02.02.1982
Efri deild: 37. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

182. mál, tollskrá o.fl.

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt er samkomulag um að reyna að greiða fyrir framgangi þessa máls hér í dag. Mun ekki standa á okkur sjálfstæðismönnum í því efni. Við munum ekki halda mjög langar ræður, heldur reyna að nota tímann til að vekja athygli á helstu atriðum málsins þannig að það geti komist til ríkisstj. nú um miðjan daginn.

Þetta mál er ekki stórt í sniðum, en samt er kannske athyglisvert að þarna er aðeins rýmkað til í tollamálum, heldur linað á skattheimtunni, og auðvitað hljótum við að gleðjast yfir því, ekki síst kannske vegna þess að teknar eru einmitt þær vörutegundir sem hér eru upp taldar, þó að margar aðrar þyrftu helst að fylgja með, svo sem ýmiss konar borðbúnaður og annað til heimilanna sem er nú í lúxustolli. En út í þá sálma skal ég ekki fara ýkjalangt hér.

Þess er að geta, að það upplýstist á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. beggja deilda í gær, þar sem hagstofustjóri og ráðuneytisstjóri í fjmrn. voru mættir, að breyting verðlags þyrfti að vera orðin 5. eða 6. byrjaðs mánaðar þegar verið er að reikna út vísitölugrunninn til þess að það komi til hækkunar eða lækkunar við þann útreikning. Hagstofustjóri upplýsti þar með, að sú lækkun á þessum tækjum, sem inn í vísitölugrunninn yrði tekin, yrði að vera komin til framkvæmda í síðasta lagi n. k. föstudag svo að unnt yrði af Hagstofunnar hálfu að taka þessar lækkanir inn þannig að ríkisstj. næði þeim tilgangi sínum að falsa vísitöluna rétt einu sinni með þessum hætti. Menn hafa eins og kunnugt er verið að kaupa þessi tæki í ríkum mæli að undanförnu, því að allir vissu að gengisfelling var yfirvofandi, og því eru ekki miklar líkur til að mikið seljist af þessum tækjum alveg á næstunni. En hvað sem um það er vil ég benda á að það er næsta ólíklegt að þessar vörur verði komnar með lægra verði í verslanir n. k. föstudag. Ég skil varla hvernig það á að gerast. Okkur er sagt að það verði að hafa þennan hraða á við afgreiðsluna nú til þess að lögin hafi öðlast gildi á þeim degi, en ég á bágt með að trúa því, að verslanir, hvort heldur eru kaupmenn eða kaupfélög, rjúki til þann sama dag til að koma þessum vörum á framfæri við almenning, en eins og ég sagði áðan upplýsti hagstofustjóri á þessum fundi að það væri skilyrðið, að vörurnar væru komnar á hinn raunverulega markað, en ekki bara búið að lögbjóða að raunveruleg lækkun komi fram síðar. Þetta er sem sagt eitt lítið dæmi um handarbakavinnu þessarar hæstv. ríkisstj. Það er allt saman gert af slíkum vandræðum að engu tali tekur.

Við stjórnarandstæðingar fengum afhentar s. l. miðvikudag svonefndar efnahagstillögur. Væntanlega hefur ríkisstj. verið búin að gera sér einhverja grein fyrir þessu máli þá og hefði verið í lófa lagið að leggja frv. fram á þeim degi og ekkert staðið á okkur að afgreiða það. Og það er athyglisvert, hvað þessir æðstu embættismenn segja við okkur á nefndarfundum. Þannig segir hagstofustjóri að þetta mál sé dálítið gruggugt, — dálítið gruggugt málefni, — og hann segist ekki geta með vissu sagt fyrir um hvað vísitalan raunverulega verði, enda ekki eðlilegt þar sem verið er einmitt að verðtaka í búðum einmitt þessa dagana. Engu að síður telur ríkisstj. sig þess umkomna að segja fyrir um hver verðbólguþróun verði ekki bara á næstu mánuðum, heldur út árið og jafnvel lengra fram í tímann. Að vísu er það, sem þessi hæstv. ríkisstj. og raunar fyrri stjórnir líka kalla verðbólguþróun, auðvitað engin verðbólguþróun. Það er kolfölsuð framfærsluvísitala og ekkert annað. Það eru margfaldar verðhækkanir, bæði duldar í töpum á ríkisfyrirtækjum og ýmsum fyrirtækjum öðrum í landinu, sem er auðvitað verðbólga, og þar eru neysluvenjur allar aðrar en nú. T. d. bensínið, sem sífellt er skattlagt til að afla tekna í ríkissjóð og skattlagt að hundraðshluta hversu mikil sem hækkunin er erlendis, mælist sáralítið í vísitölunni. Það er í rauninni ekki verið að tala um neina verðbólgu, heldur falsaða framfærsluvísitölu. Þegar menn eru að tala um, að þeim hafi tekist að standa við eitthvert markmið um 40 eða 42% verðbólguþróun á síðasta ári, er það auðvitað fölsun í bak og fyrir. Þetta er enginn mælikvarði á verðbólgu. Þetta er allt saman útreiknað með tómum fölsunum. Og hér á við þetta að bæta. Það er ekkert nýtt. Það hefur þessi stjórn ástundað frá fyrsta degi.

Ráðuneytisstjórinn í fjmrn. viðhafði t. d. þessi orð á fundinum í gær: Ég held ég víki mér undan að svara spurningum sem að þessu lúta á þessu stigi, þ. e. hver lækkunin vegna niðurgreiðslnanna yrði. — Hagstofustjórinn sagði orðrétt: „Við höfum einfaldlega ekki upplýsingar um hvað hafi verið ákveðið af hæstv. ríkisstj., vitum ekkert um hvað hefur verið ákveðið.“ — Sjálf Hagstofan veit ekkert um hvað hefur verið ákveðið í ríkisstj. Kannske er ekki búið að ákveða nema sáralítið af þessu. Kannske veit ríkisstj. það ekki sjálf. Samt er ætlast til að fólk trúi því, að með þessum aðgerðum nái menn einhverjum tökum á verðbólgunni og geti reiknað út nærri því upp á prósentustig hver hún eigi að verða allt árið. Þetta er allt á sömu bókina lært. Ráðuneytisstjórinn í fjmrn. sagði raunar líka að það væri ekki búið að fylla upp í allar eyður, hann þyrfti að fá tækifæri til að hafa það nokkurn veginn rétt og þess vegna gæti hann ekki svarað. Hann sagði líka að hann teldi rétt að það yrði gerð grein fyrir málinu í heild, en ekki þessum eina afmarkaða þætti, sem kannske kemur ekki til með að hafa nein áhrif nú, eins og ég gat um áðan, ef vörurnar hafa ekki lækkað n. k. föstudag.

Þetta eru ummæli æðstu embættismanna þessarar hæstv. ríkisstj. um framferðið í heild, um ráðleysið, dugleysið og stjórnleysið á öllum sviðum. Þeir fóru ekki dult með þetta og báðu engan fyrir það svo að ég tel mér heimilt að skýra frá þessu hér. Að vísu var undir fundarlok gefið hlé þannig að ráðuneytisstjórinn gæti komist til að afla þessara upplýsinga. Þá taldi hann að það væri kannske hægt að nefna eitthvað nálægt 2.8% lækkun vísitölu vegna niðurgreiðslnanna og 0.22% vegna þessa máls, sem hér er til umr. ef það þá á annað borð hefur nokkur áhrif eða verðið verður yfirleitt lækkað í nokkurri verslun. En það munu vera ákveðin vörumerki sem stuðst er við til að hafa samræmi milli mælinga vísitölunnar. Kann að vera að eitthvað verði gert til að reyna að koma einum eða tveim skápum eða hrærivél af því vörumerki í einhverja búð til að hægt verði að miða við það. Ég spurðist raunar fyrir um hvort það yrðu kannske endurgreiddir tollar af þeim vörum sem í búðunum væru, þannig að unnt væri að miða við hið lægra verðlag, en því var svarað neitandi og raunar talið að það væri svo lítið af þessum varningi í búðunum því að þetta væri sótt daglega í Tollvörugeymsluna. Má vera að það séu hin stærri tæki, en ég hygg að hin minni og ódýrari séu í töluverðum birgðum í búðunum og sjálfsagt verða kaupmenn og kaupfélög að lækka þær vörur, þegar nýjar koma á markaðinn, og bera þann skaða sem af því leiðir. Ég er ekki kominn til með að sjá að þeir geri það allir á föstudaginn, jafnvel þó að þetta frv. verði þá orðið að lögum, en það má kannske segja að það sé bættur skaðinn vegna þess að hér er auðvitað fyrst og fremst um vísitölufölsun að ræða, eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á, og farið aftan að fólkinu rétt einu sinni.

En meginefni málsins hins vegar, lækkun þessara tolla, styðjum við sjálfstæðismenn, eins og fram kemur í nál. sjálfstæðismanna í Nd., og einmitt þess vegna munum við greiða fyrir því, að málið fái framgang í dag, ekki til að hjálpa til við þessa vísitölufölsun, hún kemst kannske ekki fram hvort eð er, heldur til að þetta spor sé þó stigið til að lækka hina ógnarlegu tolla sem eru á ýmsum brýnustu nauðsynjum til heimilishalds.