02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

346. mál, raforkuverð til fjarvarmaveitna

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það er auðvitað alger misskilningur hjá hv. 4. þm. Vesturl., að þessi fsp. eigi ekki alveg eins rétt á sér núna og í fyrra. Stefna virðist fyrst núna vera að sjá dagsins ljós af hálfu iðnrn. Ráðh. sagði í svari sínu í fyrra að stefna yrði mótuð mjög fljótlega, en það er nú fyrst sem þessi mál eru að skýrast. Þessi fsp. var og lögð fram löngu, löngu áður en þm. Vesturlands héldu fund með yfirmönnum Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins.

Það hefur komið fram í þessum umr., að bæjaryfirvöld á þéttbýlisstöðunum á norðanverðu Snæfellsnesi hafa lagt mikla vinnu í undirbúning fjarvarmaveitna. Það er ósköp eðlilegt. Hæstv. iðnrh. vitnaði hér til bréfa um þessi efni, en mig langar til að vitna til bréfs sem hæstv. ráðh. skrifaði þm. Vesturl. 15. ágúst 1979. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Vekur rn. sérstaka athygli á því mati Rafmagnsveitnanna og Orkustofnunar, að fjarvarmaveitur séu álitlegar í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi og sé ekki eftir neinu að bíða með að hefjast handa með undirbúning fjarvarmaveitna á þessum stöðum.“

Þetta er auðvitað sú forsenda sem þessi bæjarfélög byggðu athuganir sínar og í ýmsum tilvikum framkvæmdir. En þessi forsenda hefur nú brugðist.

Það er alveg ástæðulaust af hæstv. iðnrh. að vera að þakka mér hlý orð í sinn garð. Ég vildi að íbúarnir á þessum stöðum gætu þakkað honum fyrir hlýju, en því er því miður ekki að heilsa, og þá á ég við hlýju í hinum eiginlega skilningi. Ég er þó ekki að væna hæstv. ráðh. um að hann beri sérstakan kala til íbúa þessara staða, síður en svo.

En varðandi þetta mál í heild er það auðvitað pólitísk ákvörðun hvert orkuverð er frá Rafmagnsveitum ríkisins til fjarvarmaveitna af þessu tagi. Ég hef áður lýst þeirri skoðun, að þar beri að meta hinn félagslega þátt líka. Það er ekkert sem segir að það sé óhagganleg staðreynd að þetta sé óhagkvæmt. Það er ekkert sem sannar það. Það er pólitísk ákvörðun hvernig taxtar Rafmagnsveitna ríkisins eru ákvarðaðir. En hitt vil ég benda á, að verði sú leiðin farin að velja þarna beina rafhitun eða rafhitun með túpu verður auðvitað að ráðast í margvíslegar framkvæmdir, bæði til að styrkja orkuflutningskerfið um Nesið, en til að styrkja innanbæjardreifikerfin ekki síður. Þetta kom í ljós á fundi sem við þm. Vesturl. áttum með yfirmönnum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkustofnunar. Ég minni á það, að við afgreiðslu síðustu fjárl. leyfði ég mér að flytja till. um að styrkja flutningskerfið með því að treysta raforkuflutning frá spennistöð á Vogaskeiði og niður í Stykkishólm. Sú till. var felld, þannig að það virðist ekki blása sérlega byrlega fyrir því, að raforkukerfið á þessu svæði verði gert þannig úr garði að íbúarnir geti notið rafmagnshitunar.

Ég ítreka þá skoðun mína, að menn mega ekki horfa allt of fast á, hvernig verðlag Rafmagnsveitna ríkisins er núna, og menn mega ekki heldur gera ráð fyrir að það ástand í vatnsbúskap orkumála, sem nú hefur verið s. l. tvo vetur, þurfi endilega að vera svo um langa framtíð. En ég ítreka það, að meginatriði þessa máls er auðvitað að íbúar þessara þéttbýlisstaða á norðanverðu snæfellsnesi fái viðunandi úrlausn í þessum málum, og til þess eru fleiri leiðir en ein.