01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Í umr. um þetta mál á síðasta fundi deildarinnar voru þm. Alþfl. allhávaðasamir og langt frá því að vera málefnalegir, enda vart við því að búast. Það sem greinilega setti þá úr jafnvægi, var sú gagnrýni sem ég flutti á tillöguflutning þeirra á þskj. 128, þar sem ég benti á að með frv. gerðu þeir aðeins ráð fyrir að frádráttur orkukostnaðar vegna íbúðarhúsnæðis kæmi að notum fyrir efnameira fólk, en láglaunafólkið og lífeyrisþega, þ. e. elli- og örorkulífeyrisþegar, sem að jafnaði greiða ekki tekjuskatt, þessi stóri hópur í þjóðfélaginu á engar bætur að bera úr býtum vegna orkukostnaðar samkv. þessu frv. en þarf þó mest á leiðréttingu að halda.

Í grg. með frv., sem tekin er úr ítarlegri könnun þessara mála sem Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur gert, segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Gefur auga leið hve illvænleg áhrif þetta mikla misrétti í orkukostnaði hefur í lífsafkomu fólks, og margt láglaunafólk og lífeyrisþegar hafa í rauninni vart fjárhagslega getu til þess að axla þá byrði. Eru mörg dæmi um láglaunafólk og lífeyrisþega, sem orðið hafa að neita sér um ýmsar grundvallarþarfir til þess eins að geta risið undir orkukostnaði við heimilishald. Og sumt fólk hefur bókstaflega hrakist frá heimilum sínum og brott úr heimahéraði sínu sakir þessarar mismununar.“

Í lok grg. segja flm. að leysa þurfi mál þessa fólks með breytingu á greiðslum úr almannatryggingakerfinu. Þar með er málið afgreitt. Ég þarf ekki að endurtaka hér að ég er ekki sammála þessu. Við leysum ekki þennan mikla ójöfnuð í þjóðfélaginu á þennan hátt, gegnum skattakerfið. Það er nógu flókið og á margan hátt óréttlátt þó við bætum ekki nýju flóknu kerfi við.

Það eina raunhæfa í þessu máli er jöfnun orkuverðs. sem betur fer eru flestir sammála um nauðsyn og réttmæti þess, en menn greinir á um leiðir. Hér spilar inn í hið vitlausa vísitölukerfi sem við búum við og hvergi þekkist í nálægum löndum. Það mætti að vísu tala langt mál um það atriði eitt sér og ég get tekið undir lýsingu hv. 5. þm. Suðurl., Magnúsar H. Magnússonar, á því sem hann nefnir vísitölusvindlið. Þetta er einmitt það sem við framsóknarmenn viljum leiðrétta og höfum barist fyrir árum saman og ekki talað neitt tæpitungumál í stefnu okkar né á framboðsfundum.

En hefur Alþfl. í raun viljað breyta þessu kerfi? Alþfl. menn hafa haft tækifæri í ríkisstj. og í forustu launþegahreyfingarinnar. Ég tók eftir því við umr. á síðasta þingfundi þegar þetta mál var til umr., að hv. 6. landsk. þm. brá er hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, lýsti sök á hendur verkalýðshreyfingunni eða verkalýðsforustunni. Umræður um nýjan og breyttan vísitölugrundvöll voru komnar á lokastig í fyrrv. ríkisstj. með þátttöku Alþfl. En hvað skeði? Alþfl.-menn skorti kjark, þegar komið var að lokaafgreiðslu málsins, og hlupu frá málinu eins og frá fleiri góðum málum í þá tíð, enda ekki von að menn eins og hv. þm. Magnús H. Magnússon fái að taka jákvæðar ákvarðanir með slíka hávaðamenn sér við hlið eins og hv. 6. landsk. þm. og fleiri þess háttar.

Það hefur vissulega skort á raunverulegan og pólitískan vilja til að taka þessi mál til opinskárrar umræðu og leita að skynsamlegri lausn, sem skapi jöfnuð og tryggi jafnframt kaupmátt launa í samræmi við raunverulega verðmætasköpun í landinu, í stað þess að vera sífellt að glíma við lausn efnahagsmála með tilliti til vísitölukerfis sem allir viðurkenna að er meingallað en samstaða fæst ekki til að breyta. Við hvað eru þeir hræddir? Er ekki kominn tími til að láta skynsemina ráða?

Ólafur Jóhannesson, forsrh. í fyrri ríkisstjórn, fól Hagstofu Íslands að láta gera nýja neyslukönnun í landinu, ekki aðeins í Reykjavík, heldur í öllum landshlutum. Hagstofan hefur framkvæmt þessa ákvörðun. Samkv. tilkynningu núv. ríkisstj., sem hér hefur verið fjallað um síðustu daga, hefjast nú viðræður við samtök launafólks og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um nýtt viðmiðunarkerfi sem gæti komið í stað núverandi vísitölukerfis og tryggt kaupmátt og jöfnun lífskjara, en væri laust við höfuðókosti þess kerfis sem nú gildir. M. a. verður reynt að finna leið til þess, að ráðstafanir til að jafna orkukostnað landsmanna valdi ekki aukinni verðbólgu. Á þennan þátt mála leggjum við framsóknarmenn höfuðáherslu, og ég vona sannarlega að forustumenn launþega og hagsmunaaðila atvinnulífsins taki heils hugar þátt í þessum viðræðum og menn loki ekki fyrir skynsamleg úrræði í þessum efnum. Á því er þjóðarnauðsyn.

Eins og ég tók fram í máli mínu fyrst er frv. þetta var til umr. er sérstök nefnd þm. að störfum til að finna leiðir til að jafna upphitunarkostnað í landinu. M. a. skilaði hún tillögum til viðskrh. um hækkun olíustyrks fyrir áramót s. l., sem viðskrh. lét framkvæma. Nefndin hefur ekki lokið störfum, en mér er kunnugt um að þær upplýsingar, sem nefndin dregur að sér, munu gera stjórnvöldum ljóst í hverju vandamálið er aðallega fólgið og hvað helst er til ráða. Ég vil trúa því, að samstaða náist hér á hv. Alþingi um að leysa þetta mál á viðunandi hátt á þessu þingi. Þrátt fyrir hávaða í nokkrum hv. þm. Alþfl. veit ég að þeir munu fylgja viðráðanlegum og skynsamlegum tillögum sem miða að lausn þessa máls. Ég veit að þrátt fyrir yfirborðslegar ásakanir þeirra í garð okkar stjórnarþingmanna, sem fram komu síðast þegar um þetta mál var rætt, vita þeir fullvel að við vinnum að lausn þessa réttlætismáls með ekki minni áhuga en þeir sjálfir vonandi.

Ég vil upplýsa hv. þm. Magnús H. Magnússon, 5. þm. Suðurl., um það, að Landsvirkjun hefur ekki boðið Rafmagnsveitum ríkisins sérstakt niðursett verð á rafmagni til fjarvarmaveitna eða upphitunar hús. Þvert á móti hefur Landsvirkjun ekki viljað semja um niðursett verð til þessa verkefnis. Hér er um að ræða misskilning hjá hv. 5. þm. Suðurl.

Herra forseti. Ég endurtek að það er skoðun mín, að frv. það, sem hér er til umr., leysi ekki það vandamál sem hið mismunandi háa orkuverð til húshitunar í landinu er í dag. Aðrar leiðir þarf að finna og að því er nú unnið.