02.02.1982
Efri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

182. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er löngu orðið tímabært að endurskoða þann frumskóg, sem hér er í aðflutningsgjöldum, og fella niður lúxustolla á almennri nauðsynjavöru. Það frv., sem hér er flutt, nær einungis til fáeinna vörutegunda og er með því marki brennt að um sé að ræða fyrst og fremst þá viðleitni ríkisstj. að koma í veg fyrir greiðslu verðbóta á laun og spila á rangan vísitölugrundvöll. Þessi tilgangur sést best á því, að fyrirhugað er að leggja á sérstakt nýtt tollafgreiðslugjald sem ætlað er að skili ríkissjóði meiri tekjum en tapast við tollalækkunina. Almenningur á því að borga brúsann og vel það.

Fjölmargar algengar neysluvörur verða áfram í lúxustolli: hnífapör með 123% tolli og vörugjaldi, grænmeti með 70–111% aðflutningsgjöldum og svipað gildir um ýmis hreinlætistæki, skóáburð og rakkrem svo að dæmi séu tekin. Þessi breyting á tollum er þannig mjög takmörkuð í eðli sínu, en hún nær þó til vöruflokka sem nauðsynlegt er að lækka tolla á. Á hinn bóginn er ósamræmi í því, til hvaða heimilistækja breytingin nær. Undirritaður telur óhjákvæmilegt að samræmi sé í breytingunni, eins og segir í nál., og gerir till. um það á sérstöku þskj. Ég legg til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu. Þar er till. um að tollar á rafknúnum heimilistækjum, svo sem rafmagnspönnum, hitunartækjum til heimilisnota, kaffikönnum, hársnyrtitækjum, grænmetiskvörnum og sambærilegum eldhústækjum, verði lækkaðir með sama hætti og frv. gerir ráð fyrir, enda þar um að ræða heimilis- og eldhústæki alveg með sama hætti og frv. gerir ráð fyrir. Enn fremur er lagt til að algengustu búsáhöld heimilanna, venjuleg hnífapör, verði tekin úr lúxustolli og látið nægja að tolla þau með 40% álagi.