02.02.1982
Neðri deild: 37. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

182. mál, tollskrá o.fl.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég lagði hér strax við 1. umr. fram brtt. varðandi nokkur tollskrárnúmer til að reyna að greiða fyrir því, að málið gæti fengið fljóta og hraða afgreiðslu í gegnum þingið. Ég varpaði fram afskaplega eðlilegum fsp. við 2. umr. málsins þegar fyrir lá að meiri hl. ríkisstj. eða ríkisstj. sjálf, — ég veit ekki hvað ég á að segja um hv. 6. þm. Suðurl., ég hygg að hann hafi viljað samþykkja þessa till., — en að stjórnarliðarnir að öðru leyti væru till. minni andsnúnir, meira að segja hæstv. fjmrh., sá músíkalski maður. Þessir menn fást ekki til að svara hér einföldum fyrirspurnum t. d. um hvort hluti af því, sem þessi till. fjallar um, sé ekki nauðsynleg breyting til þess að við stöndum við alþjóðasamninga.

Þetta er náttúrlega mjög alvarlegt mál og raunar óhjákvæmilegt að við 3. umr. málsins komi eitthvað fram um hver sé skoðun ríkisstj. á því, hvort ekki sé nauðsynlegt vegna milliríkjasamninga okkar að fella niður tolla af hljómplötum. Það er leiðinlegt að þurfa að endurtaka þetta svona oft. Maður hefur stundum haft betri nemendur en hæstv. ráðh., sem maður hefur getað spurt aðeins einu sinni og fengið svar, — meira að segja greindarlegt. En hér er sama hversu oft spurt er. Þá sjaldan svarað er er maður fjarstaddur eða illa er svarað.

Í þessari till. minni er í fyrsta lagi lagt til að fella niður tolla af hljóðfærum. Nú vitum við að í sambandi við innflutningsgjöld hefur sá háttur verið hafður á um atvinnutæki að reynt hefur verið að stilla tollum í hóf. Hljóðfæraleikurum fer mjög fjölgandi hér í landinu, og til þess að þeir geti stundað sína atvinnu verða þeir auðvitað að eiga úrvalshljóðfæri. Þeir verða að endurnýja þessi hljóðfæri á eigin kostnað eðlilega þar sem hér er um frjálsan atvinnurekstur að ræða, en þeir hafa ekki notið þeirrar náðar stjórnvalda að tillit sé tekið til þessa.

Nú skulum við aðeins líta á hver kostnaður er fyrir þetta fólk að endurnýja sín hljómlistartæki, ef þau gömlu eru úrelt, ef þetta fólk hefur verið svo illa fjáð þegar það fluttist til landsins að það hefur ekki haft efni á að kaupa sér flygil eða dýr tæki erlendis að loknu námi og þannig fengið tækið tollfrjálst inn í landið. Góður flygill eða sembal eða hljóðfæri af því tagi kostar í innkaupum til landsins um 150 þús. kr. Af þessu tæki tekur ríkið 100 þús. kr. til viðbótar, sem fer beint í vasa ríkisins. Verkfærakostnaðar úrvalspíanóleikara eða semballeikara yrði í þessu tilviki 250 þús. kr., 25 millj. gamlar. Hér er venjulega um lágtekjufólk að ræða þar sem eru hinir íslensku hljóðfæraleikarar. Til þess að þeir geti endurnýjað sín hljóðfæri verða þeir að leggja mjög hart að sér, og ég hygg að oftast sé það svo að þeir hafi ekki tök á því að vera með almennileg verkfæri í höndunum eftir því sem starfsreynsla þeirra verður lengri.

Auðvitað er þetta óþolandi ástand. Hér er ekki um háar fjárhæðir að tefla fyrir ríkisvaldið. Það er einungis 30% tollur á þessum strengjahljóðfærum sem eru með hljómborði, og ég hygg að ef allt sé talið mundi tekjumissir ríkissjóðs af þessu kannske vera einhvers staðar á bilinu 1–2 millj. varðandi þessi stærri hljómlistartæki.

Ég vil einnig að það komi alveg skýrt fram, að þessi skattur er þungaskattur. Þegar um smærri hljóðfæri er að ræða, svo sem flautur, klarinettur, fiðlur eða annað því um líkt, eiga hljómlistarmennirnir auðvelt með að koma með ný og dýr tæki inn í landið, um leið og þeir eru á ferðalögum, og komast auðveldlega í gegnum tollinn með þessi tæki. En hin stærri og þyngri hljóðfæri eru auðvitað þyngri í meðförum og þar gegnir allt öðru máli.

Af þessum sökum og til þess að vilji deildarinnar og vilji hæstv. ríkisstj. varðandi þetta mál liggi alveg ljóst fyrir mun ég flytja þá brtt. hér við 3. umr. málsins að kljúfa þetta hvort tveggja í sundur. Annars vegar ætla ég að taka hljóðfærin og flytja brtt. í sérstakri grein um að enginn tollur verði á hljóðfærum sem flutt eru í landið. Hins vegar ætla ég að hafa sérstaka grein um að tollur verði felldur niður af hljómplötum til þess að það komi alveg skýrt fram hver sé skoðun meiri hl. Alþingis á því hvort með þessari tollheimtu sé verið að brjóta í bága við gerða milliríkjasamninga eða ekki. Þetta hvort tveggja verður að koma skýrt fram við afgreiðslu þessarar deildar.

Ef ekki stæði svo sérstaklega á að formaður þingflokks míns hefði um það samið að þessari umr. skyldi ljúka nú fyrir kl. 1, hefði ég vitaskuld ekki orðið til viðtals um að umr. lyki án þess að fá skýr svör varðandi þær spurningar sem ég hef lagt fram. Það er einungis vegna þess að ég vil ekki ómerkja orð formanns míns sem ég fellst á að þessi umr. haldi áfram. En ég vænti þess, að hæstv. fjmrh., þegar honum finnst tími til kominn, — ef hann setur eitthvert mál í nefnd mega þm. helst ekki um það tala hér í deildinni, — ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. taki ábendingar mínar til greina, ef hann hefur þá taumhald á sínum atkv., nú við 3. umr. og einnig við endurskoðun tollskrárinnar og láti þessar breytingar báðar koma fram að afnema tollinn á hljóðfærunum og á hljómplötunum.

Ég vil vænta þess að hæstv. forseti leiti afbrigða svo að þessi till. megi koma fram.