02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

179. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Nú er eftir að vita hvort mér tekst að vekja vonir hjá hv. 1. landsk. þm., en ég ætla samt að leyfa mér að svara fsp. eins og hún kemur fyrir og eins glögglega og unnt er.

Hv. fyrirspyrjandi hefur rakið margar af staðreyndum þessa máls, en ég ætla samt að leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum og rifja upp einnig í samfelldu máli hvernig þetta mál horfir við hjá mér.

Það var 24. okt. 1980 sem ég skipaði nefnd til að gera tillögur um vörslu og svokallaða „grisjun“ embættisgagna sem Þjóðskjalasafn á að gildandi lögum að veita viðtöku og varðveita. Einnig var nefndinni falið að fjalla um þátt héraðsskjalasafna í gagnavörslu. Í nefndinni áttu sæti þeir þrír menn, sem hv. fyrirspyrjandi nefndi: Dr. Aðalgeir Kristjánsson skjalavörður, sem var formaður, dr. Gunnar Karlsson prófessor og Jón E. Böðvarsson borgarskjalavörður. Svo gerist það, að með bréfi, sem er dagsett 21. sept. 1981, skilaði nefndin álitsgerð um þetta mál ásamt frv. til laga um skjalavörslu opinberra stofnana, Þjóðskjalasafn og héraðsskjalasöfn svo og drögum að reglugerð við þessi frumvarpsdrög. Álitsgerðin og frv. hafa verið athuguð og ekki er ólíklegt að gera þurfi nokkrar breytingar á frv.

Ákvörðun um grisjun skjala er sannast sagna mjög mikið vandamál og erfitt að segja fyrir um hvers konar skjöl kunna að hafa gildi fyrir framtíðina. Þess vegna hlýtur þetta mál að vera enn á umræðustigi. Jafnvel þó að svo ágætir menn sem þessir þremenningar hafi innt af hendi gott verk þarf að kanna þetta mál miklu betur.

Ég viðurkenni að það er á að líta í þessu mikla skjalaflóði, sem nú dynur á mönnum og stofnunum og yfirleitt alls staðar, hvar sem er í þjóðfélaginu, að naumast verður unnt að varðveita allt þó tekin yrði í notkun nýjasta tækni í þessu efni. Nefndarmönnunum er sjálfum ljóst hvílíkur vandi er hér á höndum, og þeir vita og hafa bent á að það eru engir sérfræðingar í þessum efnum hér á landi. Þeir leggja því til að fenginn verði erlendur sérfræðingur til ráðuneytis um málið, og þeir nefna í gögnum sínum nafn eins manns. Það er Harald Jörgensen, sem áður var yfirmaður fyrir Landsarkivet for Sjælland í Danmörku. Ráðuneytið hefur samþykkt þessa hugmynd og þegar beðið sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn að ræða þessi mál við dr. Harald Jörgensen.

Ég vil taka það fram mjög skýrt, að nefndin, sem hér er um að ræða, stóð mjög vel að verki. Hún hefur unnið gott undirbúningsstarf, og ég er ekki í nokkrum vafa um að það mun koma að góðum notum í sambandi við úrbætur í starfsemi Þjóðskjalasafnsins. Tillögur nefndarinnar eru vissulega hinar athyglisverðustu, en ég held samt að nefndarmenn verði að virða mönnum það til vorkunnar þó að þeir séu ekki alveg sannfærðir um að þeir hafi komið með lausnarorðið og það þurfi ekki frekar um að tala. Ef þeir eru eitthvað móðgaðir yfir því, að þeim hafi ekki verið sinnt, kannast ég ekki við það og kemur mér ákaflega á óvart ef það er einhver sérstök ástæða til að hafa orð á því hér í hv. Alþingi og gera sérstaka fsp. út af því, því að ég held að þessir menn allir, sem ég þekki nokkuð til, séu það einurðarmiklir að þeir gætu borið upp sín mál sjálfir við mig og við hvern annan sem er í ráðuneytinu og ekki þurfi sérstaklega að hafa um þetta mörg orð hér á Alþingi. — En ég endurtek að þessir menn, sem voru reyndar skipaðir af mér, hafa unnið ágætt verk. Þeir skiluðu sínu áliti eins og til stóð fyrir nokkrum mánuðum, mál þeirra er í athugun og höfuðtillögur þeirra eru til eðlilegrar meðferðar í ráðuneytinu.

Annars er um þetta mál að segja, sem er ekki síður ástæða til að athuga, að minnast verður sérstaklega á aðbúnað og húsnæðismál Þjóðskjalasafnsins almennt. Það er hverju orði sannara, að Þjóðskjalasafn býr nú við þrengsli, og það á líka 100 ára afmæli á þessu ári og væri ákaflega æskilegt á afmælishátíð að geta fengið þjóðskjalaverði í hendur lykla að veglegra og rýmra húsnæði. Það er rétt, sem fram hefur komið hjá hv. fyrirspyrjanda, að Þjóðskjalasafnið býr við mikil þrengsli og það er nauðsynjamál að bæta úr þessu ástandi.

Aðalstöðvar Þjóðskjalasafnsins eru í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Safnið býr þar í sambýli við Landsbókasafn og hefur lengi gert það. Mun láta nærri að Þjóðskjalasafn hafi til umráða um 1/3 af rými Safnahússins. Auk þess hefur Þjóðskjalasafn yfir að ráða tveimur skjalageymslum í borginni, þ. e. á Laugavegi 178 og í húsi Sambands ísl. samvinnufélaga við Tryggvagötu. Þetta er leiguhúsnæði. Þessar geymslur eru 600 fermetrar að flatarmáli. Segja má að þessar geymslur leysi úr sárasta vanda safnsins miðað við aðstæður nú, en það breytir því ekki, að þörf Þjóðskjalasafns fyrir aukið og varanlegt húsnæði er mikill og aðkallandi. Aðbúnaður Þjóðskjalasafnsins er því miður ekki í samræmi við þær kröfur sem til safnsins eru gerðar og þar er mikilla úrbóta þörf. Þetta er mér fyllilega ljóst.

Hins vegar er nauðsynlegt að hv. alþm. átti sig á þessu máli í heild og athugi, ef svo má segja, hina hlið þessa máls, nefnilega hvað fyrirhugað er að gera í húsnæðismálum Þjóðskjalasafns, hver stefna stjórnvalda er í þeim málum. Þess er þá að geta, að húsnæðisvandi Þjóðskjalasafns er ekki einstakur né einangrað fyrirbæri, því miður, vil ég segja. Fleiri söfn eiga við húsnæðisvanda að stríða og þar nefni ég umfram allt Landsbókasafn sem lengi hefur búið í sambýli við Þjóðskjalasafnið í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ég tel óhjákvæmilegt að líta samtímis og sameiginlega á þarfir þessara tveggja menningarstofnana. Veit ég reyndar ekki annað en fyrirrennarar mínir í ráðherrastóli hafi haft svipaða afstöðu hvað þetta snertir, enda liggur slíkt alveg beint við og önnur afstaða kemur naumast til greina.

Alkunna er að framtíðarhúsnæði Landsbókasafns verður í Þjóðarbókhlöðunni, sem er að rísa við Birkimel í Reykjavík. Bókhlöðumálið hefur verið mjög lengi á döfinni og margar ríkisstj. í heilan mannsaldur hafa gert sig sekar um seinlæti í því að koma Þjóðarbókhlöðu upp, enda sýnir saga þess máls að það hefur ekki alltaf átt miklum skilningi að fagna meðal ráðamanna þjóðarinnar. Á þessu hefur þó orðið breyting. Ríkisstj. leggur nú höfuðáherslu á byggingu Þjóðarbókhlöðu, enda hefur smíðinni miðað vel síðustu tvö ár og fyrirhugað er að vinna að byggingunni á þessu ári fyrir mikla fjármuni. Þó tekur enn nokkur ár að ljúka byggingunni. Það er rétt, að ég hafði þau orð við hv. fyrirspyrjanda í gær svona í framhjáhlaupi, að ég teldi að það gæti tekið 4–5 ár að ljúka byggingunni. Ég ætla ekkert að breyta þeim tölum. Ég held að það mætti ljúka þessu á 4 árum án þess að of mikið sé sagt og það þyrfti reyndar að gera. En þess verða menn að gæta, að hér er um mjög stórt hús að ræða og kostnaðarsama byggingu, enda verið að leysa húsnæðisþörf tveggja aðalbókasafna landsins um langan aldur og gert ráð fyrir að þau sameinist í eitt í Þjóðarbókhlöðunni, þ. e. Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið. En þegar smíðinni er lokið mun Landsbókasafnið flytja alla starfsemi sína í Þjóðarbókhlöðuna og þá losnar það rými sem Landsbókasafnið hefur undir höndum í Safnahúsinu við Hverfisgötu, og það stendur opið Þjóðskjalasafni. M. ö. o.: ég tel að leysa verði húsnæðisþörf Þjóðskjalasafns með því að það fái til afnota allt Safnahúsið við Hverfisgötu. Sú afhending getur auðvitað ekki farið fram við hátíðlega athöfn á 100 ára afmæli Þjóðskjalasafnsins á þessu ári, en ég tel að nú horfi í rétta átt um stækkun húsrýmis safnsins og það er að mínum dómi aðalatriðið.

Þjóðskjalasafnið mun eftir nokkur ár fá allt Safnahúsið til umráða. Það er sú meginstefna sem ég fylgi í húsnæðismálum safnsins, enda hlýtur hún að teljast viðunandi á þessu stigi málsins, Hitt er trúlegt, að áður en margir áratugir líða þurfi að huga að nýrri frambúðarbyggingu. En ég held að það sé vel fyrir hlutum séð ef innan 4 ára, kannske 5 ára, verður hægt að flytja Þjóðskjalasafn í annað laust pláss í því húsi sem það nú er í og þá muni mjög um það rýmka, eins og af því sést að það er núna í um það bil 1/3 af byggingunni og mundi þá fá hina 2/3 hlutana þegar þar að kemur. Hitt er líka jafnljóst, að það er möguleiki á að byggja geymslur eða leigja geymslur fyrir ýmislegt sem Þjóðskjalasafni tilheyrir og það þurfa ekki endilega að vera mjög kostnaðarsamar byggingar. Mér finnst því engin ástæða til að vera að örvænta neitt um framtíð Þjóðskjalasafnsins, vegna þess að það hefur sennilega sjaldan eða aldrei horft betur en einmitt nú á þessum dögum um húsnæði fyrir safnið og ætla má að úr sé að rætast í þeim efnum áður en allt of langt um liður.