02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

116. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans og hef engar athugasemdir við þau að gera.

Ég tel mjög nauðsynlegt að hv. Alþingi fylgist mjög vel með þessum verðjöfnunarmálum. Við höfum dæmi um það, að á síðasta þingi voru sett lög um sérstakt gjald, söluskattur var hækkaður, til að jafna hitunarkostnað í landinu. Hluti af tekjum vegna þessa sérstaka gjalds er nú varið til almennra útgjalda ríkisins, en ekki til þess sem upphaflega var að stefnt. Á sama hátt er viss hætta á því, og ég vil vara við því, að menn noti verðjöfnunargjaldið af raforku í vísitöluleiknum og þá á þann veg að halda niðri raforkuverði hér í Reykjavík til að halda niðri vísitölu, en greiði þá úr vanda annarra rafveitna sem í vandræðum eru og fá ekki hækkað frekar en Reykjavík með því að halda verðjöfnunargjaldinu óbreyttu jafnvel þótt möguleiki væri á að lækka það eitthvað. Ég held að það sé ekki komið til þess enn að sú hætta sé fyrir hendi, miðað við þau svör sem hæstv. ráðh. gaf, en með þessu þarf Alþingi að fylgjast mjög rækilega.