02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

116. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég get fyllilega tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda, að fyrirspurnir í fsp.-formi í Sþ. nýtast ekki alltaf sem skyldi og er þar margt sem ber við. Það segir sína sögu, að meira en tveir mánuðir eru liðnir síðan fsp. þessi kom fram. — En svar mitt við henni, til viðbótar því sem þegar hefur fram komið um þetta mál í sambandi við framlengingu á lögum um verðjöfnunargjald af raforku, er þannig:

Mönnum er væntanlega enn í fersku minni raforkuskorturinn á s. l. vetri. Vatnsaflsstöðvar landsins önnuðu þá engan veginn raforkuþörfinni. Var afhendingu á allri afgangsorku hætt og forgangsorka skert bæði til stóriðju og almenningsrafveitna. Skerðingin til rafveitnanna var m. a. bætt með framleiðslu á raforku í olíukyntum stöðvum og var þannig komist hjá beinni rafmagnsskömmtun til almennings. Heildarkostnaður við þessar aðgerðir var talinn nema rúmum 24 millj. kr., auk þess sem Landsvirkjun varð fyrir verulegu tekjutapi með minnkandi sölu. Hluti þessa kostnaðar var greiddur með almennri verðhækkun á rafmagni í þrjá mánuði. Það, sem á vantaði, var tekið að láni af Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða, en góð staða Laxárvirkjunar gerði henni kleift að komast hjá lántöku. Aðrar rafveitur fengu útgjöld sín að fullu bætt með verðhækkunum í þrjá mánuði. Rafmagnsveitunum og Orkubúinu voru gefin fyrirheit um að lánin yrðu endurgreidd af verðjöfnunargjaldi næsta árs. Samkvæmt nýsamþykktum verðjöfnunargjaldslögum verður varið allt að 3% af verðjöfnunargjaldinu á þessu ári til að greiða niður lán þau sem tekin voru, en þau námu 6.1 millj. kr. hjá Rafmagnsveitum ríkisins og 4.7 millj. kr. hjá Orkubúi Vestfjarða.

Vegna raforkuskortsins á s. l. vetri og hins mikla kostnaðar, sem af honum leiddi, reyndist ekki unnt að nýta heimild þá sem var í gildandi lögum um að lækka verðjöfnunargjaldið úr 19% í 16% frá 1. júní s. l. Fjárhagsstaða Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins reyndist það slæm þegar metið var hvort nýta ætti áðurnefnda heimild, að alls ekki þótti fært að skerða þennan tekjustofn. Verður verðjöfnunargjaldið því óbreytt eða 19% á þessu ári, en lög um verðjöfnunargjald verða endurskoðuð fyrir lok ársins og þá í tengslum við úttekt á fjárhagsstöðu Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins og stefnumörkun um verðlagningu á raforku í landinu.

Eins og hv. fyrirspyrjandi veit og er raunar áhugamaður um er fyrirhugað að fara ofan í saumana á verðlagningu á raforku í landinu og er fyrirhugað á næstu dögum að sérfróðir aðilar frá Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins og Orkustofnun ásamt iðnrn. hefji vinnu til að reyna að skapa betri grunn til að meta framleiðslukostnað raforku hjá þessum aðilum, samræma þær reikniforsendur sem notaðar eru, þannig að auðveldara sé að sjá hvaða áhrif mismunandi aðgerðir hafa á heildarmynd verðlagningar í landinu.

Í þessu svari er vitnað til erfiðleika í vatnsbúskap landsmanna veturinn 1980–1981. Menn hafa heyrt það nýverið, að þrátt fyrir að ný virkjun sé komin í gagnið með tveimur aflvélum sé enn þá ekki aðeins skerðing á afgangsorku, heldur hafi Landsvirkjun talið nauðsynlegt af öryggisástæðum að skerða nokkuð afhendingu á forgangsorku. Þau mál eru í sérstakri athugun og umræðu milli rn. og Landsvirkjunar, ekki síst með tilliti til langtímaviðhorfa í þessum málum og varðandi þær áætlanir sem gerðar hafa verið og hafa stórlega raskast vegna þeirra veðurfarsaðstæðna sem við höfum búið við og reynt á undanförnum árum.