02.02.1982
Neðri deild: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

182. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Ég tel að sú till., sem fram hefur komið, að fella varahluti undir sömu tollalækkun og gerð hefur verið till. um varðandi heimilistæki, sé sjálfsögð og eðlileg og styð eindregið að sú breyting verði gerð á þessu frv. Að öðru leyti get ég ekki fallist á að breytingar verði gerðar á frv., enda þótt vissulega megi segja að margar breytingar á tollum séu eðlilegar og eigi fullan rétt á sér. En það mál er til heildarathugunar í sérstakri nefnd og verður því að bíða síðari tíma að endurskoða þau mál.

Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen spurðist áðan fyrir um, hvernig háttað yrði niðurfærslu verðlags, og óskaði eftir að gefnar yrðu nánari upplýsingar um það mál. Ég vil leyfa mér að benda honum á það, að í útvarpsumr., sem fram fóru s. l. fimmtudag, gerði ég grein fyrir því í höfuðatriðum, hvernig þessari niðurfærslu yrði háttað, og sé ég ekki ástæðu til að fara nákvæmlega út í þá sálma. En í grófum dráttum er um að ræða niðurfærslu verðlags sem kostar 350 millj. kr. Þetta fé verður fengið í fyrsta lagi með sparnaði og lækkun ríkisútgjalda upp á 120 millj., með skatti á banka upp á 40 millj. og að öðru leyti verður fé tekið til þessa úr fjárlagadæminu upp á 190 millj. Það er gert ráð fyrir að niðurgreiðslur, sem nú þegar hafa verið ákveðnar, kosti 165 millj., en sú tollalækkun, sem hér er til umræðu, kostar 22 millj., eða samtals 187 millj. Mismunurinn, sem þarna er á, þ. e. milli 350 millj. annars vegar og 187 millj. hins vegar, er niðurfærsla verðlags sem ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um og verður ekki tekin ákvörðun um fyrst um sinn þannig að ekki er ástæða til að skýra frá því að svo stöddu: En ljóst er að þarna er allmikið fjármagn fyrir hendi sem mun verða nýtt til niðurfærslu verðlags á síðara stigi. Til viðbótar þessu kemur svo tilfærsla á sköttum, sem lýsir sér í lækkun stimpilgjalds og lækkun launaskatts annars vegar, en hins vegar álagningu sérstaks tollafgreiðslugjalds. Það er annar þáttur málsins, sem nánari grein verður gerð fyrir síðar.

Ég ætla ekki hér að fjalla um málflutning hv. stjórnarandstæðinga, því ég vil ekki tefja tímann frekar. Ég vil hins vegar leiðrétta það sem fram kemur í nál. hv. stjórnarandstæðinga, að hér sé verið að lækka toll á heimilistækjum sem séu í vísitölu og engum öðrum tækjum. Þessa fullyrðingu endurtók hv. þm. Sighvatur Björgvinsson æðioft í ræðu sinni áðan, og nokkrir aðrir stjórnarandstæðingar hafa haldið þessu sama fram. En þetta er misskilningur. Hér er verið að lækka toll á frystikistum, en frystikistur eru alls ekki í vísitölumælingunni. Hér er verið að lækka toll á eldhúsviftum, en eldhúsviftur eru alls ekki í vísitölumælingunni. Tollalækkun á þessum tveimur vörutegundum breytir því engu í vísitölumælingunni sem fram fer núna í vikulokin. Nákvæmlega sama gildir um uppþvottavélarnar sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði mjög að umtalsefni rétt áðan. Þær eru alls ekki með í vísitölunni og lækkun tolla á uppþvottavélum hefur engin áhrif á vísitölumælinguna að nokkrum dögum liðnum. Sama gildir um þurrkara, strauvélar, aðrar viftur og brauðristar. Öll þessi tæki, sem ég nú hef nefnt, eru ekki í vísitölunni. Þannig er alrangt að það sé einungis verið að lækka toll á þeim heimilistækjum sem eru í vísitölu. Í vísitölunni eru fyrst og fremst kæliskápar, þvottavélar, hrærivélar og ryksugur, en öll hin tækin, sem tollar eru lækkaðir á, eru þar ekki. Það þótti hins vegar til samræmis rétt að láta þessi tæki fylgja með.

Vissulega má segja, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði áðan, að það kynnu að vera enn fleiri tæki, sem ættu heima í þessari tollalækkun, en það er ekki gerð tillaga um það að sinni.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en ég taldi alveg óhjákvæmilegt að koma þessari staðreynd á framfæri.