02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

346. mál, raforkuverð til fjarvarmaveitna

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Í sambandi við þessa fsp. dettur mér í hug sú umr. sem hér hefur farið fram um fyrirspurnaformið á hv. Alþingi, að farið er nokkuð úr skorðum það fyrirkomulag sem nauðsynlegt er til þess að fsp. komi að tilætluðu gagni. Er það bæði vegna þess, hvernig þessi fsp. er upp byggð, og einnig vegna þess, hvað hefur dregist og dregist að svara fsp.

Í sambandi við það, hvernig þessi fsp. er fram lögð, tilheyrir hún í mínum huga fyrst og fremst árinu í fyrra. Hún var borin upp á hv. Alþingi í fyrra og fengið svar við henni þá. Grunnur fsp. er raunverulega brostinn, brast þegar á s. l. ári, vegna þess að þá voru þegar komnar upplýsingar um að það lá ekki fyrir lengur að möguleiki væri á að koma upp fjarvarmaveitum, eins og fyrirhugað hafði verið, á norðanverðu Snæfellsnesi, sökum þess að upplýst var að verðlagning orku væri þá þegar of há til þess að nokkur rekstrargrundvöllur væri fyrir slíkar framkvæmdir. Eins er hitt, að jafnvel þó að við höfum verið í einhverjum vafa um að svo hefði ekki verið í haust, þm. Vesturl., vissum við það vel eftir fund, sem við áttum með orkumálastjóra og forustumönnum frá RARIK fyrir nokkrum dögum, að þessi staða var því miður ekki lengur fyrir hendi. En hugmyndin bak við fsp. er eftir sem áður jafngild. Hvernig má það verða, að svæði eins og norðanvert Snæfellsnes losni við þann mikla orkukostnað sem þar er, þ. e. olíukyndinguna, og hvaða leiðir er hægt að fara til þess að svo megi verða?

Eins og hv. 1. þm. Vesturl. upplýsti áðan hafa sveitarfélögin á Vesturlandi fyrir nokkrum árum hafið undirbúning að því að kanna þessi mál, og nú í byrjun mars er ákveðinn fundur þar sem þessi mál skulu rædd og væntanlega lagðar linur um hvaða stefna verði tekin upp í þessum málum. Um það þarf ekki að hafa orð hvað það er nauðsynlegt. Einnig hafa þorpin, sérstaklega Stykkishólmur og Ólafsvík, undirbúið fjarvarmaveituuppbyggingu. Við á Hellissandi erum þó kannske komin lengst vegna þess að við höfum þegar hafið lögn fjarvarmaveitu um byggðina í því skyni að byggja svo við hana er fram líða stundir og betri aðstæður gefast til þess, jafnvel kannske heitt vatn úr iðrum jarðar, eða þá að sú tíð kæmi að hægt væri að byggja upp fjarvarmaveitu með ódýrari orku en nú er á boðstólum.