sambandi. Þær verður að skoða hvort eð er. Við getum ekki haldið síldveiðum áfram eins og verið hefur. Kostnaðurinn er allt of mikill með svo mörgum bátum og má áreiðanlega gera þar mikið til hagræðingar. Þetta er nú til umræðu. Ég skal ekki segja hver niðurstaðan verður.

Hins vegar vitum við að mjög mörgum af hinum stærri loðnuskipum er verið að breyta. Það liggja fyrir margar umsóknir um slíkt í Fiskveiðasjóði. Engar hafa verið afgreiddar, en sumum skipanna er búið að breyta engu að síður. Þetta er kostnaður frá 1–3 millj. kr. á skip og væri vitanlega æskilegt að fara skipulegar í þau mál. En staðreyndin er sú, að það er ekki litið svo á, að 14. gr. fiskveiðilaganna gefi sjútvrh. heimild til þess að takmarka fjölda skipa á togveiðum. Sérstök ákvæði gilda um togveiðar í fiskveiðilögunum. Að vísu er þetta dálítið umdeilt mál, en sjútvrh. hafa ekki treyst sér til að beita 14. gr. fiskveiðilaganna til að takmarka fjölda skipa á togveiðum. Eins og er er ekki talið að heimild sé til að banna slíkar breytingar út af fyrir sig, enda náttúrlega æskilegast og sjálfsagt að reyna að ná þessu máli fram, eins og gert hefur verið á undanförunum árum, með sem víðtækustu samkomulagi.

Ég vil taka undir það sem hv. fyrirspyrjandi sagði um hið alvarlega ástand sem hefur skapast. Ég dreg á engan máta úr því. Hitt er svo annað mál, að þó að töluvert hafi verið rætt um hve viðtæk áhrif það kunni að hafa að loðnustofninn gengur svona saman, þá eru svör við því ekki einhlít og ég get litlu bætt við það sem hann sagði um það áðan. Fróðir menn og fiskifræðingar hafa jafnvel vakið athygli á því, að frá mjög litlum hrygningarstofnum hafa komið stórir árgangar. Eru mörg slík tilfelli þekkt. T. d. held ég að ég fari rétt með að 1973 árgangur af þorski var af litlum stofni kominn. Því er ekki þar með sagt að þetta þýði beinlínis hrun loðnustofnsins. En það er líka staðreynd, að 1976 árgangurinn af þorski er líklega sá stærsti sem verið hefur á Íslandsmiðum lengi, mjög stór. Það vakti athygli fiskifræðinganna þegar þeir voru við þessar mælingar, að þeir urðu varir við mjög mikið af þorski í kringum loðnugönguna. Eflaust heggur þorskurinn stórt skarð í þann loðnustofn sem þarna er eftir. Og því miður eigum við engin ráð til að koma í veg fyrir það.