02.02.1982
Efri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

182. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég gat þess í ræðu minni áðan, að almenningi væri ætlað að borga brúsann af þessari tollalækkun og vel það með álagningu sérstaks tollafgreiðslugjalds. Þessu mótmælti hæstv. fjmrh. í rauninni í ræðu sinni áðan í orðum, en sannaði hins vegar réttmæti þess í tölum, því að hann sagði að tollafgreiðslugjaldið ætti að gefa 50–60 millj. kr. í tekjum, en tollalækkunin ætti að nema 22 millj. kr. Þarna er mismunur upp á 28–38 millj. kr. Hann á að fara í að brúa allt annað bil. Hann á að fara í að létta gjöldum af atvinnurekstrinum eins og launaskatti. Það kom fram í máli hæstv. ráðh. að þannig er málið í pott búið. Launaskattinn greiðir atvinnureksturinn í landinu, en ekki almenningur, en tollafgreiðslugjaldið verður greitt af neyslu almennings í landinu langtum frekar en af fyrirtækjunum. Það sannaðist því af tölum þeim, sem hæstv. fjmrh. fór hér með, að almenningi er ætlað að borga brúsann og næstum tvöfalt.