01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég verð að játa það, að mér finnst hæstv. sjútvrh. taka á þessu máli af nokkurri léttúð. Ég held að hann geri sér ekki grein fyrir þeirri staðreynd, að vísindamenn okkar eru þeirrar skoðunar, að þorskstofninn getur á 2–3 mánuðum étið upp það magn af loðnu sem er í sjónum. Ég held líka að menn geri sér ekki fulla grein fyrir því, að ef loðnustofninn hverfur, ef hann hrynur, er étinn upp, veiddur upp, þá er þar á ferðinni svo alvarlegt mál að engu tali tekur. Og það var þess vegna sem ég í okt. s. l., þegar þetta mál kom hér til umr. og það upplýstist að loðnustofninn væri um 150 þús. lestir — sem hann sem betur fer reyndist ekki vera, heldur stærri — krafðist stöðvunar veiða. Þó að hann hefði reynst þá vera 300 þús. lestir hefði átt að stöðva loðnuveiðarnar, vegna þess að það var það lágmark sem fiskifræðingar töldu, að hrygningarstofn loðnunnar mætti fara ofan í, og það er auðvitað nánast að gæla við og leika sér að fjöreggi þjóðarinnar að tala í bjartsýnistón um að þetta mun nú bjargast allt saman, á sama tíma og sjálfir fiskifræðingarnir segja að stofninn sé hruninn. Mér finnst að menn ættu að skoða örlítið tölurnar um þennan blessaða loðnustofn.

Ég benti á það áðan, að 1973 var stofninn talinn vera 41/2 millj. tonn. Hann er núna kominn niður í 150 þús. lestir. Þyki mönnum þetta ekki alvarleg tíðindi, þá er ég hræddur um að fátt, sem ber á góma í þingsölum, þyki alvarleg tíðindi miðað við þetta. Ég held að menn verði að taka þetta mál mjög alvarlega og þar sem hæstv. sjútvrh. kallaði ramakvein hjá mér 28. okt. s. l., þegar ég skoraði á hann að stöðva þessar veiðar, a. m. k. meðan verið væri að rannsaka stofninn nákvæmlega, hafi það verið ramakvein, þá veit ég ekki hvað á að kalla þessa utandagskrárumræðu mína núna. Ég hef fengið þær upplýsingar hjá fiskifræðingum, að ef svo er nú komið, sem þeir óttast mjög, að stofninn sé hruninn, þá muni það hafa svo alvarlegar afleiðingar á þorskstofninn á næstu mánuðum og árum að nánast sé útilokað að spá um það. Og það sem er verra, ef þorskurinn finnur ekki loðnu í sjónum gengur hann á karfastofninn og hann gengur á kolmunnastofninn. Þetta er líka mjög alvarlegt mál.

Ég vil eindregið skora á hæstv. sjútvrh. að hann taki þetta mál nú það alvarlega, að hann láti sér ekki til hugar koma að heimila veiðar á einni einustu tutlu af loðnu til viðbótar. Það má vel vera að loðnuskipstjórar, sem koma á fund hæstv. sjútvrh., geti talið honum trú um að það sé nóg af loðnu í sjónum. En ég er hræddur um að sú ábyrgð, sem nú hvílir á herðum hæstv. sjútvrh., sé það mikil að hann verði — eins og ég sagði 28. okt. — að taka á þessu máli af mikilli festu og með mikilli alvöru.

Ég verð að segja það um loðnuflotann, sem nú er verið að tala um að breyta með tilkostnaði sem er um 1–3 millj. kr. á hvert skip: hvert ætlar hæstv. sjútvrh. að beina þessum flota þegar hann er tilbúinn í slaginn? Það er kannske orðið fyllilega tímabært fyrir fiskveiðiþjóðina Íslendinga að fara að huga að því, hvort hún geti ekki fundið verkefni fyrir hluta af sínum flota, sem liggur bundinn í höfn stóran hluta af árinu, hjá einhverjum öðrum þjóðum, hreinlega hjá einhverjum öðrum þjóðum, til þess að þessi mikla fjárfesting nýtist Íslendingum að einhverju leyti, að þeir geti a. m. k. notað þessi dýru skip.

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða þetta meira. En ég verð að segja alvega nákvæmlega eins og er, að ástandið, sem nú hefur skapast í þessum málum, er að mínu mati og mati þeirra manna, sem fróðir eru um þennan málaflokk — og þá líka loðnuskipstjóranna margra og kannske flestra þeirra, orðið svo alvarlegt að við getum ekki talað um þetta mál í fyrsta lagi með einhverri tæpitungu. Og við getum ekki leyft okkur, eins og staðan er nú, að taka á þessu og afgreiða þetta með einhverju bjartsýnistali um það, að lítill stofn af loðnu, sem verður fyrir meiri áhrifum af umhverfisbreytingum en nokkur annar fiskstofn í sjónum í kringum landið, verði fyrir einhverja töfraformúlu að risastórum loðnustofni sem við getum síðan haldið áfram að veiða úr á næstu árum.