01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins upplýsa það hér vegna ummæla hv. 5. þm. Suðurl. í sambandi við Landsvirkjun, að við þm. Vesturlands áttum fund s. l. föstudag með orkumálastjóra og hans mönnum og með rafmagnsveitustjóra ríkisins og hans mönnum um þessi fjarvarmaveitumál og hvernig ætti að leysa þennan þátt mála á hinum svokölluðu köldu svæðum sem ekki eiga aðgang að jarðhita. Þar var okkur tilkynnt að útilokað væri miðað við núverandi aðstæður að ná samningum við Landsvirkjun um viðráðanlegt verð til þess að reka fjarvarma. Það væri útilokað að ná þeim samningum, þess vegna yrði að fara aðrar leiðir til orku jöfnunar en þær sem við höfum verið að tala um áður. Það er alveg ljóst, að ef þetta, sem hv. 5. þm: Suðurl. fullyrðir, er til í gjaldskrá Landsvirkjunar, þá neitar hún að láta það til þeirra nota sem um er beðið.